Hoppa yfir valmynd
27. september 2023

Samræður við starfsfólk stofnana og frumvörpin í gáttina

Frá fundi ráðuneytisins með starfsmönnum Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum á hótel Natura. - mynd

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum unnið að endurskipulagningu stofnana ráðuneytisins þar sem áformað er að til verði þrjár öflugar stofnanir í stað átta. Hafa þær fengið vinnuheitin Náttúruverndar- og minjastofnun,  LoftslagsstofnunogNáttúrufræðistofnun.

Áður hafði verið stefnt að því að sameina Veðurstofuna og ÍSOR við Náttúrufræðistofnun, Landmælingar Íslands og RAMÝ, en í júlí 2023 var ákveðið að fresta áformum um að hafa ÍSOR og Veðurstofu Íslands með í nýrri stofnun á sviði náttúruvísinda. Sú leið var talin þarfnast frekari skoðunar m.a. vegna hás flækjustigs og að ÍSOR er B-hluta stofnun sem byggir alfarið á sértekjum sem er ólík hinum stofnununum sem eru á fjárlögum.Veðurstofan og ÍSOR verða því ekki sameinuð öðrum stofnunum í þessum áfanga, en áfram verður unnið að því að efla samstarf stofnananna og skoða samþættingu eða flutning einstakra verkefna.

Fundað með starfsfólki

Ráðuneytið átti fundi með starfsfólki stofnanna átta í nú fyrir skemmstu til að kynna framgang verksins og eiga samræður við starfsfólk.

Þriðjudaginn 12. september var fundað á Grand hóteli í Reykjavík var með starfsmönnum Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og RAMÝ, sem til stendur að sameina í Náttúrufræðistofnun og föstudaginn 15. september fundaði ráðuneytið  á Natura hóteli í Reykjavík með starfsmönnum Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Þeir starfsmenn sem ekki áttu heiman gengt gátu tekið þátt í gegnum Teams.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra ávarpaði fundina og fjallaði um endurskipulagninguna, mikilvægi þess að nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni, sem og að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu.

Þá voru frumvörp vegna stofnanabreytinganna kynnt. Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, yfirlögfræðingur URN, og Dagmar Sigurðardóttir kynntu frumvarp um sameiningu LMÍ og RAMÝ. Steinunn Fjóla kynnti frumvarp um Loftslagsstofnun og Tryggvi Þórhallsson kynnti frumvarp um Náttúruverndar- og minjastofnun.

Arnar Pálsson ráðgjafi kynnti drög að samrunaáætlun LMÍ og RAMÝ og kynnti sniðmáta fyrir samrunaáætlun á síðari fundinum. Þá fjallaði Skúli Eggert Þórðarson fyrrverandi  ríkisskattstjóri  um reynslu af sameiningu embættis ríkisskattstjóra úr átta sjálfstæðum skattstofum um allt land.

Sameining LMÍ  og RAMÝ kynning á frumvarpi

Loftslagsstofnun kynning á frumvarpi

Náttúruverndar- og minjastofnun kynning á frumvarpi Samrunaáætlun LMÍ  og RAMÝ

Samrunaáætlun LMÍ NÍ og RAMÝ

Innsýn í samrunaáætlun

Tekið var á móti spurningum frá fundargestum í gegnum samskiptaforritið Slido og barst fjöldi spurninga varðandi endurskipulag stofnananna og áhrif breytinganna á starfsfólk. Spurningunum var svarað rafrænt og munnlega á fundinum og er spurningar og svör að finna hér.

Spurningar og svör vegna endurskipulagningar stofnana URN

Hugmyndir að nöfnum stofnana

Fundað var á Grand hóteli í Reykjavík var með starfsmönnum Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og RAMÝ.

Fundað var á Grand hóteli í Reykjavík var með starfsmönnum Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og RAMÝ.

Frumvörp komin í samráðsgáttina

Frumvörp um breytingu á stofnanafyrirkomulagi ráðuneytisins voru sett til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda í síðustu viku þar sem hægt verður að koma með athugasemdir og ábendingar.

Annars vegar er um að ræða drög að frumvarpi vegna sameiningar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ). Í frumvarpinu er gert er ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun yfirtaki réttindi og skyldur Landmælinga Íslands og RAMÝ og að við sameininguna verði starfsfólk Landmælinga og RAMÝ hluti af hinni sameinuðu stofnun, sem taka á til starfa 1. janúar 2024.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur (sameining Náttúrufræðistofnunar Ísl., Landmælinga Ísl. og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn

Hins vegar er um að ræða drög að frumvörpum um Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun. Annars vegar er um að ræða samruna Orkustofnunar og þess hluta starfsemi Umhverfisstofnunar er lýtur að umhverfis- og loftslagsmálum. Hins vegar er um að ræða samruna náttúruverndarhluta Umhverfisstofnunar,  Minjastofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Fjöldi stöðugilda þeirra stofnana sem munu tilheyra nýrri Náttúruverndar- og minjastofnun er í dag um 120 og 115 stöðugildi hjá þeim stofnunum sem munu tilheyra Loftslagsstofnun og gert er ráð fyrir að nýju stofnanirnar tvær taki til starfa 1. janúar 2025.  

Frumvörp til laga um Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun

Auk þess að setja frumvörp um breytingar á skipulagi stofnana í Samráðgátt var nú í vikubyrjun sett í Samráðsgáttina sérstakt samráðsskjal strax eftir að búið er að leggja fram frumvarpsdrögin þar sem áhugasamir eru hvattir til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum gagnvart þessum áformum um endurskipulagningu stofnanakerfis ráðuneytisins og þá sér í lagi gagnvart eftirfarandi spurningum:

1. Hvaða tækifæri eru fyrirsjáanleg með breyttu stofnanaskipulagi sem gætu orðið til þess að efla þjónustu?

2. Hvernig gæti breytt stofnanaskipulag haft áhrif? Eru það áhrif sem eru jákvæð eða neikvæð?

3. Hvaða helstu áhættuþátta ætti að horfa til?

4. Hver eru helstu sjónarmið um hvernig endurskipulagning gæti breytt gæðum í veittri þjónustu?

5. Hvaða styrkleikar er í núverandi þjónustu og mikilvægt er að varðveita?

6. Eru frekari tækifæri til að efla rannsóknir og þróun/nýsköpun?

7. Með hvaða hætti má efla og fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni?

Endurskipulagning stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins - samráð við hagsmunaaðila

Samtalið heldur áfram

Fram undan er svo fundur með forstöðumönnum stofnananna þann 5. október næstkomandi þar sem rætt verður um næstu verkþætti við breytingar á stofnanaskipulagi, þar sem m.a. stendur til að taka fyrir stöðuna í gagnaöflun á sviði upplýsingatækni, húsnæðismála og mannauðsmála. Auk þess verður á dagskrá fundarins að ræða áherslur sem fram koma í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024.

Veðurstofan og ÍSOR

Ekki gert ráð fyrir að Veðurstofan og ÍSOR verði sameinaðar öðrum stofnunum í þessum áfanga, en áfram verður unnið að því að efla samstarf stofnananna og skoða samþættingu eða flutning einstakra verkefna. Ráðuneytið mun áfram vinna að markmiðum um að efla samstarf allra stofnana ráðuneytisins og skoða samþættingu eða flutning einstakra verkefna þeirra á milli m.a. til einföldunar, hagræðingar og/eða styrkingar. Vinnuhópur vegna mannauðsmála mun halda áfram störfum samkvæmt því skipulagið sem búið var að kynna og Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir mun halda áfram vinnu vegna húsnæðismála auk þess sem von er á áfangaskýrslu um upplýsingatækni. Sama gildir um samstarfsverkefnin, þau halda áfram með aðild fulltrúa þeirra stofnana sem voru búnar að tilkynna þátttöku.

Annað

Spurningum og ábendingum um frumvörpin og annað það sem óskað er eftir að koma á framfæri skal beint til mannauðstjóra/forstöðumanna stofnana. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir og ábendingar til mannauðsstjóra ráðuneytisins sem safnar saman spurningum og sendir spurningar og svör til stofnana sem þau geta dreift til starfsfólks. 

Sameiningunni er m.a. ætlað að ná þeim markmiðum að:

  • Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir  til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
  • Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
  • Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
  • Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
  • Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni. 
  • Tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.

 

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum