Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar

Nemendur í Tækniskólanum - mynd

Heilbrigðisráðherra hefur, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra, birt auglýsingu um takmörkun á skólastarfi og hefur hún þegar tekið gildi. Markmiðið er að raska sem minnst skólastarfi vegna COVID-19 þrátt fyrir að gætt sé að sóttvarnasjónarmiðum. Talið var nauðsynlegt að fjalla um takmarkanir á skólahaldi í sérstakri auglýsingu en fyrir gildistöku hennar féllu ákvæði þar að lútandi undir auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar tekur til leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, framhaldsfræðslu og háskóla hvort sem um er að ræða opinbera eða einkarekna skóla. Þá tekur ákvörðunin jafnframt til annarra menntastofnana, svo sem frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþróttastarfs og gilda um það sömu reglur og um viðkomandi skólastig í samráði við sóttvarnayfirvöld. 

Fjöldatakmörkun í skólastarfi er hin sama og kveðið er á um í gildandi auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Reglur um fjöldatakmörk og nálægðarmörk taka ekki til barna sem fædd eru árið 2005 og síðar.

Í auglýsingunni er meðal annars fjallað um 1 metra nálgæðartakmörkun í skólastarfi, sóttvarnaráðstafanir vegna viðveru foreldra inni í leikskólum vegna aðlögunar barna, sóttvarnaráðstafanir í námi þar sem ekki er hægt að framfylgja nándarreglu, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu og klínísku námi. Einnig er fjallað um reglubundin þrif, sótthreinsun sameiginlegs búnaðar og snertiflata og fleira.

Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkun skólastarfs eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar. Auglýsingin gildir til 29. september.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum