Tillögur spretthóps til að styrkja geislameðferð á Landspítala
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur fengið í hendur tillögur spretthóps um aðgerðir til að styrkja geislameðferð á Landspítala og stytta bið sjúklinga eftir þessari þjónustu. Hópurinn var stofnaður í lok júní vegna upplýsinga um að bið krabbameinssjúklinga eftir geislameðferð væri að lengjast og líkur á að sú þróun héldi áfram ef ekki væri gripið til aðgerða. Í meðfylgjandi skýrslu hópsins eru lagðar til margþættar aðgerðir til að tryggja öryggi og tímanlega meðferð sjúklinga. Ráðherra skoðaði aðstæður á geislameðferðardeild Landspítala í gær og ræddi við forstjóra spítalans og stjórnendur á deildinni um útfærslur og leiðir til að hrinda tillögum spretthópsins sem hraðast í framkvæmd.
Öll geislameðferð hér á landi er veitt á Landspítala. Krabbameinsgreiningum hefur fjölgað á liðnum árum sem hefur aukið álag á geislameðferðardeild spítalans og fyrirsjáanlegt er að komum á deildina muni fjölga samkvæmt spám þar að lútandi. Biðtími eftir geislameðferð allra krabbameina hefur lengst á síðustu misserum. Biðtíminn er lengstur hjá tveimur stærstu sjúklingahópunum, þ.e. annars vegar sjúklingum sem bíða geislameðferðar vegna blöðruhálskirtilskrabbameins og hins vegar brjóstakrabbameins.
„Starfshópurinn leggur til aðgerðir sem vonandi verður hægt að hrinda nokkuð fljótt í framkvæmd meðan aðrar taka lengri tíma. Við verðum með markvissu átaki að stytta bið eftir þessari mikilvægu þjónustu“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra: „Aukin mönnun sérhæfðs starfsfólks vegur þungt og tímabundin lenging á opnunartíma geislameðferðardeildar, aukin sjálfvirkni í verkferlum og möguleikar þess að senda fleiri, sem það geta, í meðferð erlendis.“ Hún segir að þegar þurfi að hefja undirbúning að kaupum þriðja línurhraðalsins og endurnýjun þess elsta. Það þurfi að huga að nauðsynlegri stækkun húsnæðis bæði til að koma þriðja línuhraðlinum fyrir og til að bæta aðstöðu starfsfólks. Til lengri tíma litið þurfi að byggja starfsemina upp með hliðsjón af lýðfræðilegri þróun og spám um fjölgun krabbameina, bæði hvað varðar tækjakost og húsnæði. Síðast en ekki síst snúist þetta um leiðir til að tryggja menntun og nýliðun sérhæfðs starfsfólks svo unnt verði að manna þjónustuna með þeim mannafla sem hún krefst til framtíðar. Tillögur hópsins séu einnig um þetta.
Heilbrigðisráðuneytið mun nú vinna áfram úr tillögum hópsins í samstarfi við viðkomandi stofnanir þannig að úr verði bætt eins fljótt og mögulegt er. Markmiðið er að tryggja sjúklingum skjótari og öruggari aðgang að lífsnauðsynlegri meðferð, jafnt nú sem í framtíðinni.
Auk fulltrúa ráðuneytisins áttu sæti í hópnum fulltrúar frá Landspítala, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Sjúkratryggingum Íslands. Heilbrigðisráðherra vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem komu að vinnu hópsins fyrir skjót viðbrögð.