Hoppa yfir valmynd
10. desember 2012 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Framlengja á frest um viðhaldsáætlanir flugvéla og þyrlna

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um almannaflug flugvéla, nr. 694/2010 og reglugerð um almannaflug þyrlna, nr. 695/2010. Umsagnarfrestur um drögin er til 17. desember næstkomandi og skal senda umsagnir á netfangið [email protected].

Samkvæmt meðfylgjandi reglugerðardrögum er tveimur reglugerðum breytt þ.e. reglugerð um almannaflug flugvéla, nr. 694/2010 og reglugerð um almannaflug þyrlna, nr. 695/2010.

Í breytingunni felst framlenging á frestun ákvæða um viðhaldsáætlanir flugvéla og þyrlna. Í janúar 2011 var reglugerðum um almannaflug flugvéla og almannaflug þyrlna breytt þannig að frestað var gildistökuákvæðum um viðhaldsáætlanir fyrir flugvélar og þyrlur. Er hér um að ræða kröfu á loftför sem falla ekki undir Reglugerð um viðvarandi lofthæfi loftfara og flugtæknilegra framleiðsluvara, hluta og búnaðar og um samþykki fyrir viðhaldsstöðvum og starfsfólki á þessu sviði, nr. 206/2007. Var sú breyting gerð í kjölfar gagnrýni frá fulltrúum Flugmálafélags Íslands sem töldu að um stranga kröfu væri að ræða og að þeir þyrftu tíma til að aðlagast henni. Tekið skal fram að langflest loftför falla undir rg. 206/2007 en undir reglugerðir þær sem hér er breytt falla almennt litlar einkavélar eða gamlar vélar sem hafa sögulegt gildi.

Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) hóf á árinu að þróa breytingar á reglum um almannaflugið sem miða að ákveðnum tilslökunum á gildandi reglum. Í ljósi þeirra breytinga sem væntanlegar eru telur ráðuneytið rétt að fresta gildistöku ákvæðanna enn frekar og nú til 1. janúar 2015.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira