Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 1. apríl 2022

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum á fyrsta degi aprílmánaðar og förum yfir það helsta í utanríkisþjónustunni á síðastliðnum tveimur vikum.

Hvað dagskrá utanríkisráðherra varðar bar hæst þriggja daga opinber heimsókn til Finnlands í vikunni en hún var í tilefni af því að um þessar mundir eru 75 ár síðan Ísland og Finnland tóku upp formlegt stjórnmálasamband. Með í för var viðskiptasendinefnd Íslandsstofu og íslenskra fyrirtækja sem eru leiðandi í grænum orkulausnum. Ráðherra átti meðal annars fundi með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Sauli Niinistö Finnlandsforseta og Matti Vanhanen, forseta finnska þjóðþingsins.

Á miðvikudag voru þrjátíu ár frá því Ísland og Úkraína tóku upp formlegt stjórnmálasamband, en það var gert að tillögu ríkisstjórnar Úkraínu í framhaldi af viðurkenningu Íslands á sjálfstæði og fullveldi Úkraínu. Af þessu tilefni hittust Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Olga Dibrova, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, á fundi í Helsinki.

Í síðustu viku fylgdist utanríkisráðherra, ásamt varnarmálaráðherrum Noregs, Finnlands og Svíþjóðar, með varnaræfingunni Cold Response 2022 í Norður-Noregi. Þórdís Kolbrún sagði einhug ríkja á meðal Norðurlanda um að efla samvinnu á sviði öryggis- og varnarmála enn frekar, í ljósi gerbreyttrar stöðu öryggismála.

„Við erum ákaflega þakklát fyrir það góða samstarf sem við eigum með vinaþjóðum okkar á Norðurlöndum. Æfingar af þessu tagi þjóna mikilvægu hlutverki því þær gera ríkin betur í stakk búin til að verja eigin landsvæði, jafnframt til að koma öðrum til varnar, eins og skuldbindingar 5. greinar Atlantshafssáttmálans gera ráð fyrir,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Í gær opnaði ráðherra síðan opinn fund um málefni norðurslóða í Háskólanum á Akureyri. Fundurinn var mikilvægur liður í að efla innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða og markaði upphafið að gerð framkvæmdaáætlunar fyrir stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Þórdís Kolbrún sagði málefni norðurslóða eitt af forgangsmálum í íslenskri utanríkisstefnu enda fá ríki sem hafi jafn mikla hagsmuni af hagfelldri þróun á svæðinu.

Þá tilkynnti ráðherra í gær um samtals 400 milljóna króna framlag Íslands til neyðaraðstoðar í Afganistan á fjáröflunarfundi Sameinuðu þjóðanna. Afganska þjóðin stendur frammi fyrir mikilli neyð en áætlað er að 24 milljónir íbúa þurfi á mannúðaraðstoð að halda þar sem lífskjör hafa hríðversnað og um helmingur afgönsku þjóðarinnar býr við mikið fæðuóöryggi. Í ávarpi sínu ítrekaði utanríkisráðherra einnig mikilvægi þess að tryggja aðgang stúlkna að menntun.

„Áframhaldandi skerðing grundvallar mannréttinda undir stjórn Talibana veldur miklum vonbrigðum. Einkum er ákvörðun þeirra um að útiloka stúlkur frá mið- og gagnfræðiskólanámi mikið áhyggjuefni og mun valda miklum skaða, ekki einungis fyrir stúlkurnar sjálfar og fjölskyldur þeirra, heldur fyrir framtíð Afganistan,“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars.

Nýsköpun og tækniþróun, hlutverk Íslandsstofu til stuðnings íslensku atvinnu- og menningarlífi og mikilvægi sköpunarkraftsins voru svo til umfjöllunar í ávarpi utanríkisráðherra á ársfundi Íslandsstofu sem haldinn var í Grósku 1. apríl.

Þessu næst víkjum við að starfsemi sendiskrifstofa okkar síðustu vikur, en þar er af nógu að taka!

Í Færeyjum er þess minnst að í dag eru fimmtán ár frá því aðalræðisskrifstofa Íslands var opnuð í Færeyjum. Skrifstofan varð þar með eina diplómatíska sendiskrifstofan í Færeyjum. Fyrsti aðalræðismaður Íslands var Eiður Guðnason en síðar komu þangað til starfa Albert Jónsson, Þórður Bjarni Guðjónsson og Pétur G. Thorsteinsson. Núverandi aðalræðismaður er Benedikt Jónsson.

Í síðustu viku var undirritaður loftferðasamningur milli Íslands og Chile. Sendiherra Íslands í Osló, Ingibjörg Davíðsdóttir og sendiherra Chile, Luiz Plaza Gentia, undirrituðu samninginn í sendiráði Íslands í Osló.

Þá var loftferðasamningur milli Íslands og Konungsríkisins Hollands vegna Sint Maarten einnig undirritaður í vikunni. Sendiherra Íslands, Kristján Andri Stefánsson, og sendiherra Hollands, Pieter Jan Kleiweg de Swaan, undirrituðu samninginn í Brussel.

Í vikunni tók Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Osló, einnig á móti Henri Gétaz, framkvæmdastjóra EFTA, og Hege Marie Hoff, aðstoðarframkvæmdastjóra EFTA.

Degi Norðurlandanna var víða fagnað þann 23. mars síðastliðinn. Fastafulltrúar Norðurlandanna hjá Sameinuðu þjóðanna gerðu þetta myndband um gildi norrænnar samvinnu.

Fulltrúar Norðurlandanna komu einnig saman í Washington.

Og fastafulltrúar Norðurlandanna hjá Evrópuráðinu.

Ísland stýrði ráðsfundi EFTA sem haldinn var í Genf í síðustu viku.

66. kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna lauk í New York í síðustu viku, þar sem Ísland var meðal annars í hópi 70 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna auk ESB til að undirrita yfirlýsingu um stöðu kvenna og stúlkna í Úkraínu.

Í Malaví var haldinn fundur til þekkingarmiðlunar fyrir þrjátíu embættismenn í héruðunum Mangochi og Nkhotakota.

Deildarstjóri tvíhliða þróunarsamvinnu og deildarstjóri fjármála þróunarsamvinnu fóru til Úganda í síðustu viku til eftirlits og samráðs vegna verkefnaundirbúnings.

Nikulás Hannigan, aðalræðismaður Íslands í New York, sótti samkomu til stuðnings Úkraínu í boði borgarstjóra New York borgar.

 

Rithöfundurinn Ragnar Jónasson var heiðursgestur í móttöku í embættisbústaðnum í París í gær, en milljón einstök af verkum Ragnars hafa nú selst í Frakklandi.

Þann 15. mars fór fram kynning á verkefnunum Film in Iceland og Record in Iceland í sendiráðsbústaðnum í Stokkhólmi. Á kynninguna mættu um 60 gestir úr heimi kvikmynda- og tónlistarframleiðslu í Svíþjóð og fengu þeir nánari upplýsingar um það hvað Ísland hefur upp á að bjóða í þessum efnum.

Það sama var uppi á teningnum í Finnlandi í síðustu viku.

 

Á morgun hefst varnaræfingin Norður-Víkingur 2022 á Íslandi og á hafinu í kringum landið. Megintilgangur æfingarinnar er að æfa varnir sjóleiða umhverfis Ísland og mikilvægra öryggisinnviða en einnig leit og björgun á sjó og landi. Um er að ræða reglubundna tvíhliða varnaræfingu Íslands og Bandaríkjanna með þátttöku fleiri vina- og bandalagsríkja.

Á þriðjudag í næstu viku tekur utanríkisráðherra þátt í fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlanda. Dagana 6.-7. apríl sækir hún utanríkisráðherrafund NATO í Brussel og þaðan flýgur hún til Vilníus til fundar með utanríkisráðherra Litáen dagana 8. til 9. apríl.

Fleira var það ekki í bili. Við minnum á Heimsljós!

Góða helgi.

Upplýsingadeild


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum