Hoppa yfir valmynd
11. júní 2012 Utanríkisráðuneytið

Samningsafstaða Íslands í köflum 9 og 24 birt

Stefán Haukur Jóhannesson aðalsamningamaður Íslands
Stefán Haukur Jóhannesson aðalsamningamaður Íslands

Samningsafstaða Íslands varðandi fjármálaþjónustu annars vegar og dóms- og innanríkismál hins vegar í samningaviðræðum Íslands og ESB hefur verið birt á heimasíðunni viðræður.is. Hún var send framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjunum eftir að um hana hafði verið fjallað í viðkomandi samningahópum, samninganefnd Íslands og utanríkismálanefnd Alþingis, og hún samþykkt í ráðherranefnd og ríkisstjórn. Búist er við því að viðræður hefjist í viðkomandi málaflokkum síðar á þessu ári.

Í samningsafstöðu Íslands í kafla 9 um fjármálaþjónustu kemur fram að kaflinn falli að öllu leyti undir EES-samninginn. Í samningsafstöðunni lýsir Ísland þeim endurbótum á innlendri löggjöf, stjórnsýslu og eftirliti með fjármálaþjónustu sem gerðar hafa verið í kjölfar efnahagshrunsins og leggur áherslu á að allir aðilar máls virði væntanlega niðurstöðu EFTA dómstólsins um framkvæmd tilskipunarinnar um innstæðutryggingar. Ísland óskar eftir því að Viðlagatrygging Íslands sem veitir tryggingu vegna tjóns að völdum náttúruhamfara verði undanþegin ákvæðum tilskipunar um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga.

Kafli 24, um dóms- og innanríkismál, heyrir ekki undir EES-samninginn en undir þennan kafla fellur m.a. Schengen samstarfið, sem Ísland hefur verið aðili að frá 2001.  Þau efni sem kaflinn nær til eru m.a. innflytjenda- og hælismál, mál sem varða landamæri og Schengen, dómstólasamstarf í einka- og sakamálum, lögreglusamvinna, barátta gegn hryðjuverkum og ávana- og fíkniefnum. Í samningsafstöðu  Íslands kemur fram að regluverkið um dóms- og innanríkismál er að miklu leyti byggt á alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland er þegar aðili að og beitir því nú þegar. Er þar meðal annars um að ræða aðild að Lúganó-samningnum og nokkrum Haag-samningum á sviði alþjóðlegs einkamálaréttar, nokkra samninga Sameinuðu þjóðanna og samninga Evrópuráðsins auk samninga sem Ísland hefur gert um aðild að ýmsum stofnunum ESB á þessu sviði.  Í samningsafstöðunni leggur Ísland til viðbót við reglugerð ESB um fullnustu óumdeildra krafna sem gerði Íslandi kleift að neita að viðurkenna dóm í meiðyrðamáli ef um er að ræða svokallað meiðyrðamálaflakk sem hafi mikinn málvarnarkostnað í för með sér.

Samningaviðræðurnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu snúast um 33 kafla í regluverki ESB, auk kafla um stofnanir og annað. Alls hafa 15 samningskaflar verið opnaðir frá því að efnislegar aðildarviðræður hófust í júní á síðasta ári og er samningum þegar lokið um 10 þeirra.  Alls hefur samningsafstaða Íslands í 22 köflum verið birt á viðræður.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum