Hoppa yfir valmynd
9. mars 2021 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Rúmum 1,5 milljarði veitt til innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum

Þórdís Kolbrún og Guðmundur Ingi kynntu styrkveitingar í dag - myndStyrmir Kári

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu í dag grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2021. Samtals er nú úthlutað 764 milljónum króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og 807 milljónum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem gerir kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp innviði á ferðamannastöðum.

Mikill árangur hefur náðst frá síðustu úthlutun í að bæta innviði um land allt og auka getu svæðanna til að taka á móti ferðamönnum. Árið 2020 var metár með tilliti til umfangs framkvæmda á ferðamannastöðum. Sérstakt fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar gerði þá kleift að flýta framkvæmdum, sem ekki hefðu annars verið á verkefnaskrá síðasta árs.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti um 400 milljónum til slíkra verkefna árið 2020, séu aðeins talin með hefðbundin innviðaverkefni. Þar á meðal var vel heppnuð uppbygging gönguleiða í Laugahrauni og við Rauðufossa að Fjallabaki og bílastæða við Jökulsárlón. Í gegnum Landsáætlun, sem fjármagnaði verkefni fyrir 878 m.kr. síðasta vor, var lokið við afar brýn verkefni eins og þurrsalernið við Dettifoss og þá er vinna við fráveitu í Skaftafelli hafin. Þessu til viðbótar má nefna að síðasta haust var 139 m.kr. úthlutað til bráðaaðgerða og nýfriðlýstra svæða. Samtals voru þetta yfir 1.400 milljónir árið 2020.  

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra veitti 200 m.kr. í viðbótarframlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem hafði það í för með sér að 15 verkefni víða um land hlutu brautargengi, til viðbótar við þau 33 sem áður höfðu verið styrkt af sjóðnum á árinu 2020Sem dæmi má nefna styrki til Heimskautsgerðis við Raufarhöfn og Þorláksleið á vegum Skálholts. 

Landsáætlun: 85 ný verkefni

Gert er ráð fyrir rúmlega 2,6 milljarða króna framlagi til þriggja ára, sem rennur til verkefnaáætlunar Landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2021-2023. 85 ný verkefni bætast við að þessu sinni og sem fyrr er áhersla lögð á að um sé að ræða heildstæða nálgun í gegnum svæðisheildir. Áhersla er þó einnig lögð á annars konar óstaðbundin verkefni s.s. til að auka fagþekkingu, bæta hönnun og samræmingu. Verkefni eru nú á áætlun á rúmlega 100 ferðamannastöðum, -svæðum og -leiðum og ber helst að nefna fyrirhugaða uppbyggingu ofan við Öxarárfoss með stórbættu aðgengi í þinghelgina, auk þess sem lokið verður við göngupalla við Dettifoss sem auka öryggi og aðgengi til muna.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra:

„Landsáætlun um uppbyggingu innviða og þriggja ára verkefnaáætlunin henni fylgjandi, sem við höfum uppfært árlega síðan 2018, er verkfæri sem hefur sannað sig vel á síðustu þremur árum. Við höfum séð afar jákvæða þróun til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum um allt land. Það skiptir máli að byggja á faglegu mati sérfræðinga um ástand svæða, hafa fyrirsjáanleika og fjármagn til langtímaáætlunargerðar en einnig þegar bregðast þarf hratt og örugglega við óvæntu álagi vegna ferðamanna, eins og við höfum gert. Nú þegar við gefum verkefnaáætlunina út í fjórða sinn erum við að sjá fyrir endann á mörgum framkvæmdaverkefnum, stórum og smáum, sem ég veit að mun vernda viðkvæma náttúru og styðja við góða upplifun fólks á ferð sinni um landið.“ 

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða: Hæsti styrkurinn til til Hornafjarðar

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir að þessu sinni styrki til 54 verkefna um allt land og nemur styrkupphæðin samtals 807 milljónum króna.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: 

„Hér bætist enn myndarlega við þau mörg hundruð verkefni sem Framkvæmdasjóðurinn hefur styrkt á undanförnum árum. Smám saman, en þó örugglega, er að verða bylting í aðstöðu við bæði gamla og nýja ferðamannastaði á Íslandi. Og sífellt liggur meiri heildarsýn á bak við þessa uppbyggingu, sem endurspeglast í tengingum við áætlanir hvers landshluta um uppbyggingu á sínu svæði. Það er mjög jákvæð þróun.“ 

Þetta er talsverð aukning á milli ára en fjárheimild sjóðsins var aukin tímabundið um 200 milljónir króna sem hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19.

Hæstu styrkirnir að þessu sinni eru styrkir til að hanna og byggja uppgöngu- og hjólastíg frá Svínafelli yfir í þjóðgarðinn í Skaftafelli, bygging þjónustuhúss fyrir ferðamenn við Hengifoss og lokastyrkur til uppbyggingar við Þrístapa

Alls fá 17 verkefni styrki sem eru hærri en 20 milljónir króna. Þar má sem dæmi nefna byggingu skógarhúss við lbrekkuskóg, áfangastaði austan Tjörness, stígagerð og brúun í Glerárdal og flotbryggju í Drangey. 

Með breyttum lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og breyttu gæðamati eru 46 af 53 verkefnum skilgreind á áfangastaðaáætlun innan síns svæðis, en með því er stuðlað að sjálfbærri þróun, jafnvægi og markvissari svæðisbundinni þróun á áfangastöðunum. 

Hér má sjá kynningu ráðherranna: 

 

Nánari upplýsingar: 

  • Einar Ásgeir Sæmundsen þjóðgarðsvörður á Þingvöllum sagði frá uppbyggingu og áformum um hana innan þjóðgarðsins
  • Verkefnið Jöklaleið fékk hæsta styrkinn úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Matthildur Ásmundsdóttir, bæjarstjóri Hornafjarðar, Árdís Erna Halldórsdóttir, atvinnu- og ferðamálafulltrúi, Brynja Dögg Ingólfsdóttir, umhverfis og skipulagsstjóri og Hlynur Axelsson, arkitekt kynntu verkefnið.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira