Hoppa yfir valmynd

Leiðbeiningar vegna endurgreiðslu hluta kostnaðar við útgáfu bóka á íslensku

Til þess að geta sótt um endurgreiðslu á hluta kostnaðar við bókaútgáfu þarf bókin að vera á íslensku, eða a.m.k. helmingur af heildartexta bókar sé á íslensku.

Með „bók“ er átt við ritverk eða ritröð sem er a.m.k. 8 bls. að lengd og bundið eða fest á hliðstæðan hátt í kjöl, hljóðupptökur af lestri og rafræn útgáfa slíkra verka. Ritröð er safn ritverka í mörgum bindum með sameiginlegum heildartitli en hvert bindi sjálfstæð heild.

Heildarkostnaður við útgáfu bókar skal nema a.m.k. einni milljón króna. Þó skal endurgreiðsluhæfur kostnaður umsækjanda vegna útgáfu barna-, ungmenna- og ljóðabókar nema a.m.k. 500 þúsund krónur og bókar á stafrænum miðli, svo sem raf- og hljóðbókar, nema a.m.k. 200 þúsund krónur.

Umsækjandi skal vera skráður virðisaukaskattsskyldur aðili skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt með atvinnugreinarnúmerið 58.11.0 sem bókaútgáfa. Umsækjandi sé jafnframt fjárhagslega ábyrgur fyrir útgáfu bókar sem sótt er um. Umsækjandi má ekki vera í vanskilum við opinbera aðila og skal leggja fram staðfestingu á því með yfirlýsingu af vefsíðunni skattur.is.

Hægt er að leggja inn umsóknir um endurgreiðslu hvenær sem er innan níu mánaða frá útgáfudegi.

Einungis er tekið við rafrænum umsóknum, á þar til gerðu umsóknareyðublaði, sem berast gegnum gátt hjá rannis.is. Fylgigögn skulu einnig vera á rafrænu formi.

Umsóknarkerfið krefst rafrænnar auðkenningar með Íslykli eða rafrænum skilríkjum.

Alla kostnaðarliði skal færa inn á umsóknareyðublaðið án virðisaukaskatts.

Fylgigögn með öllum kostnaðarliðum eru:

  • Greiðslusamningar.
  • Viðkomandi reikningar og/eða vinnuskýrsla sem tilgreini fjölda stunda og tímagjald.
  • Greiðslukvittanir miðað við greiðslustöðu á umsóknardegi eða samsvarandi gögn úr bókhaldi úgefenda auk yfirlits um skuldastöðu við ríkissjóð.

Umsækjandi getur unnið með umsókn og bætt við upplýsingum þar til öll gögn eru til staðar.

Ekki er hægt að senda inn umsókn ef fylgigögn vantar.
Ekki er hægt að breyta umsókn eftir að hún hefur verið send.

Endurgreiðsla varðar eingöngu kostnað við útgáfu bókar.

Samkvæmt lögum nr. 130/2018 eru eftirfarandi kostnaðaliðir hæfir til 25% endurgreiðslu:

a. Beinn launakostnaður.

b. Beinar verktakagreiðslur. 

c. Laun höfundar eða rétthafa. 

d. Prentkostnaður og hliðstæður kostnaður vegna útgáfu í öðru formi en á prenti. 

e. Þýðingarkostnaður og prófarkalestur. 

f. Auglýsinga- og kynningarkostnaður vegna bókar sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útgáfu hennar.

g. Eigin vinna. Ef útgefandi og höfundur bókar er sami aðili skal honum heimilt að leggja eigin laun til grundvallar endurgreiðsluhæfum kostnaði, skal miða við mánaðarlaun listamanna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 57/2009, um listamannalaun.

Liðir a), b) og e) ná til ritstjórnar verks sem samþykkt hefur verið til útgáfu, prófarkalestrar, þýðingar, skýringar- og ljósmynda, og hönnunar og vinnu við innsíður og kápu.

Liður c) eru laun rétthafa fram að móttökudegi umsóknar um endurgreiðslu.

Liður d) nær til prentunar á verkinu og samskipti við prentsmiðju og aðra framleiðsluaðila svo sem tölvuvinnu vegna rafrænnar útgáfu og upplestri hljóðbókar í löndum á EES-svæðinu, innan EFTA eða  í Færeyjum.

Liður f) nær til auglýsinga- og kynningarkostnaðar sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útkomu bókar. Hönnun og birting auglýsinga í ljósvaka- og prentmiðlum sem og á neti. Þegar margar bækur eru auglýstar í sömu auglýsingu skal umsækjandi tilgreina kostnaðarhlutfall umræddrar bókar. Kynningarkostnaður tengist kostaðri umræðu og sérstökum atburðum til kynningar á verkinu, þó ekki mat og drykk.

Hafi umsækjandi hlotið styrk frá opinberum aðilum til útgáfu sömu bókar dregst sá styrkur frá þeirri fjárhæð sem telst endurgreiðsluhæfur kostnaður. Samanlögð fjárhæð styrkja skal ekki fara yfir 50% af endurgreiðsluhæfum kostnaði sömu bókar.

Tengiliður hjá Rannís fer yfir umsóknir og tryggir að öll umbeðin rafræn fylgigögn séu til staðar. Umsækjandi fær tölvupóst um að umsókn sé móttekin og tengiliður lætur vita ef gögn vantar.

Þegar umsókn hefur verið yfirfarin sendir tengiliður umsóknina áfram til nefndar um stuðning við bókaútgáfu til afgreiðslu.

Í nefndinni sitja:

  • Guðrún Magnúsdóttir formaður, fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis
  • Rakel Jensdóttir, fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytis
  • Þórir Hrafnsson, fyrir hönd atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytis

Nefndin fundar reglulega. Hún áskilur sér rétt til þess að kalla eftir frekari upplýsingum eða útskýringum sem og að kanna hvort greiðsla hafi farið fram á einstökum eða öllum kostnaðarliðum, t.d. með ósk um athugun á bókhaldi umsækjanda. Að lokinni yfirferð sendir nefndin tilkynningu um upphæð endurgreiðslu til innheimtumanns ríkissjóðs og tölvupóst til umsækjanda um afgreiðslu málsins. Nefndin hefur þrjá mánuði til þess að afgreiða umsókn eftir að öll gögn hafa borist. Sé umsókn synjað er umsækjanda kynntar mögulegar kæruleiðir.

Ákvörðun nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku á grundvelli reglugerðar þessarar og laga nr. 130/2018 er kæranleg til yfirskattanefndar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Kærufrestur er 30 dagar og reiknast frá dagsetningu ákvörðunar nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 29.1.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum