Hoppa yfir valmynd
28. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samstarfsráðherrar Norðurlanda funduðu í Noregi

Frá fundi samstarfsráðherranna.  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda og félags- og vinnumarkaðsráðherra, sótti fund samstarfsráðherra Norðurlanda sem haldinn var í Halden í Noregi, við landamæri Noregs og Svíþjóðar, 27.-28 júní 2022. Samstarfsráðherrar Norðurlanda sjá um samhæfingu norræna ríkisstjórnasamstarfsins í umboði forsætisráðherra landanna.

Fyrir fundinn lögðu samstarfsráðherrarnir blóm á vettvangi þar sem skotárás var framinn í Ósló aðfaranótt laugardagsins 26. júní. Þar lýstu ráðherrarnir því yfir að Norðurlönd taki sér stöðu með hinsegin fólki og mótmæli hvers konar ofbeldi.  

Á fundi samstarfsráðherranna var meðal annars samþykkt yfirlýsing um að Norðurlöndin munu efla samstarf sitt á erfiðleikatímum. Kemur þar m.a. fram að samstarfsráðherrarnir beri mikilvæga ábyrgð á því að vekja athygli á norræna stjórnarhorninu, jafnt á milli landanna sem innan ríkisstjórna sinna, og gera grein fyrir áskorunum og tækifærum, ekki síst á erfiðleikatímum. Munu ráðherrarnir hittast þegar vá steðjar að til að sjá til þess að tekið verði tillit til norræna sjónarhornsins áður en ákvarðanir verða teknar innan landanna.

,,Það hefur bersýnilega sýnt sig í heimsfaraldrinum hversu mikilvægt samstarf Norðurlandanna er á erfiðleikatímum og hvernig Norðurlöndin geta lært af kórónuveirufaraldrinum varðandi aukið og betra samstarf “ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda og félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Þá fjölluðu ráðherrarnir um miðtímamat á framkvæmdaráætlun 2021-2024 fyrir norrænu framtíðarsýnina um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030. Ráðherrarnir funduðu einnig með stjórnsýsluhindranaráðinu, en það vinnur að frjálsri för á Norðurlöndum og er pólitísk en óháð nefnd sem stofnuð var árið 2014 að frumkvæði norrænu forsætisráðherranna. Þá átti Guðmundur Ingi tvíhliða fundi með Anne Beathe Tvinnereim, þróunarmálaráðherra Noregs, og Kaj Leo Holm Johannesen, heilbrigðisráðherra Færeyja, en þau eru einnig samstarfsráðherrar Norðurlandanna fyrir hönd sinna landa.

Þeir norrænu samstarfsráðherrar sem sóttu fundinn voru, auk Guðmundar Inga, Flemming Møller Mortensen, þróunarsamvinnuráðherra Danmerku, Thomas Blomqvist ,jafnréttisráðherra Finnlands, Kaj Leo Holm Johannesen, heilbrigðisráðherra í Færeyjum, Anne Beathe Kristiansen Tvinnereim, þróunarráðherra Noregs, Anna Hallberg, utanríkisviðskiptaráðherra Svíþjóðar og Annette Holmberg-Jansson, félags- og heilbrigðisráðherra Álandseyja. Þá sat Upaluk Poppel, fulltrúi Grænlands í norrænu samstarfsnefndinni, fundinn í fjarveru Vivian Motzfeldt, utanríkis-, vinnumála- og viðskiptaráðherra Grænlands.

Noregur sinnir formennsku í  Norrænu ráðherranefndinni árið 2022 en Ísland mun gegna formennskunni árið 2023.

Fréttatilkynningar norrænu ráðherranefndarinnar frá fundinum má nálgast hér og frá athöfn í Ósló hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum