Hoppa yfir valmynd
10. maí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skýrsla um nýtt greiðslukerfi vegna skertrar starfsgetu – dregið úr skerðingum og hlutastörfum fjölgað

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi í dag skýrslu samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Samráðshópurinn hafði það hlutverk að móta framfærslukerfi sem styður við það markmið starfsgetumats að sem flestir geti verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Tillögur hans fela í sér umtalsverðar breytingar á núgildandi greiðslukerfi og nýjar tegundir greiðslna. Samráðshópurinn starfaði samhliða faghóp um mótun og innleiðingu starfsgetumats, sem skilaði ráðherra skýrslu í febrúar.

Ásmundur Einar hefur ákveðið með hliðsjón af framangreindum skýrslum, frekari greiningum og tillögum að leggja strax til nokkrar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, sem fyrsta skref í átt að nýju örorkulífeyriskerfi í almannatryggingum. Með þeim verði dregið úr áhrifum annarra tekna örorkulífeyrisþega á sérstaka uppbót vegna framfærslu og svokölluð ,,krónu á móti krónu“ skerðing afnumin.

Almenn samstaða hefur verið um að endurskoða þurfi lög um almannatryggingar sem og uppbyggingu lífeyristrygginga almannatrygginga, bæði hvað varðar elli og örorku. Hafa margir starfshópar og nefndir unnið að þeirri endurskoðun allt frá árinu 2005. „Nýgengi örorku hér á landi hefur aukist jafnt og þétt í öllum aldurshópum á síðustu árum en á árinu 2016 var það í fyrsta sinn meira en náttúruleg fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði, og við því þarf að bregðast,“ segir Ásmundur Einar. „Það er mikill vilji innan ríkisstjórnarinnar að efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Fyrsta skref stjórnvalda í þeim efnum er að skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu. Á síðari stigum er mikilvægt að atvinnulífið taki virkan þátt í því verkefni.“

Í greiningu sem KPMG gerði fyrir velferðarráðuneytið (nú félagsmálaráðuneytið) kemur fram að hlutfall öryrkja af mannfjölda er hæst hér á landi borið saman við hin Norðurlöndin, eða 8,6%. „Að hluta skýrist sá munur af kerfislægum þáttum enda hafa flest Norðurlöndin farið í gegnum stefnubreytingar síðastliðin ár með aukinni áherslu á virkni og er löngu ljóst að nauðsynlegt er að gera umbætur í þessum efnum,“ segir Ásmundur Einar.

Samráðshópur um breytt framfærslukerfi almannatrygginga leggur til að greiðslur almannatrygginga skiptist í sjúkragreiðslur, endurhæfingargreiðslur, virknigreiðslur og örorkulífeyri auk þess sem tekin verða upp sveigjanleg hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu, en nánari grein er gerð fyrir greiðslunum í skýrslunni. Að mati hópsins er breytt greiðslukerfi mikilvæg forsenda þess að vel takist til við innleiðingu starfsgetumats þar sem skapaðir verði auknir hvatar til atvinnuþátttöku á sama tíma og einstaklingum með skerta starfsgetu er tryggð örugg framfærsla.

Tillögurnar fela í sér mjög umfangsmiklar breytingar á núgildandi kerfi og telur samráðshópurinn að forsenda þeirra sé að vandað verði vel til verka. Þá hyggst félags- og barnamálaráðherra láta vinna áfram að breytingum á örorkulífeyriskerfinu í samstarfi við þá aðila sem málið varðar. Mikilvægur þáttur í því er að fjölga störfum fyrir fólk með skerta starfsgetu og er áhersla lögð á að hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, gangi á undan með góðu fordæmi. Enn fremur verði stofnanir ráðuneytisins  styrktar til að gera þeim kleift að sinna sem best umsýslu og þjónustu við einstaklinga og atvinnurekendur vegna sveigjanlegra starfa.

Ásmundur Einar segir ljóst að víðtækt samráð þurfi að vera um breytingar á bótakerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu. „Innleiðing þeirra er stórt og mikilvægt verkefni sem krefst mikils af stjórnkerfinu, enda snertir málið lífsafkomu margra.“ 

Hinir ýmsu sérfræðingar bæði innan ráðuneytisins og utan hafa unnið skýrslur og greiningar til að varpa ljósi á þær áskoranir sem til staðar eru þegar kemur að starfsgetumati og breytingum á framfærslukerfi almannatrygginga og leggja til tillögur að lausnum. Þær eru meðfylgjandi.

 

Fylgiskjöl:

  1. Þróun örorku. KPMG (febrúar 2018).
  2. Atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu. Gallup (desember 2018).
  3. Nýtt kerfi starfsendurhæfingar og mats á starfsgetu. Tillögur faghóps um mótun og innleiðingu starfsgetumats (febrúar 2019).
  4. Nýtt greiðslukerfi vegna skertrar starfsgetu. Tillögur samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga (maí 2019).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum