Hoppa yfir valmynd
2. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 2. júní 2023

Heil og sæl,

Föstudagarnir koma á færibandi þessa dagana. Við tökum því að sjálfsögðu fagnandi og njótum þess að líta yfir viðburði vikunnar í utanríkisþjónustunni. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var stödd í Noregi í vikunni þar sem hún átti tvíhliða fundi með utanríkisráðherra, þróunarsamvinnuráðherra, varnarmálaráðherra og ráðherra utanríkisviðskipta en eins og við vitum heyra allir þessir málaflokkar undir utanríkisráðherra á Íslandi. Á fundunum báru hæst þau djúpstæðu áhrif sem innráðsarstríð Rússlands í Úkraínu hefur haft á fjölda málaflokka í alþjóðlegu samstarfi en einnig var rætt um samvinnu Íslands og Noregs á ýmsum sviðum og hvernig dýpka megi samstarfið enn frekar.

Heimsóknin kemur til af óformlegum utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem fór fram á miðvikudag og fimmtudag en á fundinum gafst utanríkisráðherrunum tækfifæri til þess að bera saman bækur sínar fyrir leiðtogafund bandalagsins sem haldinn verður í Vilníus í Litháen 11. - 12. júlí. Auk þess að hittast á fundinum komu utanríkisráðherrar bandalagsríkjanna, ásamt boðsríkinu Svíþjóð saman til vinnukvöldverðar. Fyrir fundinn tóku Haraldur Noregskonungur og Hákon krónprins á móti utanríkisráðherrunum í konungshöllinni Ósló. Þá tóku ráðherrarnir þátt í minningarathöfn um fórnarlömb hryðjuverka og öfgahyggju sem haldin var við minningarreit um þau sem létust í hryðjuverkaárásunum í Ósló og Útey 22. júlí 2011. 

Sameiginlega viðbragssveitin (Joint Expeditionary Force, JEF) sem Bretar leiða ásamt Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og Hollandi setur í æfingaskyni upp færanlega herstjórnarmiðstöð á öryggissvæðinu í Keflavík í júní. JEF er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja um öryggis- og varnarmál með áherslu á norðurslóðir, Norður-Atlantshafið og Eystrasaltið. „Við höfum markvisst verið að auka og þétta samstarf við okkar grannríki í öryggis og varnarmálum og er JEF samstarfið mjög mikilvægur hluti af því. Þannig tryggjum við í sameiningu skjótvirkt og sveigjanlegt viðbragð í hugsanlegu hættuástandi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Þá samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum síðastliðinn föstudag að veita 5 milljónum króna til Háskóla Íslands vegna verkefnis um menningarsamstarf við Úkraínu. Utanríkisráðuneytið hyggst styrkja verkefnið um 4 milljónir króna

Þá beinum við sjónum að sendiskrifstofunum.

Sendiherra Íslands í Moskvu sem einnig fer með fyrirsvar gagnvart Moldóvu, Árni Þór Sigurðsson, tók þátt í heimsókn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þangað, þar sem hún sótti leiðtogafund hins pólitíska bandalags Evrópuríkja (European Political Community, EPC) sem fram fór skammt frá Chisinau, höfuðborg Moldóvu.

Sendiherra Íslands í Berlín María Erla Marelsdóttir, sem er sendiherra Íslands gagnvart Tékklandi, og staðgengill sendiherra, Ágúst Már Ágústsson tóku nýlega þátt í móttöku í Prag sem haldin var sameiginlega af sendiráðum Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna ásamt sendiráði Úkraínu. Tilefni móttökunnar var að sýna samstöðu með Úkraínu á þessum erfiðu tímum og auka tengslin við aðila í Tékklandi. Ríkin sem buðu í móttökuna voru með kynningarborð og hélt kjörræðismaður Íslands í Prag, Klará Dvořáková utan um íslenska borðið af miklum myndarskap. Þá heimsóttu sendiherra og staðgengill íslenska bakaríið Artic Bakehouse sem staðsett er á nokkrum stöðum í Prag og nýtur mikilla vinsælda.

Frá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York bárust þær fréttir að forseti 78. allsherjarþings SÞ hafi nú verið kjörinn. Hann tekur við embætti í september. Ísland var sömuleiðis kjörið í embætti varaforseta þingsins og mun því fundarhamarinn góði, Ásmundarnautur, vera í öruggum höndum.

Kennarar og nemendur Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands hafa verið í heimsókn í Malaví undanfarnar tvær vikur. Hópurinn er í Malaví til þess að kynna sér landið, starfsumhverfi og áskoranir, þá sérstaklega hvað varðar næringu og fiskvinnslu. Í Mangochi héraði sótti hópurinn heim fiskvinnslur, heilsugæslustöð og skóla þar sem þau fylgdust með matreiðslu heimaræktaðra skólamáltíða og kennslustund í næringarfræði.

Yfir eitt þúsund stelpur og strákar á aldrinum 12-14 ára tóku þátt í fótboltamótum á vegum Ascent Soccer í samstarfshéruðum Íslands Mangochi og Nkhotakota. Ascent Soccer er knattspyrnuakademía sem er starfrækt í Lilongwe og býður ungu og efnilegu knattspyrnufólki tækifæri til að sækja sér nám samhliða því að æfa við bestu aðstæður sem völ er á í Malaví. Gaman er að segja frá því að 3. flokkur Ascent mun koma til Íslands í sumar til að taka þátt á Rey Cup og er undirbúningur langt á veg kominn. Verður þetta í fyrsta sinn sem ungmennalið frá Malaví sækir mót utan álfunnar. 

Sendiráðið í Peking stóð fyrir ferðaþjónustukynningu í samvinnu við Hiwing Air Travel, í tilefni af 20 ára samstarfsafmæli með Icelandair. Fleiri en 80 fulltrúar frá 38 ferðaskrifstofum sóttu kynninguna, auk fulltrúa frá SAS, Air China, Juneyao Air og utanríkis- og ferðamálaráðuneytum Kína.

Vikan var viðburðarrík hjá sendiráði Íslands í Ottawa en dagana 29. maí til 1. júní voru forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú í Kanada í boði Mary Simon, landstjóra Kanada, í fyrstu ríkisheimsókn Íslands til landsins frá árinu 2000. Með þeim í för var Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra. Heimsóknin hófst á mánudaginn með opnunarathöfn á sólríkum degi í landstjórasetrinu Rideau Hall í höfuðborginni Ottawa, sem er einmitt fæðingarstaður Elizu Reid forsetafrúar. 

Forsetahjónin héldu síðan til Halifax í Nova Scotia og St. John’s í Newfoundland og Labrador ásamt sendinefnd sem var meðal annars skipuð Hlyni Guðjónssyni sendiherra og ýmsum fulltrúum úr viðskiptalífinu, sérstaklega á sviði grænnar orku, heilsutækni og nýsköpun í bláa hagkerfinu, sem voru helstu áhersluefni heimsóknarinnar, auk lýðheilsu ungmenna og varðveislu tungumála. Forsetahjónin og sendinefndin tóku þátt í fjölda viðburða og funda sem miðuðu að því að stuðla að samvinnu á þessum sviðum og styrkja enn frekar margþætt tengsl landanna. Þrátt fyrir óheppilega seinkun á flugi til Toronto á síðasta degi þótti heimsóknin hafa heppnast stórkostlega vel og vera táknræn fyrir áframhaldandi vináttu og samstarf þjóðanna tveggja.

Sendiráðið í Varsjá tók þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um sjálfbæra þróun, þar sem meðal annars var fjallað um Ísland. Fulltrúi okkar, Emiliana Konopka, ræddi þar um þátttöku ungra Íslendinga í því að skapa sjálfbærara samfélag.

Sendiráðið í Ósló greindi að sjálfsögðu frá heimsókn ráðherra og sendinefndar í vikunni á sínum samfélagsmiðlum en sem fyrr segir sótti hún þar óformlegan fund utanríkisráðherra bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins og fundaði með samstarfsráðherrum sínum í Noregi.

Í Tókýó tók sendiherrann Stefán Haukur Jóhannesson þátt í málþingi um jafnrétti í tilefni af úttekt á stöðu mannréttinda í Japan. Þar lagði sendiherrann áherslu á þátt karlmanna í jafnréttisbaráttunni.

Í Strassborg tóku Lettar formlega við formennskunni í ráðherranefnd Evrópuráðsins en eins og frægt er orðið afhenti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Edgars Rinkēvičs, þáverandi utanríkisráðherra Lettlands, sem nú er orðinn forseti landsins (skjótt skipast veður) fundarhamar í lok leiðtogafundarins í Reykjavík og var hann notaður nokkrum sinnum á fundinum. 

Sendiráð Íslands í London deildi fréttum af því að Ísland hefði hafið þátttöku í þjálfunarverkefni fyrir úkraínska hermenn. Bretland leiðir verkefnið sem miðar að því að þjálfa leiðbeinendur í bráðameðferð á stríðssvæðum. Leiðbeinendurnir geta svo miðlað þekkingu sinni áfram til annarra hermanna en reynslan hefur leitt í ljós að rétt viðbrögð á vígvellinum geta aukið mjög lífslíkur og batahorfur þeirra sem særast í átökum. 

Þá greindi sendiráð Íslands í London líka frá því að íslensk list væri í fyrsta sinn til sýnis í Caodgan Fine Arts á norrænni sumarsýningu sem mun standa yfir dagana 9. - 22. júní.

Í Washington gíraði Bergdís Ellertsdóttir sendiherra sig upp fyrir Pride göngu en þar í borg er júnímánuður tileinkaður réttindabaráttu hinsegin fólks. 

Norræn sendiráð í Washington fylktu liði í göngunni. 

Föstudagspósturinn verður ekki lengri að sinni. 

Upplýsingadeildin minnir að endingu á Heimsljós, fréttaveitu okkar um þróunar- og mannúðarmál og óskar ykkur góðrar helgar! 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum