Hoppa yfir valmynd
8. september 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 8. september 2023

Heil og sæl, 

Dagur sá er póstur þessi er nefndur í höfuðið á er enn á ný upp runninn. Ef það er eitthvað sem við Íslendingar kunnum þá er það að vinna okkur til hita og með lækkandi hitatölum aukum við auðvitað álagið. Ráðstefnur, kvikmyndahátíðir, útgáfuhóf, listsýningar og fundir, bæði stórir og smáir fylla dagatölin og lífið í utanríkisþjónustunni fylgir að sjálfsögðu þessum takti. Lítum yfir atburði liðinnar viku.

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hittust í Lettlandi í vikunni. Á fundinum ræddi Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir við kollega sína um breytt landslag á alþjóðavettvangi og möguleika til aukins samstarfs milli ríkjanna. Málefni Úkraínu voru að sjálfsögðu ofarlega á baugi og ítrekaði ráðherra nauðsyn þess að ráðamenn í Rússlandi yrðu látnir sæta ábyrgð vegna innrásarstríðsins.

Við hefjum yfirlit yfir starfsemi sendiskrifstofanna í Afríku að þessu sinni, nánar tiltekið Úganda. Sendiráð Íslands í höfuðborginni Kampala undirritaði samning  við samtökin Child Care and Youth Empowerment Foundation (CCAYEF). CCAYEF eru úgandísk samtök sem vinna að því að bæta lífskjör barna og ungmenna í viðkvæmri stöðu.

Sendiráð Íslands í Lilongwe, Malaví, kynnti til leiks tvo nýja starfsmenn sem hófu störf í sendiráðinu í vikunni.

Þá greindi sendiráðið frá frábærum árangri Koche grunnskóla sem hlotið hefur stuðning í gegnum verkefnið Mangochi Basic Services Programme. Verkefnið er fjármagnað af íslenskum stjórnvöldum og sendiráðið Íslands í Malaví hefur umsjón með því. 

Og þá færum við okkur yfir til Norðurlandanna. Byrjum í Helsinki. Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Finnlandi kynnti starfsemi sendiráðsins fyrir félögum í félagi fyrrverandi alþingismanna sem voru stödd í borginni í námsferð. 

Í Kaupmannahöfn verður blásið til prjónahátíðar á Norðurbryggju. Hátíðin hefst í dag og stendur alla helgina. Að venju er dagskráin fjölbreytt og spennandi og heilmargir prjónahönnuðir og framleiðendur taka þátt.

Högni Kristjánsson sendiherra í Osló bauð til móttöku í tilefni útgáfu bókar um norsk-íslenskt samstarf á sviði skógræktar. Bókin, sem er skrifuð bæði á íslensku og norsku, heitir Frændur fagna skógi / Frender feirer skog og hefur að geyma fjölda ljósmynda og fróðleik um umfangsmikið samstarf landanna á sviði skógræktar allt frá landnámi. 

Viðskiptafulltrúi sendiráðsins í Osló, Eva Mjöll Júlíusdóttir, ásamt Þorleifi Þór Jónssyni hjá Íslandsstofu kynnti á dögunum Ísland sem áfangastað á ANTOR Norway, vinnustofum í Stavanger, Kristiansand og í Osló. Þar hittu norskir ferðaskipuleggendur landkynningarskrifstofur fjölmargra landa og aðra þjónustuaðila.

Þá hélt staðgengill sendiherra í Osló, Þorvaldur Hrafn Yngvason, opnunartölu á sérstakri hátíðarsýningu íslensku kvikmyndarinnar Á ferð með mömmu, sem tilnefnd er til Norrænu kvikmyndaverðlaunanna 2023. 

Sendiráð Íslands í Stokkhólmi minnir okkur öll á að haustið er sannarlega komið með skemmtilegum fróðleik um réttir (sem google translate vill gjarnan þýða sem "dishes" á ensku) sem nú standa sem hæst á Íslandinu góða.

Aðalræðisskrifstofa Íslands í Færeyjum fagnaði undirritun samstarfssamnings á sviði rannsókna og nýsköpunar milli Rannís og Rannsóknarráðs Færeyja. 

Og yfir til Norður-Ameríku. Aðalræðisskrifstofa Íslands í New York hefur hönd í bagga með viðburðinum Taste of Iceland sem í þetta sinn dúkkar upp í Chicago með veglegri dagskrá að vanda. 

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra í Washington ferðaðist til Chicago af sama tilefni, til að styðja við viðburðinn þar sem borgarbúar fá að bragða á íslenskum mat og njóta íslenskrar listar í öllum sínum fjölbreytileika.

Á hverju ári er sætaröðun í sal allherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York stokkað upp. Þetta árið situr fastanefnd Ísland ofarlega fyrir miðju, að vanda með Ungverjaland á vinstri hönd og Indland á hægri. 

Og nýkjörinn forseti allsherjarþingsins var vígalegur þegar hann hóf íslenska fundarhamarinn Ásmundarnaut á loft við setningu 78. allsherjarþingsins undir kjörorðunum friður, velmegun, framþróun og sjálfbærni.

Í Winnipeg var fólk hvatt til að skrá sig í Kvennahlaup sem haldið verður í Arborg, Manitoba þann 24. september næstkomandi. 

Lítum til Evrópu. Sendiherra Íslands í París, Unnur Orradóttir Ramette, hélt í vikunni móttöku til heiðurs þremur íslenskum listakonum sem staðið hafa fyrir sýningu í sendiráðsbústaðnumí dágóðan tíma. Sýningin ber titilinn „Trois artistes : un élément“ og taka listakonurnar; Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá, Guðrún Kristjánsdóttir og Guðbjörg Lind Jónsdóttir, þar fyrir frumefnið vatn í íslenskri náttúru. Sýningin vekur jafnan mikinn áhuga og umræður gesta og gangandi. 

Sendiráð Íslands í Póllandi minnti á mikilvægt samstarfs milli Lublin og Reykjavíkur á sviði menntunar í tilefni af því að skólar í Póllandi hófu göngu sína á ný og rifjuðu upp rástefnu um málið sem haldin var á vordögum.

Síðasta stopp í heimshornaflakkinu að þessu sinni er í Asíu en sendiráð Íslands í Tókýó greindi frá heimsókn nemenda Kansai Academy of Sciences á Bessastaði þar sem staða kynjanna var skeggrædd.  

Þórir Ibsen, sendiherra í Peking sneri endurnærður til baka úr sumarleyfi og vinnuheimsókn á Íslandi. Hann byrjaði haustið á góðum fundi við fulltrúa CPC European Affairs Bureau. 

Þá opnaði hann einnig málþing í Taiyuan Energy & Low Carbon Development Forum þar sem grænar fjárfestingar og samstarf Íslands og Kína á sviði nýtingar jarðhita voru til umræðu. 

Heimsljós, fréttaveita okkar um mannúðarmál og þróunarsamvinnu greindi frá því að Landgræðsluskóli GRÓ útskrifaði á dögunum fjölmennasta nemendahópinn frá upphafi, 23 sérfræðinga, 12 konur og 11 karla. Alls hafa 198 sérfræðingar útskrifast frá Landgræðsluskólanum á sextán starfsárum skólans. 

Nú kemur helgin. Við hvetjum ykkur til að taka út styttingu vinnnuvikunnar, smeygja ykkur í þægileg föt, hita ykkur te og taka utan um þennan rómantíska tíma í allri sinni dýrð. Hér kemur lag til að leika undir þessum gjörningi. 

Með kveðju,
upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum