Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla starfshóps um rekstur og þjónustu sjúkra- og sjúklingahótels við Hringbraut

Sjúkrahótelið - teikning. Mynd af vef Framkvæmdasýslu ríkisins - mynd

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að fjalla um rekstur nýs sjúkrahótels við Hringbraut og leiðir til að efla þjónustu við þá sem þarfnast þjónustu sjúkrahótels hefur skilað ráðherra greinargerð sinni .

Í greinargerð starfshópsins segir meðal annars að bygging og rekstur hótelsins muni hafa mjög jákvæð áhrif á starfsemi Landspítalans og heilbrigðiskerfið almennt og bæta þjónustu við þá sjúklinga sem geta nýtt sér hótelið. Markmiðið sé meðal annars að auka afköst og hagkvæmni í rekstri Landspítalans, einkum með því að færa dvöl sjúklinga í ódýrara rými, fyrir og í lok meðferðar.

Lagt er til að tvenns konar gististarfsemi verði á hótelinu. Annars vegar verði þjónusta ætluð þeim sem ekki eru innritaðir á Landspítala en þurfa heilsu sinnar vegna að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna og/eða meðferðar (sjúkrahótel). Hins vegar verði þjónusta fyrir sjúklinga sem eru innritaðir á Landspítala en þurfa ekki að vera á legudeild, til dæmis sjúklingar sem eru í virkri meðferð eða sækja dag- og göngudeildarþjónustu og þurfa jafnframt eftirlit og stuðning (sjúklingahótel). Gert er ráð fyrir að þorri notenda hótelsins verði sjúklingar sem eru innritaðir á Landspítala meðan á dvöl þeirra stendur.

Starfshópurinn segir í greinargerð sinni að stærð og staðsetning hótelsins opni nýja möguleika til framþróunar í heilbrigðisþjónustu og bættri þjónustu við sjúklinga þar sem aðstaða sjúklinga, endurhæfing og heimilislegt umhverfi hefur jákvæð áhrif á bata. Á hótelinu verða 75 herbergi en til samanburðar voru að jafnaði 25 herbergi í notkun á sjúkrahótelinu í Ármúla.

Starfshópurinn tekur ekki afstöðu til hvaða rekstrarform sé heppilegast á nýja sjúkra- og sjúklingahótelinu við Hringbraut en telur að byggingin geti verið sjálfstæð eining hvað varðar eignarhald, óháð rekstrarformi. Fjallað er um kosti og galla ólíkra rekstrarforma í greinargerð hópsins og mælst til þess að heilbrigðisyfirvöld taki ákvörðun um rekstrarformið á þeim grundvelli fyrir lok þessa árs.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira