Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Fjölgun atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs - reglugerð til umsagnar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið óskar eftir umsögnum um meðfylgjandi drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 397/2003 um leigubifreiðar. 

Samkvæmt ákvæði reglugerðar nr. 397/2003  skal samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fara yfir og endurskoða fjölda atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs á hverju takmörkunarsvæði fyrir 1. september ár hvert.

Hámarksfjöldi atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs hefur haldist óbreyttur í fjölda ára. Síðast var gerð breyting á hámarksfjölda útgefinna atvinnuleyfa árið 2009 þegar einu leyfi var bætt við takmörkunarsvæði 2. Þar áður hafði verið gerð breyting á hámarksfjölda leyfa á takmörkunarsvæði 3 árið 2006 þegar bætt var við einu leyfi. Ekki hefur verið gerð breyting á hámarksfjölda atvinnuleyfa sem gefin eru út á svæði 1 frá því að reglugerð nr. 397/2003 um leigubifreiðar var sett árið 2003. Í hjálögðum drögum er lagt til að atvinnuleyfum verði fjölgað um 100. Forsendur breytinga eru íbúafjölgun annars vegar og gífurleg fjölgun erlendra ferðamanna hins vegar.

Ráðuneytið hefur nýverið farið yfir forsendur atvinnuleyfa og meðfylgjandi er tillaga að endurskoðaðri reglugerð.  Umsagnir berist á [email protected] til og með 3. ágúst.

Helstu breytingar

Helstu breytingar í drögunum snúa að  hámarksfjölda atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs á takmörkunarsvæðum í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 397/2003.

Takmörkunarsvæði eru þrjú og útgefin atvinnuleyfi eru 589 talsins.

Svæði 1 tekur til Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga þar sem útgefin eru að hámark 560 leyfi eða 95,07% leyfanna.

Svæði 2 tekur til Akureyrar þar sem útgefin eru að hámarki 21 leyfi eða 3,57%.

Svæði 3 tekur til Árborgar þar sem útgefin eru að hámarki 8 leyfi eða 1,35%.

Í hjálögðum drögum er lagt til að atvinnuleyfum verði fjölgað um 100. Forsendur breytinga eru íbúafjölgun annars vegar og gífurleg fjölgun erlendra ferðamanna hins vegar.

Forsendur breytinga

Íbúaþróun og áhrif fjölgunar ferðamanna á takmörkunarsvæðunum

Ljóst er að á síðustu árum hefur orðið mikil aukning í fjölda erlendra ferðamanna sem sækja landið heim auk þess sem íbúafjöldi hefur aukist talsvert. Við endurskoðunina hefur ráðuneytið meðal annars litið til tölulegra gagna um íbúaþróun á landinu og takmörkunarsvæðum, heimsóknir erlendra ferðamanna og seldar gistinætur til þeirra.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur íbúafjöldi aukist á öllum takmörkunarsvæðum frá árinu 2002.  

Á svæði 1 hefur orðið aukning um 23,47%.

Á svæði 2 hefur orðið aukning um 15,93%.

Á svæði 3 hefur orðið aukning um 40,01%.

Fjölgi atvinnuleyfum um 100 samtals er það fjölgun leyfa um tæp 18%. Að meðaltali hefur íbúum á takmörkunarsvæðunum fjölgað um 26,47% frá árinu 2002.

Árið 2017 er íbúafjöldi á takmörkunarsvæðunum þremur samtals 267.610 manns. Af þeim búa um 90% á svæði 1, um 7% búa á svæði 2 og um 3% búa á svæði 3.

Ljóst er að fjöldi atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs hefur ekki haldist í hendur við íbúafjölgun á takmörkunarsvæðum. Þá er ljóst að mikil aukning hefur átt sér stað í fjölda ferðamanna sem sækja landið heim.

Líkur standa til þess að erlendir ferðamenn nýti sér helst þjónustu leigubifreiða á svæði 1 þar sem þar er að finna alþjóðaflugvöll sem þeir fara flestir um auk lang stærsta þéttbýliskjarna landsins. Á svæði 2 er um að ræða minni þéttbýliskjarna þar sem líklegt er að ferðamenn þurfi í minna mæli að nýta sér þjónustu leigubifreiða en nýti sér frekar aðrar samgönguleiðir. Á svæði 3 er loks að finna minnstu þéttbýliskjarnana af þeim sem takmörkunarsvæðin ná yfir og líklegt er að þeir ferðamenn sem geri sér ferð þangað nýti sér í meira mæli bílaleigubifreiðar, hópbifreiðar og aðra samgöngumáta sem þykja henta betur til langferða.

Niðurstaða

Réttast þykir að miða hlutföll nýrra atvinnuleyfa sem heimilt yrði að gefa út samkvæmt nýrri reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 397/2003 um leigubifreiðar við íbúafjölda á takmörkunarsvæðunum enda þykir það gefa réttustu mynd af því hvar þörfin er mest.

Verði gefin út 100 atvinnuleyfi til viðbótar við þau sem fyrir eru er því lagt til að þau dreifist á takmörkunarsvæðin þrjú í réttu hlutfalli við íbúafjölda svæðanna.

Á svæði 1 búa 240.651 eða 90% íbúa takmörkunarsvæðanna og því þykir rétt að 90 af hinum 100 nýju leyfum verði gefin út þar. – Lagt er til að hámarksfjöldi  verði því 650 atvinnuleyfi á svæði 1.

Á svæði 2 búa 18.488 eða 7% íbúa takmörkunarsvæðanna og því þykir rétt að 7 af hinum 100 nýju leyfum verði gefin út þar. – Lagt er til að hámarksfjöldi verði því 28 atvinnuleyfi.

Á svæðið 3 búa 8.471 eða 3% íbúa takmörkunarsvæðanna og því þykir rétt að 3 af hinum 100 nýju leyfum verði gefin út þar. – Lagt er til að háámarksfjöldi verði því 11 atvinnuleyfi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira