Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2015 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að reglugerð um atvinnuréttindi farmanna til umsagnar

Drög að reglugerð um menntun, þjálfun og atvinnuréttindi farmanna eru nú til kynningar hjá innanríkisráðuneytinu. Unnt er að senda umsagnir á netfangið [email protected] til og með 30. janúar nk.

Með reglugerðinni verða innleidd í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/106/EB um lágmarksþjálfun sjómanna, ásamt þeim breytingum sem urðu á henni með tilskipun 2012/35/ESB. Tilskipunin byggist á samþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers, STCW-samþykktin).

STCW-samþykktin var samþykkt árið 1978 og öðlaðist gildi 1984 en með henni voru í fyrsta sinn settar samræmdar reglur um menntun, þjálfun og útgáfu skírteina farmanna. Hefur hún verið talin ein mikilvægasta alþjóðasamþykkt sem gerð hefur verið til að auka öryggi sjómanna.

Árið 2010 voru gerðar umtalsverðar breytingar á STCW-samþykktinni, svokallaðar „Manila-breytingar“, m.a. varðandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir sviksamlegt athæfi að því er varðar útgáfu skírteina, heilbrigðiskröfur, öryggisþjálfun og þjálfun á sviðum sem snerta tæknileg málefni. Með Manila-breytingunum voru einnig teknar upp kröfur um sérhæfða farmenn og búin til ný stöðuheiti, t.d. skiparafvirkjar.

Manila-breytingarnar voru teknar upp í tilskipun 2008/106 með tilskipun 2012/35/ESB. Til að innleiða að fullu framangreindar tilskipanir þykir ástæða til að ný reglugerð komi í stað reglugerðar sem nú er í gildi um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 416/2003, með síðari breytingum. Mikilvægt er að þessar nýju reglur komist í gagnið sem fyrst til að koma í veg fyrir frekari seinkun á upptöku Manila-breytinganna í íslenskan rétt til þess að viðhalda samkeppnishæfni farmanna á Evrópska efnahagssvæðinu ásamt því að standa vörð um öryggi um borð í skipum fyrir tilstuðlan þjálfunar sem samrýmist nútímakröfum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira