Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2023 Innviðaráðuneytið

Mælt fyrir tímabundnum undanþágum vegna búsetuúrræða umsækjenda um alþjóðlega vernd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi um tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi. Tilgangurinn er að geta brugðist þegar í stað við skorti á húsnæði fyrir þau sem koma hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd.

Frumvarpið veitir heimild til að gera viðeigandi breytingar á húsnæði, sem ekki hefur verið ætlað til búsetu, t.d. skrifstofuhúsnæði í eigu ríkisins, til að nota megi það sem úrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Það veitir heimild til að víkja tímabundið frá almennum skilyrðum og ferlum skipulags- og mannvirkjalöggjafarinnar, sem og skipulagi viðkomandi sveitarfélags, til að heimila til bráðabirgða breytta notkun slíks húsnæðis til búsetu.

Í framsöguræðu sinni sagði ráðherra: „Staðan er sú að aldrei hafi fleiri komið til landsins á flótta en nú. Fjöldi þeirra frá 1. janúar í fyrra og fram í mars á þessu ári er orðinn meiri en samanlagður fjöldi allra umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi á sex ára tímabili þar á undan, frá 2016-2021.“

Á meðan umsækjendur um alþjóðlega vernd bíða niðurstöðu umsóknar dvelja þeir í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar. Um mitt ár í fyrra dvöldu um 700 umsækjendur í slíkum búsetuúrræðum en nú dvelja rúmlega 1.900 umsækjendur í húsnæði á vegum stofnunarinnar. Að mati Vinnumálastofnunar og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, sem fara með málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd, er fyrirséð að á komandi vikum og mánuðum muni ekki takast að tryggja nægilega mikið af hentugu íbúðarhúsnæði á leigu fyrir umræddan hóp.

Helstu tillögur

Með frumvarpinu er lagt til að Skipulagsstofnun verði fengin heimild til að veita undanþágu frá lögum um mannvirki, lögum um brunavarnir, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, skipulagslögum og þeim reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli umræddra laga. Einnig frá skipulagi hlutaðeigandi sveitarfélags til að heimila breytta notkun húsnæðis sem tímabundins búsetuúrræðis. Um er að ræða húsnæði sem fyrir er á húsnæðismarkaði en ekki nýja húsnæðisuppbyggingu.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að Vinnumálastofnun óski eftir slíkri undanþágu og að óskað verði eftir umsögn hlutaðeigandi sveitarfélags sem hafi tvær vikur til veita umsögn ef það gerir athugasemd við veitingu undanþágunnar. Mæli sveitarfélag gegn veitingu undanþágu í umsögn sinni skuli Skipulagsstofnun synja undanþágubeiðninni.

Undanþága verði aðeins veitt að nánari skilyrðum uppfylltum  og óheimilt að taka húsnæði í notkun til búsetu fyrr en þau hafi öll verið uppfyllt. Nánar er fjallað um skilyrði í frétt ráðuneytisins þegar frumvarpið var fyrst kynnt [hlekkur].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum