Hoppa yfir valmynd
21. júlí 2021

Ársskýrsla 2020 er komin út

Ársskýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar fyrir árið 2020 er komin út. Árið 2020 var annað heila starfsár stofnunarinnar.

Í skýrslunni er að finna upplýsingar um starfsemi Gæða- og eftirlitsstofnunar á árinu. Fresta þurfti heimsóknum á starfsstaði sem heyra undir eftirlit stofnunarinnar vegna COVID-19 faraldursins. Eftirlit stofnunarinnar hefur frá upphafi að stærstum hluta snúið að þjónustu við fatlað fólk sem er í samræmi við hlutfall ábendinga sem stofnuninni hefur borist. Hjá Gæða- og eftirlitsstofnun er nú unnið að athugun á áhrifum COVID-19 faraldursins á þjónustu við fatlað fólk.

Breytingar urðu á starfsmannahópi Gæða- og eftirlitsstofnunar á árinu. Sigríður Jónsdóttir sem verið hafði framkvæmdastjóri frá upphafi starfseminnar fór á eftirlaun 1. febrúar og var staðgengill framkvæmdastjóra þá settur framkvæmdastjóri. Halldór Gunnarsson sem verið hafði daglegur yfirmaður réttindagæslumanna fór einnig á eftirlaun um mitt ár. Eru þeim færðar þakkir fyrir störf þeirra hjá stofnuninni.

Framundan er breyting á umgjörð um starfsemi stofnunarinnar. Lög um sjálfstæða eftirlitsstofnun, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, voru samþykkt á Alþingi 11. júní sl. og taka gildi 1. janúar 2022. Fjölmörg ný verkefni munu heyra undir nýja stofnun s.s. eftirlit með gæðum þjónustu á grundvelli barnaverndarlaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum