Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 16. apríl 2021

Heil og sæl,

Hér kemur fyrsti föstudagspósturinn eftir páska og að venju kennir ýmissa grasa í utanríkisþjónustunni.

Af dagskrá ráðherra síðustu vikur ber hæst fjarfundur utanríkis- og varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins þar sem meðal annars var tekin ákvörðun um að binda enda á aðgerðir bandalagsins í Afganistan. „Bandalagið hefur ásamt samstarfsríkjum og öðrum alþjóðastofnunum unnið að friði og umbótum í Afganistan í tuttugu ár. Þessu hafa fylgt miklar fórnir en jafnframt hefur mikið áunnist, ekki síst hvað varðar lýðræði, mannréttindi, menntun og réttindi kvenna og barna, sem mikilvægt verður að standa vörð um. Baráttan gegn hryðjuverkum heldur áfram, þó með öðrum hætti,“ sagði Guðlaugur Þór að fundi loknum.

Sama dag ávarpaði Guðlaugur Þór ráðstefnu þingmannanefndar norðurslóða þar sem hann gerði grein fyrir formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu síðastliðin tvö ár og sat fyrir svörum. Í opnunarávarpinu lagði hann áherslu á að þrátt fyrir að heimsfaraldurinn hafi geisað stóran hluta af formennskutímabili Íslands í Norðurskautsráðinu með tilheyrandi takmörkunum væru flest formennskuverkefni Íslands á áætlun. Ísland lætur af formennsku í Norðurskautsráðinu á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík 19.-20. maí næstkomandi, eins og greint var frá í flestum fjölmiðlum í gær. Rússland tekur þá við formennskunni og mun Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að líkindum mæta hingað til lands og taka við fundarhamri Norðurskautsráðsins. 

Ráðherra var einnig í fréttum í gær í tengslum við óvenjulegt mál þar sem íslenskur maður var settur á svokallaðan svartan lista hjá kínverskum stjórnvöldum, en sá hinn sami hefur gagnrýnt kínversk stjórnvöld með greinarskrifum. Guðlaugur Þór sagði í viðtali við Morgunblaðið að það hafi komið sér á óvart að slíkt skyldi beinast gegn íslenskum ríkisborgara sem hafi einungis verið að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til málfrelsis. „Það er óviðunandi að hann skuli sæta slíkri meðferð,“ sagði Guðlaugur Þór. 

Í síðustu viku tók ráðherra síðan þátt í ráðherrafundi kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hjá Alþjóðabankanum. Þar lagði hann sérstaka áherslu á mikilvægi þess að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki í þróunarlöndunum og að viðspyrnuaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins nái til kvenna.

Þá að sendiskrifstofunum:

Tvö trúnaðarbréf hafa verið afhent frá páskum. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, afhenti Marcelo Rebelo de Sousa, forseta Portúgals, trúnaðarbréf sitt þann 12. apríl við hátíðlega athöfn.

🇮🇸 🇵🇹 Unnur Orradóttir Ramette sendiherra í París afhenti Marcelo Rebelo de Sousa, forseta Portúgals, trúnaðarbréf sitt...

Posted by Utanríkisráðuneytið - utanríkisþjónusta Íslands on Monday, 12 April 2021

Þann 9. apríl afhenti Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Japan, Naruhito Japanskeisara trúnaðarbréf sitt við hátíðlega athöfn í keisarahöllinni í Tókýó.

Sendiráð Íslands í Washington stóð í gær fyrir fjarráðstefnu um orkuskipti í samgöngum en á meðal þátttakenda voru Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Erna Solberg forsætisráðherra Noregs. Ráðstefnan var haldin í samvinnu sendiráða Norðurlandanna í Bandaríkjunum og World Resources Institute.

Í gær tók Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, þátt í pallborðsumræðum um forystuhlutverk Íslands í aðgerðabandalagi átaksverkefnisins, Kynslóð jafnréttis, um að útrýma kynbundnu ofbeldi ásamt Delphine O, sendiherra og sérlegri framkvæmdastýru verkefnisins í Frakklandi. 

Þá afhenti Þorbjörn Jónsson, ræðismaður Íslands á Grænlandi, ljóðskáldinu og baráttukonunni Katti Frederiksen Vigdísarverðlaunin í gær, 15. apríl, á afmælisdegi Vigdísar Finnbogadóttur. Vigdísarverðlaunin eru veitt árlega einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu menningar og þá einkum tungumála.

Þann 13. apríl stóðu Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Berlín fyrir vefkynningu um þýska matvælamarkaðinn. María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Berlín, ávarpaði fundinn og bauð íslensk fyrirtæki velkomin til Þýskalands og sagði frá þjónustu sendiráðsins.

Ísland er svo í hópi Vesturlanda, sem í vikunni hafa á fundum ÖSE hvatt til þess, að Rússar láti af ögrunum gagnvart Úkraínu. Miklir liðsflutningar hafa verið af hálfu Rússa nálægt landamærunum við Úkraínu, auk þess sem fréttir hafa borist af fyrirætlunum þeirra að takmarka siglingar á Azovhafi og Svartahafi í trássi við alþjóðalög. 

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Japan, tók þátt í skemmtilegri áskorun á samfélagsmiðlum þann 9. apríl þegar hann deildi uppskrift að makríl, að áeggjan norska sendiherrans í Tókýó í tilefni sérstaks sabo dags í Japan.

Alþjóðlegi heilbrigðisdagurinn var svo haldinn hátíðlegur þann 7. apríl síðastliðinn og að því tilefni deildi sendiráð Íslands í Malaví tölulegum upplýsingum um árangur þróunarsamvinnu Íslands í landinu á sviði heilbrigðis á síðustu árum. 

Þann 7. apríl birtist síðan grein eftir Sturlu Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London, í tímaritinu DiplomatMagazine þar sem hann fjallar um hvernig það sé að flytja í nýja borg í miðjum heimsfaraldri, samskipti Íslands og Bretlands, loftlagsbreytingar, grænar lausnir og jarðvarma. Hér er hægt að lesa greinina í heild.

Á dagskrá ráðherra í næstu viku er heimsókn til Akureyrar þar sem norðurslóðamál verða ofarlega á baugi.

Bestu kveðjur,

upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum