Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2014 Innviðaráðuneytið

Skýrsla um erlendar fjárfestingar og endurskoðun laga gerð opinber

Mikilvægt er að ákvarðanir tengdar erlendum fjárfestingum byggist á skýrum almennum reglum er meðal niðurstaðna skýrslu nefndar um endurskoðun á lögum og reglum er varða fjárfestingar og afnotarétt útlendinga að fasteignum hér á landi en nefndin skilaði tillögum sínum nýverið til innanríkisráðherra.

Skýrsla nefndar um endurskoðun á lögum og reglum er varða fjárfestingar og afnotarétt útlendinga á fasteignum hér á landi hefur nú verið birt á vef ráðneytisins. Markmið endurskoðunarinnar er meðal annars að tryggja að skýr lög og reglur gildi á þessu sviði, að treysta lagalegan grunn erlendra fjárfestinga og tryggja að ákvarðanir tengdar þeim byggist á skýrum almennum reglum en ekki á undanþáguákvæðum eða ívilnunum.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að aukin erlend fjárfesting auki hagsæld og fjölbreytileika í íslensku samfélagi og atvinnulífi. Því sé mikilvægt að erlendir aðilar, sem hyggjast fjárfesta hér í fasteignum, viti að hverju þeir ganga með skýrum og aðgengilegum hætti.

Nefndin telur þó að tilteknar takmarkanir á möguleikum erlendra aðila til að öðlast réttindi yfir fasteignum á Íslandi séu bæði réttlætanlegar og nauðsynlegar, m.a. til að standa vörð um sjálfstæði eða fullveldi landsins og möguleika komandi kynslóða til að njóta arðs af auðlindum landsins til lengri framtíðar.

Nefndina skipuðu Katrín Olga Jóhannesdóttir, rekstrarhagfræðingur og jafnframt formaður, tilnefnd af innanríkisráðherra, Sigríður Á. Andersen lögfræðingur, tilnefnd af innanríkisráðherra, Ása Þórhildur Þórðardóttir lögfræðingur, tilnefnd af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Andri Stefánsson skrifstofustjóri, tilnefndur af utanríkisráðherra og Þórður Reynisson lögfræðingur, tilnefndur af iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri, í innanríkisráðuneytinu, og Rebekka Hilmarsdóttir, lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, hafa setið fundi nefndarinnar.

Nú þegar er hafin vinna í innanríkisráðuneytinu og atvinnuvegaráðuneytinu sem felst í því að útfæra tillögur nefndarinnar og í framhaldi af því verður fjallað um þær í ríkisstjórn. Skýrslan er nú birt hér í heild sinni ásamt lögfræðiáliti Juris lögmannsstofu um heimild til að takmarka rétt EES ríkisborgara til eignarréttar eða afnotaréttar að fasteignum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum