Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2015 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Rætt um áherslur og stefnu samgönguáætlunar 2015 til 2026 á samgönguþingi

Samgönguþing var haldið í dag þar sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra kynnti áherslur sínar til samgönguráðs fyrir vinnu við tólf ára samgönguáætlun sem nú er á lokastigi. Birna Lárusdóttir, formaður samgönguráðs, fór yfir helstu áfanga í vinnu við gerð áætlunarinnar en stefnt er að því að ljúka henni á næstu vikum og sömuleiðis umhverfismati áætlunarinnar.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra setti samgönguþing í dag.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra setti samgönguþing í dag.

Auk upphafserinda innanríkisráðherra og formanns samgönguráðs voru flutt erindi um markmið samgönguáætlunar og umhverfismat hennar. Þá var fjallað um áhrif breyttrar lýðfræði á samgöngur, um þrjár sviðsmyndir við framtíðarsýn í samgöngum á Íslandi, fjármögnun umfangsmikilla framkvæmda, samspil skipulagsstefnu og samgöngustefnu og um samgöngur út frá sjónarhóli ferðaþjónustu.

Yfir 100 manns sátu samgönguþing í dag.

Enn brýnna að forgangsraða

Ólöf Nordal sagðist í upphafi ávarps síns leggja áherslu á mikilvægi þess að líta á samgöngukerfið sem eina heild, það eigi að þjóna íbúum landsins og atvinnulífinu og hlutverk okkar væri að leita leiða til að styrkja núverandi kerfi, útvíkka og tryggja að það sinni bæði öryggis- og þjónustuhlutverki sínu. Ráðherra sagði fjármögnun verkefna samgönguáætlunar vera einna erfiðasta þátttinn í því að leggja fram metnaðarfulla áætlun enda ljóst að erfitt væri að sameina áætlun um víðtæk og nauðsynleg verkefni og þá stöðu sem ríkissjóður væri í þessi árin. Á slíkum tímum væri enn brýnna en áður að forgangsraða.

Þá minntist ráðherra á þá leið að kanna aðkomu einkaaðila í einhverri mynd og samstarf við opinbera aðila um uppbyggingu og rekstri innviða landsins, sérstaklega er varðar umfangsmiklar framkvæmdir. Einnig sagði ráðherra að huga þyrfti að undirstöðu fjármögnunar í samgöngukerfinu meðal annars vegna fjölgunar vistvænna ökutækja og sagði hún ljóst að á tímabilinu yrði að koma á nýju kerfi þjónustugjalda ásamt því að aðlaga núverandi kerfi eldsneytisskatta að nýjum veruleika svo jafnræðis verði gætt í gjaldtökunni.

Yfir 100 manns sátu samgönguþing í dag.

Síðan gerði ráðherra grein fyrir áherslum sínum um samgönguáætlun 2015 til 2026.

Sjá má ræðu ráðherra í heild hér .

Erindi á samgönguþingi voru eftirfarandi:

Samgönguáætlun 2015-2026: Birna Lárusdóttir, formaður samgöguráðs

Stefna, markmið og áherslur í samgönguáætlun 2015-2026: Ásta Þorleifsdóttir, sérfræðingur, innanríkisráðuneyti

Umhverfismat samgönguáætlunar 2015-2026: Sigríður Droplaug Jónsdóttir, VSÓ-Ráðgjöf

Þjóð sem eldist; áhrif breyttrar lýðfræði á samgöngur: Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í samgönguverkfræði við Háskóla Íslands

Framtíðarsýn – samgöngur á Íslandi þrjár sviðsmyndir: Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri og formaður framtíðarhóps

Fjármögnun stærri framkvæmda: Árni Freyr Stefánsson, samgönguverkfræðingur, Mannvit

Samspil skipulagsstefnu og samgöngustefnu: Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar

Stysta leið á milli „staða“ – samgöngur frá sjónarhóli ferðaþjónustu: Friðrik Pálsson hótelhaldari

Í lokin fóru fram pallborðsumræður undir heitinu samgönguáætlun 2015-2026 – næstu skref. Þátttakendur voru Birna Lárusdóttir formaður samgönguráðs,Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, og Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri innviðaskrifstofu innanríkisráðuneytis.

Í pallborðsumræðum tóku þátt Björn Óli Hauksson, Sigurbergur Bjornsson, Birna Lárusdóttir, Hreinn Haraldsson og Þórólfur Árnason auk Ragnhildar Hjaltadóttur sem stýrði þinginu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira