Hoppa yfir valmynd
6. mars 2007 Innviðaráðuneytið

Líkantilraunum vegna Rifshafnar að ljúka

Siglingastofnun Íslands er nú að ljúka rannsóknum á mögulegum endurbótum á innsiglingunni á Rifshöfn á Snæfellsnesi. Starfsmenn stofnunarinnar kynntu í dag ráðherrum og þingmönnum helstu niðurstöður rannsóknarinnar en líkantilraunir hófust í nóvember síðastliðnum.

Líkanatilraunir fyrir Rifshöfn hjá Siglingastofnun.
Líkanatilraunum fyrir Rifshöfn er að ljúka hjá Siglingastofnun Íslands.

Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri og Sigurður Sigurðarson verkfræðingur hjá Siglingastofnun kynntu rannsóknirnar ásamt fleiri sérfræðingum stofnunarinnar. Fram kom að núverandi innsigling að Rifshöfn er krókótt og þröng og dýpi takmarkað. Innsigling er oft erfið, einkanlega frá skerinu Tösku og snerta þessir gallar einkum flutningaskip og stærri fiskiskip.

Þrjár meginleiðir voru reyndar og er nú svo komið að sérfræðingar Siglingastofnunar geta bent á hagstæðasta kostinn. Lagt er til að innsigling hafnarinnar verði breikkuð og dýpkuð í sveig innan við Rifið og Tösku. Erfiðasta hluta leiðarinnar verði skýlt með brimvarnargarði á Rifinu og út undir Töskuvitann. Með því móti er hafnarmynnið í raun komið út að Tösku.

Þá kemur fram í bæklingi sem Siglingastofnun hefur gefið út um rannsóknirnar að eigi Rifshöfn að geta mætt þörfum vegna útflutnings afurða vatnsverksmiðju í Snæfellsbæ þurfi hluti innsiglingarinnar að vera um 80 m breiður og dýpið um 9 m á ysta hluta hennar. Lagt er til að vöruflutningar vatnsverksmiðju fari um kant sem byggður yrði austan við núverandi höfn á svæði sem nýtur skjóls af garðinum út eftir Rifinu og þyrfti slíkur kantur að vera um 120 m langur.

Kynningarbæklingur Siglingastofnunar um rannsóknir fyrir Rifshöfn.

Líkanatilraunir fyrir Rifshöfn hjá Siglingastofnun.
Sigurður Sigurðarson, verkfræðingur hjá Siglingastofnun Íslands, skýrir rannsóknirnar út fyrir Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum