Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla starfshóps OECD um mútubrot

Skýrsla starfshóps OECD um mútubrot í alþjóðlegum viðskiptum (e. Working Group on Bribery) vegna fjórðu úttektar Íslands var formlega samþykkt á fundi hópsins þann 10. desember síðastliðinn.

Úttekt starfshópsins laut fyrst og fremst að getu og hæfni stjórnvalda til að koma upp um brot sem varða mútugreiðslur til erlendra opinberra starfsmanna, rannsaka þau og saksækja. Í skýrslunni lýsir starfshópurinn áhyggjum yfir því að íslensk yfirvöld hafa enn ekki lokið rannsókn á slíku máli. Er því nokkuð ítarlega fjallað um meint brot Samherja í tengslum við úthlutun veiðiheimilda í Namibíu, enda er það fyrsta mál af þessu tagi sem rannsakað er hér á landi.

Í skýrslunni er einnig fjallað um þann árangur sem náðst hefur hjá íslenskum stjórnvöldum. Ber þar helst að nefna nýlega samþykkt lög um vernd uppljóstrara, eflingu skrifstofu fjármálagreininga og efnahagsbrotadeildar héraðssaksóknara. Einnig má nefna ýmsar lagabreytingar sem snúa t.d. að hækkun refsinga fyrir mútubrot og breytingar á lögum um meðferð sakamála sem heimila nú beitingu allra þvingunarúrræða og sérstakra rannsóknaraðgerða við rannsóknir þessara brota.

Gert er ráð fyrir að Ísland skili skriflegri eftirfylgnisskýrslu eftir tvö ár, þ.e. á fundi hópsins í desember 2022. Í úttektarferlinu setti ráðuneytið á fót óformlegan samráðsvettvang þeirra ráðuneyta og stofnana sem nauðsynlegt var að tækju þátt í undirbúningi og framkvæmd úttektarinnar. Auk dómsmálaráðuneytisins tóku þátt í samráðinu fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, héraðs- og ríkissaksóknara, Skattinum, skattrannsóknarstjóra, Ríkiskaupum og Íslandsstofu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum