Hoppa yfir valmynd
30. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 30. júní

Upplýsingadeildin heilsar ykkur á þessum síðasta föstudegi júnímánaðar.

Eins og venja er var margt um að vera í utanríkisþjónustunni í liðinni viku. Byrjum á að skoða fréttir vikunnar.

Ráðherrar EFTA-ríkjanna hittu efnahagsmálaráðherra Moldóvu, Dumitru Alaiba, þar sem undirritaður var fríverslunarsamningur milli bandalagsins og Moldóvu. Forsætisráðherra Moldóvu, Dorian Recean, var einnig viðstaddur undirritunina, en það endurspeglar pólitískt mikilvægi samningsins fyrir Moldóvu, næsta nágranna Úkraínu. Ísland leiddi viðræður EFTA-ríkjanna við Moldóvu, en þær tóku tvö ár. Samningurinn inniheldur hefðbundin ákvæði um vöru- og þjónustuviðskipi, opinber innkaup, samkeppnismál og sjálfbærni, en í honum er jafnframt nýjung, þar sem í honum eru sérstök ákvæði um stafræn viðskipti.

Þá áttu EFTA-ráðherrarnir sömuleiðis fund með efnahagsmálaráðherra Úkraínu, Yliia Svyrydenko, þar sem viðræðum um uppfærslu á fríverlsunarsamningi EFTA við Úkraínu var ýtt úr vör.

Ráðherrarnir áttu einnig fund með viðskiptaráðherra Singapúr, S. Iswararn, þar sem rætt var um gerð samnings um stafræn viðskipti og jafnframt var haldinn fundur með viðskiptaráðherra Indlands, Piyush Goyal, um yfirstandandi fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Indlands.

Í vikunni fór fram málstofa um öryggi þjóðhagslega mikilvægra neðansjávarinnviða á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Málstofuna sóttu um sjötíu sérfræðingar frá þátttökuríkjum sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (Joint Expeditionary Force, JEF) og öðrum samstarfsríkjum, en viðburðurinn var haldinn í samstarfi við breska sendiráðið í Reykjavík og naut stuðnings af tímabundinni viðveru höfuðstöðva sameiginlegu viðbragðssveitarinnar á öryggissvæðinu í Keflavík.

Öryggi neðansjávarinnviða er ofarlega á baugi hjá þátttökuríkjum JEF samstarfsins, en varnarmálaráðherrar JEF ákváðu á dögunum að auka samstarf um að greina, sporna við og svara ógnum gegn þjóðhagslega mikilvægum innviðum. Málstofan er liður í að efla samstarf og skilning á þessu mikilvæga viðfangsefni. „Öryggi neðansjávarinnviða er mikið hagsmunamál fyrir öll þau ríki sem eiga aðild að þessu samstarfi. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að taka þátt í samtali og undirbúningi varðandi varnir þessara mikilvægu innviða og leggja okkar af mörkum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Í París var Ísland í fyrsta sinn kjörið til setu í alþjóðahaffræðinefndinni sem starfar á vegum Menningarmálastofnunar Sameinuðu Þjóðanna. Kjörtímabil Íslands nær frá 2023 til 2025, en Ísland hefur verið aðili að nefndinni frá 1962.

Starfsemi alþjóðahaffræðinefndarinnar byggir á alþjóðasamstarfi á sviði hafvísinda og er nefndin m.a. í forystu fyrir Áratug hafsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Nefndin fjallar sömuleiðis um og mótar stefnu í stórum áskorunum tengdum loftslagsbreytingum, súrnun sjávar, líffræðilegri fjölbreytni í hafinu, mengun sjávar, plastmengun í hafi og sjávarumhverfisvernd. Þá er sömuleiðis unnið grundvallarstarf á sviði hafsins, en það snertir mikilvæga hagsmuni Íslands, m.a. efling rannsókna og nýsköpunar með áherslu á stuðning við heimsmarkmið 14 um hafið og að ákvarðanir þar að lútandi séu teknar á vísindalegum grunni.

Þá gerðist Ísland nýlega aðili að ríkjahóp um vernd mannréttinda á netinu eða Freedom Online Coalition. Samtökin hafa það að meginmarkmiði að efla virðingu fyrir mannréttindum á netinu og leggja áherslu á að netfrelsi og mannréttindi á netinu komist á dagskrá í alþjóðlegri stefnumótun.

Aðild Íslands að Freedom Online Coalition samræmist vel áherslum Íslands í mannréttindamálum og er góður vettvangur fyrir aðildarríki til að skiptast á upplýsingum um ógnir við netfrelsi á heimsvísu. Þá styður aðildin sömuleiðis við netöryggsistefnu Íslands 2022-2037.

Í dag skrifuðu Ísland, Liechtenstein og Noregur undir samning við Bretland um samræmingu almannatrygginga. Samningurinn kveður á um framtíðarfyrirkomulag um réttindi á sviði almannatrygginga, þá aðallega lífeyrisréttinda og sjúkratrygginga þeirra sem fara eða flytjast milli landa.

Samningurinn tekur til allra sem falla undir löggjöf ríkjanna og eru löglega búsettir þegar þeir ferðast eða flytja milli samningsríkjanna. Samningurinn mun einkum gilda um elli-, örorku, og eftirlifendalífeyri, bætur vegna meðgöngu eða fæðingar, atvinnuleysisbætur, dánarbætur, sjúkrabætur og bætur vegna vinnuslysa, en hægt verður að fá ellilífeyri sem ávinnst eftir gildistöku samningsins greiddan, þótt búið sé í öðru samningsríki. Þá er einnig hægt að nýta sér tryggingatímabil frá öðru samningsríki að ákveðnu marki til að komast fyrr inn í tryggingakerfi ríkjanna þegar flutt er á milli. Evrópsk sjúkratryggingakort sem gefin eru út á Íslandi verða hér eftir tekin gild í Bretlandi og háskólanemar frá EES/EFTA-ríkjunum sem stunda nám í Bretlandi geta sótt um endurgreiðslu á heilbrigðisgjaldi, en það gjald er lagt á við umsóknir um dvalar- og atvinnuleyfi í Bretlandi.

Samningurinn er byggður á fyrirliggjandi samningi Breta við ESB og stefnt er að því að hann taki gildi fyrir lok árs.

Lítum nú á það sem fram fór á vettvangi sendiskrifstofanna.

Í sendiráði Íslands í Varsjá tóku starfsmenn á móti fulltrúum pólsk-íslenska vinafélagsins. Vinafélagið hefur verið starfandi frá 1959 og frá stofnun leitt saman Íslandsvini í Póllandi. Félagið var upphaflega stofnað af prófessorum, ásamt fulltrúum vísinda og menningar og er því meginuppspretta þekkingar um Ísland í Póllandi.

Starfsfólk sendiráðs Íslands í París tóku þátt í gleðigöngunni þar í borg síðastliðna helgi ásamt samstarfsfólki fjölda annarra sendiráða í borginni og samtökunum Ambassades pour l´Égalite (Sendiráð til stuðnings jafnrétti). Að vanda var mikil gleði og hamingja í göngunni á sólríkum degi í höfuðborg Frakklands þar sem mörg þúsund þátttakendur höfðu safnast saman til að kalla eftir jafnrétti allra, vitundarvakningu og útrýmingu mismununar sem og til að fagna því sem hefur áunnist.

Sendiherra Íslands í Osló, Högni Kristjánsson, tók þátt í menningarhátíð Rósahallarinnar, þar sem sendiherrar og listamenn kynntu söng, dans og menningu sinna landa. Sendiherrann ávarpaði hátíðina þar sem hann fjallaði um sjálfstæðisbaráttu Íslands og ítrekaði mikilvægi þess að styðja við úkraínsku þjóðina í baráttu sinni gegn innrásaröflum.

Sendiherra Íslands í Kanada, Hlynur Guðjónsson, ferðaðist til Íslands til þess að taka á móti forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, sem var sérstakur gestur á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna þann 26. júní sl.

 

 

Í New York tók starfsfólk aðalræðisskrifstofunnar þátt í Pride göngunni þar í borg. Aðalræðismaður Íslands í New York, Nikulás Hannigan, leiddi, ásamt aðalræðismönnum hinna Norðurlandanna, sveit norðurlandabúa undir flagginu #Nordics4Equality.

Í Finnlandi fjölluðu fjölmiðlar um það framtak sendiherra Íslands, Haralds Aspelund, að hjóla um allt Finnland.

Fastanefnd Íslands gagnvart Evrópuráðinu í Strassborg tók þátt í fundi um fjölmiðlafrelsi og öryggi fjölmiðlamanna.

 

 

Sendiráð Íslands í Malaví kynnti fjármögnun, í samstarfi við Go Fund A Girl Child Empower2Transform verkefnið, á rýmum sem stuðla eiga að efnahagslegri valdeflingu kvenna og stúlkna í viðkvæmri stöðu og styðja við þroska þeirra.

Í Kína sótti sendiherra Íslands í Peking, Þórir Ibsen, Western China International Fair ráðstefnuna sem fram fór í Chengdu. Þar var að finna íslensk vörumerki á borð við Össur, BioEffect, IceWear og fleiri.

 

 

Þá sótti sendiherrann sömuleiðis ríkisstjóra Sichuan héraðs, Huang Qiang, heim í vikunni. Þar ræddu þeir um frekara samstarf Íslands og Kína, svo sem milli fyrirtækja sem vinna með tæknilausnir í heilbrigðismálum, en einnig á sviði endurnýjanlegrar orku, ferðamennsku og vísindasamstarfi á sviði jöklafræði.

 

 

Sendiráð Íslands í Úganda, afhenti, ásamt héraðsyfirvöldum, nýja vatnsveitu sem knúin er af sólarorku. Jafnframt voru þrjár hreinlætisaðstöður í Namayingo héraði skoðaðar, en það stendur til að afhenda þær fljótlega.

 

Fleira var það ekki að sinni. Við vonum að starfsfólk njóti helgarinnar og biðjum það vel að lifa.

Upplýsingadeildin.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum