Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 16. febrúar 2024

Heil og sæl, 

Nú eru bolludagur, sprengidagur og öskudagur að baki. Sendiráð okkar um allan heim fögnuðu á sinn máta og héldu þannig íslenskri menningu, siðum og venjum á lofti. Um allan heim eru haldnar svipaðar hátíðir um þetta leiti og fólkinu okkar gefst að sjálfsögðu líka tækifæri til að kynnast siðum og venjum þeirra landa þar sem við starfrækjum sendiráð. 

En lífið er ekki bara bollur og búningar.

Varnarmálaráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins fór fram í Brussel í vikunni. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sótti fundinn þar sem aukinn varnarviðbúnaður, framlög til varnarmála og þéttara samstarf við Úkraínu voru á meðal umræðuefna.

Ísland er í hópi 20 ríkja sem hyggjast styðja Úkraínu við sprengjuleit og -eyðingu og var viljayfirlýsing þess efnis undirrituð í tengslum við fundinn.

Málefni Úkraínu og Mið-Austurlanda voru jafnframt í brennidepli á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna sem einnig fór fram í vikunni. Fundurinn var fyrsti fundur ársins í norrænu samstarfi utanríkisráðherranna og tók Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra þátt í fundinum með fjarfundarbúnaði. 

„Okkar sterkustu skilaboð eru áframhaldandi og ófrávíkjanlegur stuðningur við Úkraínu sem og þau gildi sem Úkraínumenn eru að berjast fyrir, það er frelsi og fullveldi. Norðurlöndin hafa góða sögu að segja í þeim efnum og við ættum að vera í fararbroddi í baráttunni fyrir þessum gildum,“ sagði Bjarni á fundinum. 

Síðastliðna helgi héldu þrír fulltrúar utanríkisráðuneytisins til Kaíró, höfuðborgar Egyptalands. Ferðin er liður í undirbúningi aðgerða utanríkisráðuneytisins til aðstoðar við fólk á Gaza með dvalarleyfi á Íslandi og eiga fulltrúar ráðuneytisins í nánu samstarfi við norræn sendiráð og stjórnvöld á staðnum.  

Utanríkisráðuneytið vonast að sjálfsögðu eftir skjótum framgangi mála, en slíkt er háð afgreiðsluhraða og afstöðu stjórnvalda á staðnum.

Jennifer Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna heimsótti Ísland í vikunni átti fundi með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Tilefnið var að ýta úr vör formlegu samstarfi ríkjanna á sviði orkumála. 

Sendiráð Íslands í Washington stóð fyrir viðburði hjá Motion Picture Association í Washington DC í tilefni af sýningu lokaþáttar True Detective: Night Country sem tekinn var upp á Íslandi. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við HBO og mættu margir góðir gestir, meðal annars Deb Haaland innanríkisráðherra Bandaríkjanna. 

Mari Jo Winkler aðalframleiðandi þáttanna og Davíð Logi Sigurðsson fluttu stutt ávarp fyrir sýningu þáttarins. 

Tveggja vikna samningaviðræðum um nýjan samning Sameinuðu þjóðanna um glæpi á internetinu lauk síðastliðinn föstudag. Fulltrúar Íslands tóku virkan þátt í samningaviðræðunum og töluðu þar fyrir áherslumálum í utanríkisstefnu Íslands; mannréttindum og kynjajafnrétti. 

Nordic Film Music Days fara fram í Berlín um helgina með þátttöku allra norrænu sendiráðanna.

Íslenskt listafólk vekur athygli víða um heim, oft með dyggum stuðningi sendiráðanna okkar.

Óformlegur fundur ráðherra ESB sem bera ábyrgð á samkeppnishæfni fór fram í Thor Park í Genk dagana 8. - 9. febrúar. Megin umræðuefni fundarins voru samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar og framtíð innri markaðarins. Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands í Brussel sótti fundinn. 

Norrænir vetrardagar fóru fram í Arbis í Finnlandi með þátttöku norrænu sendiráðanna. Viðburðurinn heppnaðist ljómandi vel enda kunna Norðurlandabúar sitt fag þegar kemur að því að létta lundina og stytta sér stundir á löngum vetrum.

Og talandi um að létta lundina þá fer að koma að því að íslenskur kabarett heimsæki Helsinki.

Harald Aspelund sendiherra Íslands í Finnlandi og eiginkona hans Dr. Ásthildur Jónsdóttir fengu í heimsókn Karen Bottin. Karen er blaðakona sem skrifar fyrir Lögberg-Heimskringlu, dagblað vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku. 

Í tilefni af þjóðhátíðardegi Litháen tók Harald þátt dagskrá í boði forseta landsins Gitanas Nausėda sem fór fram í höfuðborginni Vilníus.

Opnun sýningar Hallgríms Helgasonar í andyri sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn var feykivel sótt. Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands opnaði formlega sýninguna.

Þá bauð sendiráðið ræðismönnum Íslands í Danmörku til árlegs fundar. 

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Malaví sagði frá ánægjulegri heimsókn í Koche Primary School í Mangochi héraði á dögunum. 

Í Kanada gafst áhugasömum tækifæri til að ræða við Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra um utanríkisstefnu Íslands og samband Íslands við Bandaríkin og Kanada.

Hugarheimur kvikmyndagerðamannsins Rúnars Rúnarssonar var til umfjöllunar í Quebec og Montreal.

Kanadísk ungmenni sem langar að kynnast Íslandi betur geta fengið tímabundið dvalarleyfi og styrk til þess.

Hlynur Guðjónsson sendirherra Íslands í Kanada hitti þingkonuna Yvonne Jones og ræddi við hana meðal annars um tengsl Íslands og Labrador og samband svæðisins við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin.

Í Bergen fer um þessar mundir fram glæsileg og metnaðarfull norræn tónleikaröð. Þann 24. febrúar næstkomandi er röðin komin að Íslandi.

Sendiráð íslands í Noregi óskaði öllum þeim til hamingju sem hlutu styrk til norsk-íslensks menningarsamstarfs í ár. Við hlökkum til að njóta afrakstursins.

Og sendiráð í Osló með fyrirsvar gagnvart Grikklandi, þar á meðal sendiráð Íslands, gaf út sameiginlega yfirlýsingu þar sem ákvörðun grískra yfirvalda um lögleiðingu hjónabanda fólks af sama kyni var tekið fagnandi.

Höfundar sem taka þátt í Les Boréales hátíðinni í nóvember í ár voru kynntir til sögunnar. Á listanum eru að sjálfsögðu margir góðir íslenskir. 

Sendiráð Íslands í Stokkhólmi greindi frá hönnunarviku sem fór fram þar í borg í liðinni viku Hönnuðurinn Hanna Dís Whitehead var á meðal þátttakenda og af því tilefni var efnt til móttöku fyrir fagaðila í bás Studio Hanna Whitehead í samstarfi við sendiráðið, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og HönnunarMars.

Í sendiráði Íslands í Tókýó fór fram námskeið fyrir ferðamenn þar sem undrum Íslands voru gerð góð skil í skemmtilegum fyrirlestri.

Þá var japönskum fyrirtækjum í matvælaiðnaði var boðið að smakka eitt og annað íslenskt í sendiráði Íslands í Tókýó. 

Pólverjum gafst tækifæri til að kynnast Íslandi í gegnum augu samlanda sem ólst upp á Íslandi.

Við ljúkum þessari yfirferð í Síerra Leóne þar sem Ísland, ásamt samstarfsfélögum, hefur komið því til leiðar að 60.000 manns í strandbæjum í landinu njóta betri vatns- og hreinlætisaðstæðna en áður.

Fleira var það ekki að sinni. 

Við óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum