Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Samkomulag um uppbyggingu við Hringbraut

Fylgiskjal: Skýrsla nefndarinnar (pdf-skjal)

Fréttatilkynning nr. 11/2004

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Þórólfur Árnason, borgarstjóri, undirrituðu í dag samkomulag um skipulag lóðar Landspítala – háskólasjúkrahúss í tengslum við ákvörðun um framtíðaruppbyggingu spítalans og stofnana Háskóla Íslands sem tengjast honum á Hringbrautarsvæðinu. Drög að samkomulaginu voru kynnt ríkisstjórninni 2. apríl sl. og var samkomulagið til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi í morgun og afgreitt í borgarráði fyrr í dag.

Framtíðaruppbygging Landspítala – háskólasjúkrahúss er háð flutningi Hringbrautar til suðurs sem er ein af forsendum samkomulagsins sem undirritað var í dag, enda gert ráð fyrir byggingum sem gætu orðið í heild um 196 þúsund fermetrar að grunnfleti.

Reykjavíkurborg mun taka þátt í nauðsynlegri uppbyggingu bílastæða og bílastæðahúsa innan lóða LSH í samráði við samningsaðila og verja til þess allt að 500 m.kr á verðlagi í maí 2003. Fyrsti hluti þeirrar framkvæmdar mun eiga sér stað við færslu Hringbrautar á árunum 2004-2005, og er þá gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg framkvæmi og kosti gerð bílastæða á lóð LSH samkvæmt skipulagi og í samráði við spítalann fyrir allt að 50 m.kr. á verðlagi í maí 2003.

Á ríkisstjórnarfundinum í morgun kynnti Jón Kristjánsson, heilbrigðismálaráðherra, áfangaskýrslu nefndar um uppbyggingu Landspítalans. Hún er unnin með það að markmiði að hún nýtist við áframhaldandi störf að skipulagningu svæðisins og efli málefnalega umræðu um framtíðarhúsnæði LSH.

Nefndin gerir eftirfarandi tillögur til ráðherra:

  • Lagt er til að hönnunarsamkeppni fari fram um skipulag Landspítalalóðar við Hringbraut og grunngerð nýbygginga. Á grundvelli niðurstöðu úr samkeppninni verði unnið deiliskipulag lóðarinnar í samráði við Reykjavíkurborg og því lokið fyrri hluta árs 2006.
  • Lagt er til að fengnir verði ráðgjafar til að meta hvernig best er að ná sem mestu hagræði í starfsemi sjúkrahússins með þeirri endurskipulagningu sem ný bygging gefur kost á. Það er mat nefndarinnar að vænta megi verulegra samlegðaráhrifa við að sameina starfsemi Landspítala-háskólasjúkrahúss á einum stað, en til þess að ná fram hámarksárangri er nauðsynlegt að undirbúningur sé vandaður.
  • Lagt er til að í uppbyggingu spítalans verði hugað sérstaklega að skipulagðri þátttöku einkaaðila við hönnun, byggingu og fjármögnun hans. Til þess að undirbúa þátttöku einkaaðila er nauðsynlegt að kynna verkefnið opinberlega og jafnframt að skilgreina hlutverk þeirra og hins opinbera skilmerkilega. Jafnframt þarf að huga áfram að fjölþættri fjármögnun eftir efnahagslegum aðstæðum í samfélaginu hverju sinni.
  • Lagt er til að nefndin starfi áfram að yfirstjórn verkefnisins þar til frumathugun er lokið og komið að áætlanagerð. Nú þegar verði ráðinn verkefnisstjóri sem starfi með nefndinni.
  • Lagt er til að fjármagn verði tryggt til undirbúnings framtíðaruppbyggingar LSH þegar á næsta fjárlagaári.

Nánari upplýsingar veitir Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytinu og formaður nefndar um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
27. apríl 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum