Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 18. ágúst 2023

Heil og sæl,

Fyrsti póstur haustannar kemur hér og við lítum yfir nokkra vel valda mola af því sem hefur átt sér stað í utanríkisþjónustunni síðastliðinn mánuð. Landsmenn snúa í auknum mæli aftur til vinnu eftir sumarleyfi um þetta leyti og við vonum að flest séu endurnærð og tilbúin að takast á við verkefni vetrarins.

Árlegur ráðherrafundur um sjálfbæra þróun fór fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í lok júlí. Á fundinum gefst ríkjum heims tækifæri til að kynna stöðu sína á vinnu í þágu heimsmarkmiðanna og var þetta í annað sinn sem Ísland skilar inn skýrslu og greinir frá stöðu sinni. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti myndbandsávarp. Skýrsluna má lesa hér
 

Starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu var lögð niður þann 1. ágúst síðastliðinn og á sama tíma var tilkynnt um áform íslenskra stjórnvalda að auka viðveru Íslands í Kænugarði. Utanríkisráðuneyti Litáens og Íslands gerðu með sér samkomulag um að íslenskir stjórnarerindrekar fái vinnuaðstöðu í sendiráði Litáens í borginni. Með þessu vilja stjórnvöld sýna úkraínsku þjóðinni samstöðu á tímum ólögmæts innrásarstríðs Rússlands.

Landhelgisgæsla Íslands hefur í umboði utanríkisráðuneytisins annast æfingar á öryggissvæðinu í Keflavík í sumar. Flugsveit þýska flughersins kynnti sér aðstæður hér á landi með þrjátíu manna liði í lok júlí og um þessar mundir stendur bandaríski flugherinn fyrir æfingum með bandalagsríkjum í Norður-Evrópu. 200 manna flugsveit kom til landsins síðastliðinn sunnudag og hefur viðveru á öryggissvæðinu næstu vikur á meðan æfingar standa yfir.

Mikilvæg tímamót urðu í Þórshöfn í Færeyjum þegar regnbogafánanum var í fyrsta sinn flaggað við aðalræðisskrifstofu Íslands þar í landi. Samstarfsráðherra Norðurlandanna, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, heimsótti Færeyjar til að taka þátt í gleðigöngunni í Þórshöfn og funda með ráðherrum í ríkisstjórn landsins og heimsækja norrænar stofnanir og var fánanum flaggað af tilefninu. Samstarfsráðherra hélt ræðu í upphafi gleðigöngunnar þar sem hann kom inn á það bakslag sem orðið hefur í réttindabaráttunni víða um heim og áréttaði mikilvægi þess að berjast áfram fyrir sjálfsögðum mannréttindum hinsegin fólks.   

Sendiráð Íslands í Póllandi hefur líka sinnt hinseginbaráttunni af krafti undanfarið. Sendiráðsstarfsmenn hafa gert sér ferð til að taka þátt í smærri göngum víða um landið undir merkjum frumkvæðisins "Diplomats for Equality". 

Sendiráðsstarfsmenn sendiráðs Íslands í Danmörku ganga undir sama hatti í gleðigöngunni í Kaupmannahöfn á morgun.

Íslendingadagurinn var haldinn hátíðlegur í Manitoba, Winnipeg. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sótti hátíðarhöldin fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Tók Áslaug Arna meðal annars þátt í skrúðgöngu, fjallkonuhádegisverði og mótttöku formanns Íslendingadagsins, ásamt því að flytja ávarp við hátíðarhöldin. Hápunktur og megintilgangur ferðarinnar var þó undirritun samkomulags milli Íslands og Kanada um vinnudvöl ungmenna á aldrinum 18-30 ára. 

Greint var frá því í Heimsljósi, fréttaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál, að knattspyrnulið frá Malaví væri væntanlegt á Rey Cup. Liðið var sigurvisst og kom á mótið fyrir tilstilli tveggja Íslendinga sem báðir hafa tengsl við sendiráð Íslands í Lilongve, höfuðborg Malaví þar sem Ísland hefur átt samstarf við stjórnvöld í rúma þrjá áratugi á vettvangi þróunarsamvinnu.  

Það kom svo á daginn að Malavísku drengirnir höfðu aldeilis eitthvað fyrir sér í sigurvissunni enda sigruðu þeir mótið í sínum aldursflokki. Af því tilefni bauð forseti Íslands þeim í heimsókn til Bessastaða.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson kom víðar við sögu en sendiráð Íslands í Berlín sagði frá heimsókn hans á þungarokkshátíðina Wacken þar í landi. Á hátíðinni komu fram hvorki meira né minna en 4 íslenskar þungarokkshljómsveitir. Í tengslum við hátíðina var forsetinn fenginn til að ræða um samband norræns menningararfs og þungarokkssenunnar.

Síðastliðinn föstudag opnuðu sendiherrahjónin í Helsinki, Harald Aspelund og Ásthildur Jónsdóttir, myndlistarsýningu íslensku listakonunnar Ásdísar Arnardóttur og finnsku listakonunnar Laura Pehkonen. Sýningin ber yfirskriftina "Visual Dialogues" þar sem listakonurnar eiga í samtali um íslenska náttúru í gegnum ólíka miðla. 

Þórdís Sigurðardóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, Finnbogi Rútur Arnarson staðgengill forstöðumanns og Vaka Lind Birkisdóttir starfsnemi kvöddu starfsliðið í sendiráði Íslands í Kampala með kurt og pí.

Nýr sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Árni Þór Sigurðsson, tók til starfa í sendiráðinu um síðustu mánaðarmót. Árni Þór kemur til Kaupmannahafnar beint frá Moskvu og mun með haustinu afhenda Margréti Þórhildi Danadrottningu trúnaðarbréf sitt. 

Um svipað leyti afhenti Helga Hauksdóttir, fráfarandi sendiherra í Kaupmannahöfn og núverandi sendiherra í Vín og nýr fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu fulltrúabréf sitt gagnvart Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA). 

Helga tók við af Kristínu A. Árnadóttur sendiherra sem hefur nú látið af störfum fyrir utanríkisþjónustuna og hverfur á vit nýrra ævintýra með haustinu. 

Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London bauð á dögunum til útgáfuhófs í samstarfi við Penguin Random House UK í vikunni í tilefni af enskri útgáfu glæpasögunnar "Reykjavík" eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Ragnar Jónasson glæpasagnahöfund.

 

Ragnar Þorvarðarson sendiráðunautur í sendiráði Íslands í Tókýó tók á móti Cabinet Governor of Fukuoka þar sem þeir ræddu viðskiptahöft Íslands á innflutningi varnings frá Japan, nýlega heimsókn forseta Íslands og jafnréttismál. 

Og í Japan minntist sendiráð Íslands þess einnig að 78 ár eru liðin frá því að kjarnorkusprengju var varpað á Hiroshima.

Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Washington átti nokkra hugvekjandi fundi í sumar, meðal annars með Geeta Rao Gupta, nýjum sendiherra Bandaríkjanna fyrir hnattræn málefni kvenna þar sem sendiherrarnir ræddu sameiginleg áherslumál, áskoranir og mögulega samstarfsfleti. 

Þá sendi hún Íslendingum kveðju í tilefni af hápunkti hinsegindaga í Reykjavík, sjálfri gleðigöngunni.

Við endum þennan föstudagspóst í Póllandi þar sem sendiráðsstarfsmenn deildu með fylgjendum sínum uppskrift að íslenskri skyrköku, skreyttri bláberjum. Við mælum með því að kíkja í berjamó um helgina, baka svo skyrkökuna og skreyta. Verði ykkur að góðu! 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum