Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp um innleiðingu keðjuábyrgðar o.fl.

Byggingaframkvæmdir - mynd

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem snýr að starfsemi erlendra þjónustuveitenda hér á landi , þar á meðal starfsmannaleiga. Markmið frumvarpsins eru m.a. að bæta yfirsýn stjórnvalda með starfsemi erlendra aðila hér á landi, styrkja eftirlit með henni og sporna við félagslegum undirboðum.

Frumvarpið felur að mestu í sér innleiðingu Evróputilskipunar um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu og um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn.

Markmið frumvarpsins er að veita íslenskum stjórnvöldum betri yfirsýn yfir stöðuna á innlendum vinnumarkaði að því er varðar starfsemi erlendra þjónustuveitenda, þ.m.t. starfsmannaleiga, og einnig varðandi fjölda og stöðu erlendra starfsmanna hjá slíkum fyrirtækjum. Með frumvarpinu er einnig ætlunin að styrkja eftirlit á íslenskum vinnumarkaði svo koma megi í veg fyrir að útsending starfsmanna og starfsemi starfsmannaleiga hér á landi leiði til félagslegra undirboða. Gangi eftir þær breytingar sem áformaðar eru með frumvarpinu verður þannig stuðlað að jafnri samkeppnisstöðu fyrirtækja á íslenskum vinnumarkaði, þar sem komið verður í veg fyrir að erlend fyrirtæki sem virða ákvæða laga og gildandi kjarasamninga að vettugi hafi samkeppnisforskot gagnvart öðrum fyrirtækjum sem fara að lögum og reglum.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru þau að skerpt er á upplýsingaskyldu erlendra þjónustuveitenda og gert ráð fyrir auknu samstarfi Vinnumálastofnunar við þar til bær stjórnvöld í heimaríkjum þjónustuveitenda. Gert er ráð fyrir aukinni miðlun upplýsinga milli eftirlitsstofnana til að sporna við brotum á ákvæðum laga og kjarasamninga.

Lagt er til að Vinnumálastofnun verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem veita ekki upplýsingar eða aðgang að gögnum eða veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

Keðjuábyrgð í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð

Kveðið er á um keðjuábyrgð í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð sem setur ákveðnar skyldur á herðar innlendum fyrirtækjum (notendafyrirtækjum) sem nýta sér aðkeypt vinnuafl með þjónustusamningum við erlend fyrirtæki. Gert er ráð fyrir að þessi ábyrgð nái meðal annars til vangoldinna lágmarkslauna og annarra launaþátta, s.s. yfirvinnugreiðslna, launa í fjarvistum vegna veikinda eða slysa og til vangoldinna launatengdra gjalda hér á landi. Samkvæmt frumvarpinu mun sama ábyrgð hvíla á notendafyrirtækjum gagnvart starfsmönnum undirverktaka, þ.e. ef erlenda fyrirtækið nýtir sér þjónustu undirverktaka til að uppfylla þjónustusamning sinn við notendafyrirtækið.

Lögð er til svokölluð verkkaupaábyrgð í byggingastarfsemi eða mannvirkjagerð sem felur í sér að þar sem einn eða fleiri atvinnurekendur verða að störfum samtímis sé það á ábyrgð verkkaupans eða fulltrúa hans að skipuleggja og samræma aðgerðir sem tryggja að við hönnun, undirbúning og framkvæmd verks verði gætt fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.

Loks er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að veita tímabundin atvinnuleyfi þeim sem grunur leikur á að séu fórnarlömb mansals. Er þetta talið bæta stöðu viðkomandi einstaklinga og auka líkur á að unnt sé að rannsaka mál þeirra til hlítar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum