Hoppa yfir valmynd
4. júní 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 31. maí til 6. júní

Tæknifrjóvgun einkarekin
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur veitt læknunum Guðmundi Arasyni og Þórði Óskarssyni leyfi til að starfrækja einkarekna heilbrigðisstofnun þar sem framkvæmdar verða tæknifrjóvganir. Leyfið er háð þremur skilyrðum og verður rekstrarleyfið þá fyrst gefið út að skilyrðin séu uppfyllt. Ráðherra flýtti afgreiðslu málsins til að eyða óvissunni sem skapast hefur um tæknifrjóvganir og væntir þess, að unnt verði að ganga frá þjónustusamningi um starfsemi einkarekinnar tæknifrjóvgunar sem allra fyrst og eigi síðar en 1. júlí nk. þannig að truflun á þessari starfseminni verði sem minnst.


Rekstraruppgjör Landspítala - háskólasjúkrahúss
Kostnaður vegna lyfja var stærsti rekstrarkostnaðarliðurinn hjá Landspítala ? háskólasjúkrahúsi í fyrra eða 2.598 m.kr. Lyfjakostnaður jókst um 11,6%. Þar vegur þyngst 13,1% hækkun á kostnaði við S?merkt lyf, en það eru lyf sem eingöngu eru gefin á sjúkrahúsum eða í tengslum við sjúkrahús. Greiðsla fyrir S-merkt lyf var færð frá Tryggingastofnun ríkisins til LSH á árinu 2001. Þetta er meðal þess sem fram kemur í rekstraruppgjöri spítalans sem birtur er á heimasíðu hans í dag.
Nánar...

Frumvarp um hertar reykingareglur væntanlegt
Frumvarp um bann við reykingar á veitingastöðum, sambærilegt því sem Írar og Norðmenn hafa leitt í lög verður undirbúið í heilbrigðisráðuneytinu í sumar og er stefnt að því að leggja það fram á næsta þingi. Þetta kom fram í ræðu Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á málþingi um reykingar kvenna og karla sem haldið var á Grand Hóteli í Reykjavík í dag (föstudag). Málþingið var haldið að frumkvæði verkefnisstjórnar um heilsufar kvenna sem skipuð er af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Til umfjöllunar voru reykingar kvenna og karla og rætt hvort þörf sé fyrir kynbundna nálgun í forvarnarstarfi og reykleysismeðferð.
pdf-takn Ávarp ráðherra...

Heilbrigðisþjónusta á Suðurlandi undir eina stjórn ? auglýst eftir framkvæmdastjóra
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að sameina heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi undir eina stjórn. Hefur ráðherra gefið út reglugerð sem kveður á um þetta. Sameiningin tekur til heilsugæslustöðvanna í Þorlákshöfn, Hveragerði, Selfossi, Laugarási, Rangárþingi (Hvolsvelli og Hellu), Vík, og á Kirkjubæjarklaustri, auk Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi. Hin nýja sameinaða stofnun heitir Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Hin nýja sameinaða stofnun tekur formlega til starfa 1. september 2004 og hefur þegar verið auglýst eftir forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Á hann að taka til starfa 1. september. Stöður framkvæmdastjóra þeirra stofnana sem nú eru starfandi verða lagðar niður frá 1. desember nk. og munu því framkvæmdastjórarnir sem starfandi verða fram að þeim tíma vinna með nýjum framkvæmdastjóra í þrjá mánuði. Staða annarra starfsmanna verður óbreytt en það kemur svo í hlut hins nýja framkvæmdastjóra að skipuleggja starfsemi hinnar sameinuðu stofnunar til framtíðar.

Um 200 manns eru starfandi á heilbrigðisstofnunum sem nú verða sameinaðar í eina og velta þær um 1230 milljónum króna árlegu rekstrarfé.

Megin tilgangurinn með sameiningu stofnananna í Heilbrigðisstofnun Suðurlands undir eina stjórn er fyrst og fremst að leggja grunninn að og skapa möguleika á að unnt verði að byggja upp tiltölulega stóra öfluga heilbrigðisstofnun. Markmiðið er að samræma heilbrigðisþjónustuna sem veitt er og veitt verður á svæðinu, að efla hana og styrkja heilbrigðisþjónustuna við íbúa Suðurlands. Með sameiningu og uppbyggingu heilbrigðisstofnunar af þeirri stærð sem hér um ræðir er starfsmönnum einnig boðið upp á starfsumhverfi sem verður í senn meira gefandi og krefjandi. Reynsla af sameiningu á borð við þá sem nú hefur verið ákveðin á Suðurlandi er mjög góð á Austurlandi, í Þingeyjarsýslu og á Vestfjörðum, en alls staðar hefur einmitt tekist vel til að samræma og efla þá heilbrigðisþjónustu sem íbúunum á svæðunum stendur til boða.

Hin nýja stofnun, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, mun þjóna um 17 þúsund íbúum. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar verður skipaður af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til fimm ára. Í auglýsingu um starfið er krafist háskólaprófs, reynslu af stjórnun, fjármálaumsýslu og áætlanagerð. Nauðsynlegt er að framkvæmdastjóri hafi góða færni í mannlegum samskiptum og veita þau Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri, og Svanhvít Jakobsdóttir, skrifstofustjóri, nánari upplýsingar um starfið. Umsóknarfrestur er til 25. júní nk. og eiga umsóknir að berast heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Vegmúla 3, 150 Reykjavík. Eru umsækjendur beðnir um að láta fylgja með staðfestingu á námi ef um er að ræða nám í erlendum skólum. Sérstök nefnd metur hæfni umsækjenda. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun hefur verið tekin.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
4. júní 2004.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum