Hoppa yfir valmynd
8. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 8. maí 2020

Upplýsingadeild utanríkisráðuneytisins heilsar ykkur á þessum sólríka föstudegi, ofurlítið andstutt eftir annasama viku sem fór að mestu leyti í undirbúning og frágang skýrslu ráðherra til Alþingis, sem hann lagði fram og rædd var í þinginu á fimmtudag. 

Eins og venjulega gefur skýrslan greinargott yfirlit yfir stöðu utanríkismála og helstu atburði á þeim vettvangi undanfarna 12 mánuði – og eins og búast mátti við, var talsvert mörgum dálksentimetrum eytt í að fjalla um COVID-19 faraldurinn og viðbrögð ráðuneytisins vegna hans – ekki síst í starf borgaraþjónustunnar og allra þeirra starfsmanna ráðuneytisins sem gengu í lið með henni þegar mikið á reyndi. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra í París, tók einmitt stöðuna á kjörræðismönnum Íslands á Spáni sem hafa staðið í ströngu undanfarnar vikur við að aðstoða Íslendinga á tímum COVID-19.

Sama dag og ráðherra stóð í pontu á Alþingi og ræddi utanríkismál við þingmenn var Þórir Ibsen sendiherra á fjarfundi með kollegum sínum í Noregi, Lichtenstein og Bretlandi. Þórir er aðalsamningamaður Íslands fyrir framtíðarviðræður EFTA-ríkjanna þriggja við Bretland vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og EES samningnum. Efni fundarins var að skipuleggja komandi viðræður, en stefnt er að því að þær hefjist svo fljótt sem auðið er. Daginn eftir sást svo til Þórir í útvarpsspjalli við Svein Guðmarsson upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, en Þórir verður einmitt næsti gestur Utanríkisvarpsins, hlaðvarpsins okkar sem hlotið hefur fínar viðtökur. 

Í dag, föstudag, tók ráðherra þátt í sérstökum aukafundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, svokölluðum Arria-fundi, sem haldinn var í tilefni þess að í dag eru liðin 75 ár frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar í Evrópu. Utanríkisráðherrar um fimmtíu ríkja tóku þátt í fundinum, en hann var skipulagður af vinum okkar Eistum, sem nú fara með formennsku í öryggisráðinu. 

Við minntumst einnig sögulegs viðburðar í íslenskri utanríkisþjónustu í vikunni, en um þessar mundir eru 80 ár frá því Ísland og Bretland tóku upp stjórnmálasamband. Það gerðist auðvitað í skugga seinni heimstyrjaldarinnar sem þá var nýhafin og fyrsti sendiherra Breta hér á landi kom reyndar með breska hernámsliðinu sem gekk á land í Reykjavík 10. maí, 1940

COVID-19 faraldurinn hefur auðvitað sett mark sitt á alla starfsemi utanríkisþjónustunnar – ekki aðeins hvað varðar borgaraþjónustu, heldur einnig verkefni eins og viðræður um fríverslunarsamninga – sem nú fara nær alfarið fram á fjarfundumSú var raunin þegar fastanefnd Íslands í Genf tók þátt í viðræðum EFTA ríkjanna við stjórnvöld í Chile um uppfærslu á þeim samningi sem nú er í gildi – og þetta er líklega í fyrsta skipti sem heil samningalota er haldin með þessum hætti. Þá hefur verið tilkynnt um að 276 milljónum króna yrði varið til þróunarríkja vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Framlagið deilist á milli stofnana Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans, Alþjóðaráðs Rauða krossins, Alþjóðasambands landsfélaga Rauða krossins og samstarfsþjóða Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu.

Í næstu viku mun Guðlaugur Þór meðal annars eiga fjarfundi með norrænu þróunarmálaráðherrunum og utanríkisráðherrum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum