Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

14% fjölgun barna- og ungmennabóka milli ára

Til marks um grósku í íslenskri bókaútgáfu fjölgar barna- og ungmennabókum sem kynntar voru á árlegri barnabókamessa Félags íslenskra bókaútgefenda fyrir starfsfólk leikskóla og skólabókasafna um 14% milli ára. Viðburðinn er mikilvægur gluggi fyrir lykilfólk í læsisuppeldi yngri kynslóða en Lilja Alfreðsdóttir menningar og viðskiptaráðherra leit við á messunni í Hörpu. 


„Fátt gleður mig meira en að sjá úrval barna- og ungmennabóka vaxa með hverju ári. Fjölbreytnin er mikil og ég veit að hingað koma mikilvægi áhrifavaldar til þess að velja inn spennandi titla fyrir bókasöfnin. Bókasöfn eru hjarta hvers skólasamfélags – og öll viljum við að börn og ungmenni hafi greiðan aðgang að spennandi bókum við sitt hæfi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

„Útgáfan er einkar blómleg eins og undanfarin ár – ekki aðeins eru þetta metnaðarfullt útgáfuár fyrir barna- og ungmennabækur heldur líka fyrir nýjar íslenskar skáldsögur,“ segir Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda. 

Áþekkur heildarfjöldi

Samkvæmt upplýsingum úr Bókatíðindum 2022 er fjöldi útgefinna bóka áþekkur og verið hefur undanfarin ár. Stærstur hluti þeirra titla sem þar eru kynntir eru bækur sem útgefnar eru á prenti, eða 682 titlar af alls 913 bókum.

Stuðningur við útgáfu

Frá árinu 2019 hafa stjórnvöld stutt við bókaútgáfu með endurgreiðslu á hluta kostnaðar við útgáfu þeirra. Samtals nam sú endurgreiðsla 847 milljónum kr. árunum 2019-2021 til útgefenda alls 1920 titla. Upplýsingar um endurgreiðslurnar og skiptingu þeirra má nálgast á vef Rannís. Unnið er að úttekt á árangri laga um stuðning við útgáfu bóka en þau koma til endurskoðunar fyrir árslok á næsta ári.

Þróun prentaðra bóka

Sé tölfræði prentaðra bóka útgefinna árið 2022 skoðuð í samhengi við meðaltal fjölda þeirra á árunum 2013-2021 hefur prentuðum skáldverkum fyrir börn fjölgað um 15%, myndskreyttum barnabókum um 8% og íslenskum skáldverkum um 3%. Mesta aukningin í útgáfu prentaðra bóka er á þýddum skáldverkum 36% en í flokkum ljóð og leikrit hefur aukningin numið 15%.

Athuga ber að Bókatíðindi veita ekki tæmandi yfirlit um íslenska útgáfu því ekki eru allar útgefnar bækur skráðar þar.

Nánari upplýsingar um styrki vegna útgáfu bóka á íslensku og endurgreiðsluferlið  á vef menningar og viðskiptaráðuneytis.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum