Hoppa yfir valmynd
28. september 2012 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að reglugerð til umsagnar um skaðabætur til handa farþegum vegna flugs sem er aflýst

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum í flugi sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst, seinkað eða flýtt eða vegna tapaðs farangurs eða tjóns á honum. Unnt er að senda athugasemdir til ráðuneytisins til og með 12. október á netfangið [email protected].

Reglugerðin kemur í stað reglugerðar nr. 574/2005 en með henni var innleidd hér á landi reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður (hér á eftir kölluð farþegareglugerðin). Ýmsar breytingar hafa orðið í túlkun EB reglugerðarinnar og í lagaumhverfinu hér á landi sem kalla á nánari útfærslu reglugerðarinnar. Einnig hefur framkvæmd hennar leitt í ljós ýmis álitamál sem rétt þykir að taka af skarið með í nýrri reglugerð og skýra heimildir Flugmálastjórnar Ísland í þeim efnum.

Með gildistöku farþegareglugerðarinnar árið 2005 voru réttindi flugfarþega aukin til muna og farþegum tryggð öflug neytendavernd. Evrópudómstóllinn hefur í framhaldinu aukið enn frekar réttindi flugfarþega með túlkun á farþegareglugerðinni í dómum sínum, m.a. í dómi frá 19. nóvember 2009 (Sturgeon), í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07, þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að túlka bæri farþegareglugerðina með þeim hætti að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi sínu eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Þetta þýðir að allir farþegar sem verða fyrir þriggja tíma seinkun á flugi sínu eða meira og koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunaleg áætlun flugrekendans kvað á um, geta átt rétt á bótum skv. 7. gr., nema flugrekandi geti sýnt fram á að töfin hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna sbr. 3. mgr. 5 gr. Einnig komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að fella tæknileg vandamál, sem leiða til seinkunar eða aflýsingar flugs, undir óviðráðanlegar aðstæður skv. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar, nema vandamálin verði vegna atvika sem samkvæmt eðli sínu koma ekki upp í eðlilegri framkvæmd á rekstri viðkomandi flugrekanda og þau séu óviðráðanleg.

Breytingar hafa verið gerðar á loftferðalögum nr. 60/1998 til að tryggja flugfarþegum þau réttindi sem farþegareglugerðin kveður á um. Með lögum nr. 87/2010 voru gerðar breytingar á loftferðalögum til að styrkja valdheimildir Flugmálastjórnar til að vernda hagsmuni og réttindi flugfarþega. Með þessari breytingu var stofnuninni veitt heimild til að taka stjórnsýsluákvarðanir í ágreiningsmálum milli flugfarþega og flugrekanda, flytjanda, ferðaskrifstofu eða umboðsmanna framangreindra aðila. Þá voru gerðar breytingar á loftferðalögum síðastliðið vor með lögum nr. 50/2012 þar sem flytjandi var einnig gerður ábyrgur fyrir tjóni flugfarþega sem orsakast á því að brottfarartíma er flýtt. Slíkar breytingar á tímaáætlun flytjanda getur leitt til tjóns fyrir farþega með sama hætti og seinkun brottfarartíma. Með lögum nr. 50/2012 var einnig sett inn ný heimild fyrir Flugmálastjórn til að innheimta gjald af eftirlitskyldum aðilum vegna kostnaðar af kvörtunum sem berast frá neytendum.

Þá hafa í sífellt auknari mæli borist kvartanir til Flugmálastjórnar vegna farangursmála. Í reglugerðardrögum þeim sem hér eru til umsagnar er skýrt kveðið á um að reglugerðin gildi einnig um farangur farþega og gert ráð fyrir því að Flugmálastjórn taki ákvarðanir í þeim málum.

Í ljósi reynslu Flugmálstjórnar af úrlausn ágreiningsefna er ljóst að farþegar hafa í töluverðum mæli tapað rétti þar sem þeim láðist að halda eftir kvittunum vegna veitinga, gistingar, ferða til eða milli flugvalla og fjarskipta. Nær undantekningalaust var þetta til komið vegna vanrækslu flugrekenda eða umboðsmanna þeirra á að upplýsa farþega um réttindi sín skv. farþegareglugerðinni. Óeðlilegt verður að teljast að neytandi gjaldi fyrir vanrækslu flugrekenda eða umboðsmanna þeirra á upplýsingaskyldu. Því verður stofnuninni gert heimilt að ákveða viðmið til greiðslu fæðis, gistingar, ferða og fjarskiptakostnaðar þegar þjónustuveitandi vanrækir skyldu um að veita aðstoð eða upplýsingar eins og reglugerðin mælir fyrir um. Sambærilegt ákvæði er í reglugerðinni til að ákveða fjárhæð bóta vegna tjóns á farangri.

Þessar breytingar sem og önnur atriði sem fram hafa komið við framkvæmd Flugmálastjórnar á farþegareglugerðinni og þeim ákvæðum loftferðalaga sem fjalla um réttindi farþega gera það að verkum að gera þarf breytingar á núgildandi reglugerð nr. 574/2005. Reglugerð nr. 574/2005 er eingöngu innleiðingarreglugerð og hefur því ekki að geyma mörg efnisákvæði. Þar sem um miklar breytingar er að ræða og mörg ný efnisákvæði var talið rétt að sett yrði ný reglugerð sem innleiðir reglugerð EB nr. 261/2004 og fellir úr gildi reglugerð nr. 574/2005.

Hér að neðan er að finna drög að reglugerðinni sem og skjal með skýringum við einstakar greinar reglugerðarinnar.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira