Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 26. nóvember 2021

Heil og sæl!

Við færum ykkur hér það helsta sem hefur drifið á daga utanríkisþjónustunnar í vikunni.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur haft í nógu að snúast þrátt fyrir að hafa þurft að fara í sóttkví í byrjun vikunnar.

Í gær stakk hann niður penna og ritaði grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni „Upprætum kynbundið ofbeldi“ í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem hófst í gær, 25. nóvember, sem jafnframt er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gagnvart konum.

Í greininni bendir ráðherra á að kynbundið ofbeldi hafi aukist í yfirstandandi heimsfaraldri og við því sé mikilvægt að sporna:

„Sterk staða Íslands á sviði jafnréttismála í alþjóðlegu samhengi er tækifæri til að gegna leiðandi hlutverki á alþjóðavettvangi. Í því samhengi er mikilvægt að styðja við jafnréttisstarf innanlands og að Ísland leggi sitt af mörkum á heimsvísu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson í grein sinni.

Utanríkisráðuneytið og fjölmargar sendiskrifstofur Íslands erlendis hafa verið lýstar upp með roðagylltum lit í tilefni af átakinu sem lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna 10. desember. Aðgerðin er táknræn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis.


Á þriðjudag stýrði ráðherra fundi EFTA-ríkjanna með þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA sem fram fór í Brussel. Guðlaugur Þór tók þátt í fundinum með fjarfundarbúnaði og fór í máli sínu yfir áhersluatriði sögulegrar formennsku Íslands í EFTA-samstarfinu en um er að ræða fyrsta skiptið þar sem tímabil formennskuríkis er eitt ár.

Daginn eftir fundaði EES-ráðið þar sem samstarf ríkja Evrópska efnahagssvæðisins til að tryggja lykilaðföng og hraðari græn umskipti og stafræna þróun voru meðal umræðuefna.

Í tilefni af fundinum áréttaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra mikilvægt hlutverk atvinnulífsins við að skapa grænar lausnir.

„Aðgerðir til að efla öryggi aðfanga eiga að miða að því að fjölga valkostum í aðfangaöflun, frekar en að reisa múra. Þegar kemur að grænum umskiptum og stafrænni þróun er lykilatriði að leysa úr læðingi hugvit og nýsköpun, ekki síst varðandi grænar lausnir. Hlutverk atvinnulífsins og þær lausnir sem fyrirtæki þróa verða lykillinn að því að takast á við loftslagsvanda og tryggja lífskjör sem aftur skapar sátt um umbreytinguna,“ sagði Guðlaugur Þór. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, fór fyrir sendinefnd Íslands í fjarveru utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Sendiskrifstofur okkar hafa margar hverjar birt skemmtilegar myndir af húsakynnum sínum í tilefni fyrrnefnds átaks. Þær má sjá hér að neðan.













Á vikulegum fundi fastaráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sem fram fór með fjarfundarsniði í gær, þann 25. nóvember, skartaði Kristín A. Árnadóttir, fastafulltrúi í Vín, að sjálfsögðu appelsínugulu. Kristín tók til máls á fundinum og ítrekaði mikilvægi Istanbúlsamningsins og annarra alþjóðlegra og svæðisbundinna samninga um kynjajafnrétti til að binda enda á ofbeldi gegn konum.

Tveggja daga fundi um aðgerðir gegn mansali á vegum Sameinuðu þjóðanna lauk síðla gærdags í New York. Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ, hélt ræðu Íslands og greindi meðal annars frá aðgerðaráætlun og lagabreytingum heima fyrir, auk þess að leggja áherslu á gildi alþjóðasamvinnu í baráttunni gegn mansali þar sem konur og stúlkur eru iðulega helstu fórnarlömb og þolendur.“ Ræðuna má lesa á stjórnarráðsvefnum.




Í Genf var framkvæmdastjóri WTO, Dr. Ngozi Okonjo-Iweala, heiðursgestur á hádegisverðarfundi sendiráðsbústað fastafulltrúa Íslands. Ísland leggur áherslu á jafnrétti kynjanna í viðskiptum og leiðir, ásamt Botswana og El Salvador, starf Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í jafnréttismálum. Á fundinum var fjallað um  drög að yfirlýsingu ráðherra um málið. 

Í Berlín hélt Friðrik Larsen frá íslenska markaðssetningarfyrirtækinu Brandr kynningu á starfsemi fyrirtækisins fyrir aðilum innan viðskiptageirans í Þýskalandi í sameiginlegu húsnæði norrænu sendiráðanna. Sendiherra María Erla Marelsdóttir bauð gesti velkomna, en tilefni kynningarinnar var að fyrirtækið hóf nýlega starfsemi í Þýskalandi.

Í dag tendraði svo sendiherra Íslands í Berlín María Erla Marelsdóttir jólatréð sem stendur á torginu milli norrænu sendiráðanna í Berlín. Eftir það gátu starfsmenn sendiráðanna notið jólatónlistar frá öllum Norðurlöndunum.

Í Kaupmannahöfn var nóg um að vera í vikunni. Á miðvikudag bauð Helga Hauksdóttir sendiherra  íslenskum og dönskum aðilum til móttöku í sendiherrabústaðnum í samstarfi við Business Iceland- Green by Iceland í þeim tilgangi að kynna og leiða saman þessa aðila. Viðburðurinn var vel heppnaður og standa vonir til að þar hafi skapast sambönd sem munu leiða gott af sér.

Þá bauð hún aðilum í tónlistar- og kvikmyndageiranum í samvinnu við Record in Iceland, Film in Iceland og Vision Denmark til kynningarmóttöku í sendiráðsbústaðnum í gær. Film in Iceland er verkefni á vegum Íslandsstofu sem hefur í um tvo áratugi kynnt Ísland fyrir erlendum kvikmyndaframleiðendum sem ákjósanlegan stað fyrir kvikmyndatökur og með því leitt til fjölmargra tækifæra, starfa, sérþekkingu á sviði kvikmyndagerðar og athygli á landinu sem áfangastað. Nánar um það hér.

Í London komu kjörræðismenn til fundar í sendiráðið þar sem helstu viðfangsefni þeirra voru rædd.

Á dögunum lauk Katrina Forberg liðsforingjanámi við breska herskólann Sandhurst fyrst Íslendinga og var veitt viðurkenning fyrir besta árangur erlendra nema. Sturla Sigurjónsson, sendiherra, var viðstaddur hefðbundna og tilkomumikla útskriftarathöfn.

Á Indlandi heimsótti Guðni Bragason sendiherra Wadia-stofnunina (Wadia Institute of Himalayan Geology) í Dehradun á dögunum. Um er að ræða helstu vísindastofnun í jarðfræði Himalajafjalla og landsins í kring

Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Osló, í samvinnu við Film in Iceland, Oslo Film Commission, Music Norway og Record in Iceland, bauð aðilum í kvikmynda- og tónlistargeiranum til kynningar um samvinnu á sviði tónlistar- og kvikmyndaupptöku í embættisbústað Íslands í gær. 



Þá var íslenskum og norskum aðilum og fyrirtækjum boðið í móttöku í embættisbústaðinn í Osló í samstarfi við Business Iceland - Green by Iceland - Nordic Energy Research og Norsk íslenska viðskiptaráðið NIH. 

Auk þess sagði sendiráðið í Osló, sem jafnframt er sendiráð Íslands gagnvart Grikklandi, frá ársfundi Uppbyggingarsjóðs EES í Aþenu sem fram fór nýverið. Karí Jónsdóttir staðgengill sendiherra þátt í fundinum fyrir hönd sendiráðsins. Á fundinum var farið yfir þau fjölmörgu og ólíku verkefni sjóðsins í Grikklandi, nokkur verkefni heimsótt, staða þeirra metin og ný kynnt til sögunnar. 

Í París hélt sendiherra Íslands viðburð í tilefni af útgáfu á nýrri þýðingu á Egilssögu yfir á frönsku, sem unnin er af Torfa Tulinius í samstarfi við Palomu Desoille-Cadiot þýðanda og starfsmann sendiráðsins í París. Fyrr í vikunni hafði Torfi haldið fyrirlestur um Íslendingasögurnar í hinni virtu miðstöð Collège de France sem stofnuð var árið 1530. 

Þá sátu fulltrúar fastanefndar í París fyrsta fund framkvæmdastjórnar eftir stjórnarkjör og hlaut Ísland þar kjör í stjórnarnefnd UNESCO sem fjallar um mannréttindamál í málaflokkum á ábyrgðarsviði stofnunarinnar. 



Íslendingasögurnar voru einnig á dagskrá í Helsinki:


Í Kína fór svo fram hliðarviðburður í tengslum við Heimsþing kvenleiðtoga. Við bendum svo að sjálfsögðu á fréttaveitu sendiráðsins hér.

Við endum svo þennan póst á pylsupartíi í Kanada!

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum