Hoppa yfir valmynd
9. október 2019 Utanríkisráðuneytið

Norðurskautsráðið og Efnahagsráð norðurslóða funda saman í fyrsta sinn

Einar Gunnarsson, sendiherra og formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins, ávarpar fundinn - myndArctic Council Secretariat
Nú stendur yfir fundur Norðurskautsráðsins og Efnahagsráðs norðurslóða en þetta er í fyrsta sinn sem ráðin koma saman. Fundurinn er liður í þeirri stefnu að auka samstarf milli ráðanna tveggja en hann er sóttur af fulltrúum aðildarríkja Norðurskautsráðsins, vinnuhópa ráðsins, fastafulltrúum frumbyggjasamtaka á norðurslóðum og fulltrúum viðskiptalífs.

Grunnurinn að þessum fundi var lagður 
í Rovaniemi í Finnlandi síðastliðið vor þegar Ísland tók við formennskukeflinu í Norðurskautsráðinu. Þá undirrituðu fulltrúar beggja ráðanna viljayfirlýsingu um aukið samstarf í þágu sameiginlegra markmiða. Felur þetta í sér samráð og upplýsingamiðlun og er fundurinn fyrsta skrefið á þeirri vegferð. 
 
Á fundinum eru til umfjöllunar fjögur svið þar sem viðfangsefni ráðanna tveggja liggja saman, þ.e.a.s. sjóflutningar og bláa hagkerfið, fjarskipti, sjálfbær auðlindanýting og líffræðilegur fjölbreytileiki, og ábyrgar fjárfestingar og samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Þessi þemu endurspegla áherslur í formennskuáætlunum Norðurskautsráðsins og Efnahagsráðs norðurslóða. Ísland fer um þessar mundir með formennsku í báðum ráðum og ætlar sér að nýta tækifærið til að styðja við aukna samvinnu milli ráðanna tveggja.

„Yfirskrift formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu er Saman til sjálfbærni á norðurslóðum en í því felst að sjálfsögðu að taka þarf í senn tillit til efnahags, samfélags og náttúru. Norðurskautsráðið hefur einbeitt sér mjög að náttúruvernd og velferð íbúa á svæðinu. Nú þegar ný tækifæri á sviði efnahagsþróunar á norðurslóðum blasa við okkur, samhliða þeim miklu áskorunum sem við upplifum, tel ég að við getum notið góðs af því að vinna nánar með Efnahagsráði norðurslóða að ábyrgri efnahagsþróun á svæðinu“ segir Einar Gunnarsson, sendiherra og formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins. 

Heiðar Guðjónsson, formaður Efnahagsráðs norðurslóða, tekur í sama streng varðandi sameiginlega hagsmuni af nánari samvinnu: „Þróun og verðmætasköpun í samfélögum á norðurslóðum eru háð sjálfbærum vexti en hann þarf að byggjast á vísindum og þar hefur Norðurskautsráðið lagt mikið til. Fyrirtæki á norðurslóðum leika lykilhlutverk í vexti, verðmætasköpun og uppbyggingu atvinnutækifæra í samfélögum okkar. Ég er því stoltur af því að taka þátt í að stýra þessum fyrsta fundi okkar og Norðurskautsráðsins, fyrir hönd Efnahagsráðs norðurslóða og hlakka til að ræða mögulega samstarfsfleti okkar, Norðurskautsráðsins og fulltrúa frumbyggjasamtaka á norðurslóðum.“ 

Í grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra sem birtist í Fréttablaðinu í dag er fjallað um fund Norðuskautsráðsins og Efnahagsráðsins. Þar segir hann markmiðið skýrt: „Að vinna sameiginlega að sjálfbærri efnahagsþróun á norðurslóðum, íbúum svæðisins til hagsbóta. Þannig stöndum við sterkari til að tryggja framtíð þessa mikilvæga heimshluta.“
 
 
  • Frá fundinum í dag - mynd
  • Heiðar Guðjónsson, formaður Efnahagsráðs norðurslóða, ávarpar fundinn - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum