Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Ályktun um stöðu mannréttinda í Íran samþykkt

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag árlega ályktun um ástand mannréttinda í Íran sem ríkjahópur undir forystu Íslands lagði fram. Ályktunin tryggir áframhaldandi umboð sérstaks skýrslugjafa til að fylgjast með og gefa mannréttindaráðinu reglubundna skýrslu um ástand mannréttindamála í Íran.

Í nýjustu skýrslu Javaid Rehman, sérstaks skýrslugjafa, er áréttað að ástand mannréttindamála í Íran sé afar slæmt. Þarlend sjórnvöld beiti meðal annars dauðarefsingum í þeim tilgangi að berja niður mótmæli borgara.

„Alvarleg mannréttindabrot halda áfram að eiga sér stað í Íran og er ljóst að stjórnvöld brjóta ítrekað og kerfisbundið á fólki og neita þeim um þau mannréttindi sem Íran er þó skuldbundið að alþjóðalögum til þess að tryggja. Mikilvægt er að stjórnvöld þar finni fyrir þeim alþjóðlega þrýstingi sem felst í umfjöllun á þessum vettvangi, en dæmin sýna að hann getur haft áhrif til góðs,” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Ísland, Bretland, Moldóva og Norður-Makedónía, sem mynda ríkjahóp um ályktunina, ákváðu í fyrsta sinn í rúmlega tíu ára sögu hennar að bæta efnislega við ályktunartextann; annars vegar tilvísun til sérstakrar rannsóknarnefndar sem var sett á laggirnir að frumkvæði Íslands og Þýskalands í nóvember síðastliðnum og hins vegar sérstakri fordæmingu á fjölgun aftaka í kjölfar mótmælanna í Íran síðastliðið haust.

Einar Gunnarsson fastafulltrúi Íslands bar ályktunina upp í atkvæðagreiðslu í mannréttindaráðinu fyrr í dag. 53 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna voru meðflytjendur. Ályktunin var samþykkt með 23 atkvæðum, 8 greiddu atkvæði gegn og 16 sátu hjá. 47 aðildarríki SÞ hafa atkvæðisrétt í ráðinu hverju sinni og er þessi niðurstaða með því mest afgerandi sem sést þegar í hlut eiga ályktanir sem fjalla um einstök ríki.

„Það er einkar uppörvandi að sjá að hinn miklu stuðningur við frumkvæði Íslands og Þýskalands í haust, í kjölfar dauða Jina Mahsa Amini, skilar sér einnig í auknum stuðningi við þessa árlegu ályktun,” segir Einar Gunnarsson sendiherra.

Í kvöld lýkur 52. fundarlotu mannréttindaráðsins. Lotan hófst á sérstakri ráðherraviku þar sem utanríkisráðherra flutti ávarp.

Ísland á mikið og gott samstarf við Norðurlönd og Eystrasaltsríki á vettvangi mannréttindaráðsins. Ríkin átta voru með 39 sameiginleg ávörp og flutti Ísland 7 þeirra auk nokkurra innleggja í eigin nafni. Ávörpin má lesa á vefsíðu fastanefndar Íslands í Genf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum