Hoppa yfir valmynd
3. október 2019 Innviðaráðuneytið

Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga tæpir 47,7 milljarðar árið 2018

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur ávarp á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í gær. - mynd

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í gær og samhliða var  ársskýrsla sjóðsins gefin út. Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu tæpum 47,7 milljörðum króna árið 2018. Ársfundinn sátu framkvæmdastjórar sveitarfélaga eða staðgenglar þeirra, fulltrúar samtaka sveitarfélaga og aðrir samstarfsaðilar Jöfnunarsjóðs. Á ársfundinum var m.a. fjallað um ársskýrslu sjóðsins, sameiningu sveitarfélaga og hlutverk sveitarfélaga við að efla sjálfbærni og styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Framlög Jöfnunarsjóðs skiptast í bundin framlög, sérstök framlög, jöfnunarframlög, jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla og jöfnunarframlög vegna málefna fatlaðra. Framlög vegna málefna fatlaðra vógu þyngst og námu rúmlega 17,6 milljörðum á árinu. Næst á eftir komu jöfnunarframlög vegna grunnskóla sem námu rúmlega 11,7 milljörðum.

„Jöfnunarsjóður gegnir mjög mikilvægu hlutverki við að jafna aðstöðumun sveitarfélaga þannig að öll sveitarfélög í landinu hafi möguleika á að sinna skyldum sínum hvað varðar þjónustu við íbúana,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í ræðu sinni á ársfundinum.

Greiðslur sjóðsins vega misþungt í tekjum þeirra sökum ólíkra aðstæðna sveitarfélaga í dreifbýlu landi. Hjá flestum sveitarfélögum vega þessar greiðslur á bilinu 20-40% af tekjum þeirra, en jafnframt höfum við dæmi um að framlög úr sjóðnum séu um eða yfir 50% af tekjum. „Þetta segir okkur að líklega eru sveitarfélögin enn of fámenn og of mörg og þar með ekki sjálfbærar einingar til að geta sinnt lögbundnum verkefnum,“ sagði Sigurður Ingi. Ráðherra fór einnig nokkrum orðum um aðgerðaáætlun í nýrri þingsályktunartillögu um stefnumótun í málefnum sveitarfélaga en þar er gert ráð fyrir að reglum um stuðning Jöfnunarsjóðs verði breytt til að tryggja aukinn fjárhagslegan stuðning við sameiningar sveitarfélaga.

Guðni Geir Einarsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði, flutti skýrslu um starf sjóðsins á árinu 2018 og fór yfir ársreikning sjóðsins það ár. Fram kom að tekjuafgangur sjóðsins hafi verið 38,6 milljónum króna á árinu.

Á fundinum kynnti Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, metnaðarfullan samráðsvettvang sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Hlutverk vettvangsins væri að miðla þekkingu og reynslu og þróa sameiginlegar aðferðir til að mæla árangur. 

Þá flutti Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshrepps, fyrirlestur um fyrirhugaða sameiningu nokkurra sveitarfélaga á Austurlandi. Loks kynnti Hörður Hilmarsson, sérfræðingur hjá Capacent, nýja og endurbætta upplýsingagátt Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum