Hoppa yfir valmynd
30. júní 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Breytt netöryggisráð og nýr samstarfsvettvangur á sviði netöryggis

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur sett í samráðsgátt drög að reglugerð um netöryggisráð. Netöryggisráð hefur starfað sem samstarfsvettvangur stjórnvalda á sviði netöryggis frá árinu 2015. Hlutverk ráðsins yrði, eftir sem áður, að fylgja eftir framkvæmd stefnu stjórnvalda á sviði net- og upplýsingaöryggis, leggja mat á stöðu netöryggis á Íslandi og vera vettvangur upplýsingamiðlunar og samhæfingar.

Með reglugerðinni yrðu gerðar breytingar á skipan ráðsins sem miða að því að gera ráðið skilvirkara og áhrifaríkara. Fulltrúum ráðsins yrði fækkað úr þrettán í sjö og gerð yrði krafa um góða þekkingu á netöryggismálum og  öryggisvottun. Auk þess er hlutverk ráðsins samkvæmt lögum skýrt nánar. Kveðið yrði á um að ráðið leggi fyrir ráðherra árlegt mat á framkvæmd stefnu og aðgerða á sviði netöryggis. Jafnframt myndi ráðið leggja sjálfstætt mat á stöðu netöryggis á Íslandi og miðla því til ráðherra í formi skriflegs álits.

„Netöryggisráð yrði fagráð, sem leggur sjálfstætt mat á framkvæmd netöryggisstefnu stjórnvalda og stöðu netöryggis hverju sinni. Það mat verður mikilvægt innlegg er kemur að stöðutöku og stefnumarkandi ákvörðunum í málaflokknum“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Eitt af lykilviðfangsefnum netöryggisstefnu Íslands og leiðarljós ýmissa verkefna háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins er að auka samstarf á sviði netöryggis. Auk þess að setja reglugerð um netöryggisráð, hefur ráðuneytið birt í samráðsgátt tillögu um formgerð nýs samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs á sviði netöryggis. Útfærslan  byggir m.a. á innleggi frá fulltrúum nokkurra ríkisstofnana, fyrirtækja og ýmsum samtökum atvinnulífsins sem tóku þátt í vinnustofu um málið sem haldin var 13. apríl sl. Áhersla er lögð á víðtækt samstarf stjórnvalda, atvinnulífs og annarra haghafa, þar á meðal er varðar upplýsingamiðlun, þannig að stjórnvöld og atvinnulíf vinni betur saman, miðli upplýsingum sína á milli, leiðbeini um net- og upplýsingaöryggismál og vinni markvisst að bættu netöryggi.

„Ætlunin er að nýr samstarfsvettvangur gegni mikilvægu hlutverki við að styðja við mótun og framfylgd stefnu stjórnvalda í netöryggismálum, t.a.m. með deilingu á sérfræðiþekkingu, sem brúar bil milli einkageirans og hins opinbera. Við erum að taka mikilvæg skref í mótun slíks vettvangs. Í kjölfarið verður unnið úr því innleggi sem berst í samráðsgátt til þess að setja samstarfsvettvang um netöryggi á laggirnar“ sagði Áslaug Arna.

Frestur til að senda inn umsagnir um reglugerð um netöryggisráð og tillögu um formgerð nýs samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs á sviði netöryggis er til 18. ágúst 2023.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum