Hoppa yfir valmynd
16. desember 2011 Félagsmálaráðuneytið

Allt að 1.500 atvinnuleitendum tryggð störf í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs

´Til vinnu: Frá undirritun samnings
TIL VINNU

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að ráðast strax í byrjun næsta árs í öflugar aðgerðir sem eiga að tryggja allt að 1.500 atvinnuleitendum störf eða starfstengd úrræði. Ásamt stjórnvöldum standa sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins að átakinu, sem ber yfirskriftina „TIL VINNU“.

Aðgerðir í þágu langtímaatvinnulausra munu hafa forgang í þessu tímabundna átaki.  Áætlað er að aðgerðirnar verði til þess að lækka atvinnuleysisstigið um 0,7% á árinu 2012. Sérstaklega verður gætt að því að aðgerðirnar leiði ekki til samkeppnisröskunar eða misnotkunar af hálfu fyrirtækja eða einstaklinga.

Markmið átaksins eru:

  1. Að örva nýráðningar og fjölga störfum
  2. Að einfalda ráðningarferli atvinnurekenda gagnvart starfstengdum úrræðum eins og hægt er
  3. Að auka hagkvæmni þess fyrir atvinnurekendur að ráða langtímaatvinnulausa og auka með slíku líkur á ráðningu þeirra.
  4. Að styrkja stöðu þeirra sem eru að klára rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins og auka líkur á ráðningu þeirra.

Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin muni skapa um helming þeirra starfa sem verða til með átakinu, en fyrirtæki á almennum markaði hinn helminginn. Í því skyni munu Samtök atvinnulífsins ráðast í sérstakt kynningarátak meðal fyrirtækja innan sinna vébanda til að ná þessu markmiði.

Þá er liður í aðgerðunum að gert verði samkomulag um samstarf Vinnumálastofnunar og VIRK - starfsendurhæfingarsjóðs um þjónustu VIRK við þá atvinnuleitendur sem hafa skerta starfsgetu.

Með átakinu mun Atvinnuleysistryggingasjóður greiða hluta stofnkostnaðar við ný störf fyrir atvinnuleitendur. Grunnbætur, sem nema 161.523 krónum á mánuði auk 8% framlags í lífeyrissjóð verða greiddar upp í kjarasamningsbundin laun með hverjum nýjum starfsmanni af atvinnuleysisskrá.

Tímalengd slíks styrks getur orðið allt að tólf mánuðir þegar langtímaatvinnulausir eru ráðnir í ný störf.

Tímalengdin verður óháð þeim tíma sem atvinnuleitandi getur fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Þannig getur atvinnurekandi fengið styrk vegna ráðningar einstaklings af bótaskrá svo fremi sem viðkomandi hafi verið á bótum þegar hann var ráðinn.

Við nýráðningar verður boðið upp á ýmiss konar leiðir. Þar má nefna almennar ráðningar, reynsluráðningar, starfsþjálfun og átaksverkefni.

Til vinnu - hópmynd
Þau sem undirrituðu samninginn, frá vinstri:  Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna, Guðbjartur Hannesson, Elín Björg Jónsdóttir, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja,velferðarráðherra, Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur og Gylfi Arnbjörnsson, formaður Alþýðusambands Íslands.

á stendur til að halda sérstakar atvinnumessur í febrúar þar sem allir atvinnuleitendur verði skylduboðaðir. Í vor voru slíkar messur haldnar vegna hvatningar til náms hjá atvinnuleitendum og gáfu þær góða raun. Því verður byggt á þeirri reynslu við skipulagningu atvinnumessa. Markmiðið með þeim er m.a. að safna saman störfum og úrræðum þannig að sem flestir atvinnuleitendur fái yfirlit yfir störf sem í boði eru og geti í kjölfarið fundið störf.  Jafnframt að sýna atvinnulífinu fjölbreytni þess hóps sem er á atvinnuleysisskrá og að leiða saman atvinnuleitendur og atvinnurekendur.  Stefnt er að því að bjóða að minnsta kosti 1.000 störf á fyrstu messunni í Reykjavík um miðjan febrúar.

Aðgerðirnar sem nú hafa verið samþykktar eru byggðar á grunni tillagna samráðshóps stjórnvalda, stjórnmálaflokkanna og aðila vinnumarkaðarins frá 31. mars á þessu ári. Þá skilaði hópurinn tillögum til ríkisstjórnarinnar sem báru yfirskriftina „Í NÁM – TIL VINNU“.

Tillögurnar og fjármögnun þeirra voru til umfjöllunar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí 2011 og varð samkomulag um það efni, sem fram kom í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011.

Meginefni aðgerðanna var tvíþætt, annars vegar að stuðla að auknum menntunartækifærum fyrir ungmenni og atvinnuleitendur og hins vegar að stórefla starfstengd úrræði fyrir atvinnuleitendur.

Með átakinu „NÁM ER VINNANDI VEGUR“ sem ráðist var í fyrr á þessu ári tókst að tryggja öllu ungu fólki að 25 ára aldri sem þess óskaði námspláss í framhaldsskólum landsins auk þess sem um 1.000 atvinnuleitendur tóku þátt í námstengdum úrræðum.

Frekari upplýsingar veitir Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, í síma 695-9999.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira