Hoppa yfir valmynd
28. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Vinnustofa um öryggi neðansjávarinnviða haldin á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli

Um 70 sérfræðingar frá þátttökuríkjum sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (Joint Expeditionary Force, JEF) og öðrum samstarfsríkjum komu saman á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í vikunni til að taka þátt í vinnustofu um öryggi þjóðhagslega mikilvægra neðansjávarinnviða. 

Málstofan er liður í að efla samstarf og skilning á þessu mikilvæga viðfangsefni sem styður við þá vinnu sem er í gangi hjá ríkjunum, innan JEF-samstarfsins og Atlantshafsbandalagsins, á þessu sviði.

„Öryggi neðansjávarinnviða er mikið hagsmunamál fyrir öll þau ríki sem eiga aðild að þessu samstarfi. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að taka þátt í samtali og undirbúningi varðandi varnir þessara mikilvægu innviða og leggja okkar af mörkum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Öryggi neðansjávarinnviða er ofarlega á baugi hjá flestum þátttökuríkjum JEF samstarfsins, þar með talið orkuleiðslna og fjarskiptastrengja. Varnarmálaráðherrar JEF ákváðu á fundi sínum fyrr í þessum mánuði að auka samstarf ríkjanna um að greina, sporna við og svara ógnum gegn þjóðhagslega mikilvægum neðansjávarinnviðum. Þetta er meðal annars gert með því að deila bestu starfsvenjum, leita leiða til frekara samstarfs og tryggja að málefni mikilvægra neðansjávarinniviða séu hluti af framtíðarverkefnum JEF. Þá er einnig mikilvægt að tryggja samhæfingu og samfellu við starfsemi Atlantshafsbandalagsins á þessu sviði.

Með vinnustofunni leggur Ísland sitt af mörkum til umræðunnar með því að leiða bandamenn og önnur samstarfsríki saman til umræðna og vinna að auknu öryggi neðansjávarinnviða.
Vinnustofan var haldin í samvinnu utanríkisráðuneytisins og breska sendiráðsins í Reykjavík og naut stuðnings af tímabundinni viðveru höfuðstöðva sameiginlegu viðbragssveitarinnar (Standing Joint Force Headquarters, SJFHQ) á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Sérfræðingar frá hollensku hugveitunni Clingendael Institute, evrópska öndvegissetrinu um fjölþáttaógnir í Helsinki og StratCom Academy í Bretlandi sáu um að leiða umræðurnar.

Aðildarríki sameiginlegu viðbragðssveitarinnar eru ásamt Íslandi: Bretland, Danmörk, Eistland, Finnland, Holland, Lettland, Litáen, Noregur og Svíþjóð. 

 
  • Vinnustofa um öryggi neðansjávarinnviða haldin á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum