Hoppa yfir valmynd
7. október 2019 Dómsmálaráðuneytið

Áframhaldandi aðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Síðastliðinn áratug hafa íslensk stjórnvöld sett í forgang að byggja upp stöðugt og gegnsætt fjármálakerfi í samræmi við ýtrustu alþjóðleg viðmið. Þau hafa einnig átt árangursríkt samstarf við FATF, alþjóðlegan fjármálaaðgerðahóp ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Íslensk stjórnvöld hafa þannig á undanförnum misserum gripið til umfangsmikilla aðgerða til að treysta varnir og viðbúnað á þessum sviðum.

Í kjölfar skýrslu FATF sem birt var 2018, þar sem tiltekinn var 51 ágalli á umgjörð og framkvæmd í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, hafa dómsmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið unnið að því, ásamt Fjármálaeftirlitinu, Ríkislögreglustjóra, Ríkisskattstjóra og Tollstjóra, að bregðast við athugasemdum FATF. Hefur það verið gert með endurskoðun á lögum og reglum og með því að styrkja lykilstofnanir. Sérstakur stýrihópur um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hefur haldið utan um þá vinnu.

Úrbætur sem gerðar hafa verið frá árinu 2018

Af 51 atriði sem greint var frá 2018 stóðu einungis sex eftir í lok september 2019 samkvæmt skýrslu sérfræðingahóps FATF.  Að mati íslenskra stjórnvalda eru úrbætur vegna allra þeirra atriða í skýru og tímasettu ferli eða þegar lokið.

Eins og fram kom í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu 13. september hafa íslensk stjórnvöld meðal annars gripið til eftirfarandi aðgerða og þannig uppfyllt kröfur fjármálaaðgerðahópsins sem lúta að laga og regluverki:

  • Stofnun nýs eftirlitsaðila innan embættis ríkisskattstjóra sem hefur eftirlit með þeim aðilum sem ekki lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Þannig er tryggt að allir tilkynningaskyldir aðilar samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka lúti eftirliti.
  • Umfangsmikil laga- og reglusetning, meðal annars ný heildarlög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, lög um skráningu raunverulegs eiganda, lög um frystingu fjármuna, reglugerð um áhættusöm ríki, reglugerð um áreiðanleikakönnun og reglugerð um millifærslu fjármuna.
  • Fjölgun stöðugilda við eftirlit, rannsóknir og saksóknir á málum sem tengjast peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
  • Umfangsmikil útgáfa fræðsluefnis, bæði af hálfu eftirlitsaðila og stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
  • Fræðslufundir sem stjórnvöld hafa haldið fyrir tilkynningaskylda aðila og almannaheillafélög.
  • Innleiðing nýs kerfis hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu vegna móttöku tilkynninga um grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
  • Útgáfa áhættumats um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
  • Aukið samstarf og samhæfing stjórnvalda í gegnum stýrihóp um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og samstarfssamninga.
  • Aukið áhættumiðað eftirlit með tilkynningaskyldum aðilum.

Athugasemdir íslenskra stjórnvalda

Sérfræðingahópur FATF, sem ber ábyrgð á eftirfylgni með Íslandi, skilaði skýrslu í lok september. Niðurstaða hennar er sem áður segir að enn standi út af sex atriði sem nefndin telur að geti leitt til þess að umbætur Íslands varðandi aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verði ekki taldar fullnægjandi. Verði það niðurstaðan fer Ísland á lista yfir ríki þar sem aðgerðaáætlun er í farvegi en FATF mælir með því að beitt sé auknum kröfum við áreiðanleikakannanir. Endanleg ákvörðun um slíkt er í höndum fundar FATF þar sem 39 aðilar eiga fulltrúa.

Þau atriði sem ekki töldust uppfyllt í lok september en eru öll í vinnslu:

  1. Að stjórnvöld hafi ekki tímanlegan aðgang að áreiðanlegum upplýsingum um raunverulega eigendur.
  2. Ljúka þurfi innleiðingu á nýju upplýsingakerfi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu til að taka á móti tilkynningum um grunsamlegar færslur.
  3. Að starfsmannafjöldi miðað við umfang tilkynninga hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu sé ófullnægjandi.
  4. Ljúka þurfi reglugerð, sem Alþingi þarf að veita lagastoð, um meðhöndlun og vörslur haldlagðra, kyrrsettra og upptekinna fjármuna.
  5. Eftirlitsaðilar þurfi að tryggja með vettvangsathugunum að tilkynningarskyldir aðila fari að lögum um frystingu fjármuna o.fl. nr. 64/2019.
  6. Innleiða þurfi í lög skilvirka yfirsýn yfir starfsemi almannaheillafélaga, sér í lagi hvað varðar þau almannaheillafélög sem geta verið viðkvæm fyrir misnotkun í tengslum við fjármögnun hryðjuverka. Tryggja þurfi að til staðar séu ferlar, aðferðir og mannauður til að hafa yfirsýn yfir þau almannaheillafélög sem gætu helst verið í hættu.

 

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að taka ætti tillit til þess að nú þegar hefur verið gripið til aðgerða með eftirfarandi hætti:

  • Aðgangur að upplýsingum um raunverulega eigendur:

Stjórnvöld hafa nú þegar tímanlegan aðgang að áreiðanlegum upplýsingum um raunverulega eigendur með ýmsum hætti, t.d. í gegnum fyrirtækjaskrá og frá tilkynningarskyldum aðilum. Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu hefur beinan aðgang að upplýsingum frá tilkynningarskyldum aðilum skv. 2. mgr. 20. gr. peningaþvættislaga og eftirlitsaðilar (FME og RSK) hafa sambærilegan aðgang skv. 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Þá getur lögregla fengið upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum með dómsúrskurði sem getur verið afgreiddur samdægurs ef fullnægjandi forsendur eru til staðar. Þá hefur Alþingi enn fremur sett lög um skráningu raunverulegra eigenda umfram kröfur sem leiða má af stöðlum FATF, sem tóku gildi í júní sl. Mun skráin skv. innleiðingaráætlun ríkisskattstjóra verða tilbúin um næstu áramót.

  • Nýtt upplýsingakerfi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu:

Fest hafa verið kaup á fullkomnasta peningaþvættiskerfi sem völ er á frá Sameinuðu þjóðunum. Samningur um kaup á kerfinu var undirritaður í desember 2018 og hófst innleiðing í apríl sl. Samkvæmt áætlun mun kerfið verða komið í notkun í apríl 2020.

  • Starfsmannafjöldi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu:

Þegar hefur verið tekin ákvörðun um að fjölga starfsmönnum varanlega um þrjá og hefur FATF verið afhent bréf þess efnis fyrir hönd dómsmálaráðherra.

  • Reglugerð um meðhöndlun og vörslur haldlagðra, kyrrsettra og upptekinna fjármuna:

Reglugerðin er tilbúin til birtingar og bíður þess að henni verði veitt viðeigandi lagastoð með breytingu á lögum um meðferð sakamála. Frumvarpi þess efnis var dreift á Alþingi 25. september og er þess vænst að það verði afgreitt fyrir 15. október.

  • Eftirlit með lögum um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, nr. 64/2019:

Eftirlitsaðilar hafa þegar hafið athuganir á fylgni tilkynningarskyldra aðila við lög nr. 64/2019. Þá virðast niðurstöður FATF hvað þetta atriði varðar byggjast á röngum forsendum, þ.e. að skyldur vegna alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna hafi fyrst verið lögfestar á Íslandi með lögum nr. 64/2019. Þetta er ekki rétt þar sem slík skylda hefur verið til staðar frá gildistöku laga nr. 93/2008 og Fjármálaeftirlitið viðhaft eftirlit með lögunum frá 2017. Meginbreytingin með lögum nr. 64/2019 var að kveða á um skyldu til að hafa kerfi, ferla eða aðferðir til að greina hvort viðskiptamenn séu á lista yfir þvingunaraðgerðir.

 

  • Yfirsýn yfir starfsemi almannaheillafélaga:

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggur á næstu dögum fram frumvarp til laga

um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri. Þess verður farið á leit við Alþingi að það verði afgreitt fyrir fund FATF 15. október.

Ekkert málefnalegt tilefni til breytinga

Íslensk stjórnvöld hafa unnið ötullega að því að bæta varnir gegn peningaþvætti eins og sjá má af þeim umfangsmiklu úrbótum sem gerðar hafa verið frá því að fjármagnshöftum var aflétt og hafa öll helstu skilyrði FATF að mati íslenskra stjórnvalda verið uppfyllt. Verður því ekki séð að nokkurt málefnalegt tilefni sé til þess að breyta stöðu landsins.

Verði niðurstaðan eigi að síður sú að Ísland verði sett á fyrrnefndan lista, munu íslensk stjórnvöld kappkosta að það verði aðeins til skamms tíma, en FATF getur endurskoðað afstöðu sína á næsta ári.

Íslensk stjórnvöld hafa ásamt erlendum ráðgjöfum lagt mat á möguleg áhrif af því að Ísland lendi á listanum. Það er samdóma álit þeirra að áhrifin verði óveruleg ef af verður og er hvorki talið að sú niðurstaða hafi bein áhrif almenning né fjármálastöðugleika á Íslandi. Erlendir aðilar í viðskiptum við íslensk fyrirtæki, þá einkum fjármálafyrirtæki og tryggingafélög, gætu þurft að kanna sjálfstætt hvort varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka séu nægilega tryggar. Unnið hefur verið að því að tryggja upplýsingagjöf til slíkra aðila með það að markmiði að takmarka áhrifin ef af verður.

Vænta má niðurstöðu á fundi fulltrúa allra aðildaríkja FATF sem haldinn verður 15. til 18. október nk.

Nánar má lesa um aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn peningaþvætti á vef Stjórnarráðsins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum