Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 17. febrúar 2023

Upplýsingadeildin heilsar ykkur á þessum fagra föstudegi. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sat tveggja daga fund varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins í Brussel 14. og 15. febrúar. Sagt var frá fundinum á vef Stjórnarráðsins 
en meginefni hans voru stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu og efling sameiginlegs viðbúnaðar og varna bandalagsins. Á fundinum var algjör samstaða um áframhaldandi stuðning við varnir Úkraínu og tilkynntu fjölmörg ríki um aukin framlög til að mæta þörfum Úkraínu.

„Það er mikilvægt að við sýnum öll stuðning okkar við Úkraínu í verki. Hugrekki íbúa Úkraínu andspænis hrottafengnu árásarstríði Pútíns er aðdáunarvert. Samstaða um mikilvægi þess að styðja við Úkraínu er órofa. Ísland hefur leitast við að finna leiðir til þess að leggja sitt af mörkum meðal annars með mannúðaraðstoð, fjárhagsaðstoð og með stuðningi við varnartengd verkefni og það munum við halda áfram að gera,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Þá sneri hluti björgunarsveitarinnar sem send var til Tyrklands vegna jarðskjálftanna þar aftur til Íslands í vikunni. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri tók á móti þeim fyrir hönd ráðherra og þakkaði þeim fyrir þeirra mikilvæga framlag.

 

 

Fastanefnd Íslands gagnvart UNESCO stóð að glæsilegum rakarastofuviðburði fyrir fastafulltrúa ríkja í framkvæmdastjórn stofnunarinnar í París. Tilgangurinn með rakarastofuviðburðum er að gefa öllum kynjum, þó sérstaklega karlmönnum, vettvang til að ræða kynjamisrétti og hvernig þeir geti stuðlað að kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi. 

 

 

Í sendiráðinu í Brussel lauk samningaviðræðum Íslands, Noregs og Sviss við framkvæmdastjórn ESB um þátttöku Íslands í sjóði um ytri landamæri og vegabréfsáritanir. Ísland er þátttakandi í sjóðnum á grundvelli Schengen-samstarfsins og mun hafa um 24 m.evra til þess að styrkja verkefni til stuðnings landamæravörslu og útgáfu áritana. Samningurinn verður í kjölfarið undirritaður og fullgiltur af Íslands hálfu. 

 

 

Í lok síðustu viku greindi sendiráð Íslands í Helsinki frá þremur viðburðum sem sendiherrahjónin Harald Aspelund og Ásthildur Jónsdóttir stóðu fyrir í tengslum við opnun dótturfélags  Vinnslustöðvarinnar þar í landi sem ber heitið VSV Finland.

 

 

Þau hjónin létu ekki þar við sitja heldur héldu í heilmikla hjólareisu umhverfis höfuðborg Finnlands. Sjálfbæru sendiherrahjónin halda úti fésbókarsíðu þar sem hægt er að fylgjast með þeim kynnast umdæmislöndum sendiráðsins á hjólum. Við mælum með því að fylgjast með síðunni enda um virkilega hugvekjandi og hvetjandi framtak að ræða. 

 

Sendiráð Íslands í Kanada tók þátt í vetrarhátíð þar sem gestum og gangandi gafst færi á að njóta norðurljósanna með aðstoð tækninnar.

 

 

Í nafni sjálfbærninnar skelltu Högni Kristjánsson sendiherra Íslands í Noregi, eiginkona hans Ásgerður Magnúsdóttir og Eva Mjöll Júlíusdóttir viðskiptafulltrúi sér í jómfrúarsiglingu rafknúna bátsins Brisen um Oslóarfjörðinn. 

 

 

Í Winnipeg hittist skipulagsnefnd fyrir Íslendingadaginn sem fer fram í ágúst. Á fundinum var tekin ákvörðun um þema. Þemað sem varð fyrir valinu var: "Haltu sögu þinni áfram" sem útleggst á ensku: "Continue your Saga". Aðalræðismaður okkar í Winnipeg Vilhjálmur Wiium bar fundum kveðju frá íslenskum stjórnvöldum.

 

 

Í New York náði fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum að setja rómantískan blæ á vinnu við ályktun um samvinnu milli Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins. 

Og aðalræðisskrifstofan í New York bauð fría bíómiða á nýja bíómynd Hlyns Pálmasonar Volaða land í tilefni dags ástarinnar.

 

Gestkvæmt var í Washington en þar á bæ var tekið á móti bæði gestum frá Færeyjum og nemendum frá Howard háskóla sem taka þátt í Model UN sem er nokkurskonar hermilíkan af starfi hinna ýmsu stofnanna Sameinuðu þjóðanna og fór fram í borginni í dag. Í líkaninu fá þessir nemendur það hlutverk að leika sendinefnd frá Íslandi og til undirbúnings fengu þau að spyrja Davíð Loga Sigurðsson sendifulltrúa spjörunum úr. 

 

Við ljúkum föstudagspóstinum að þessu sinni á fréttum frá Indlandi. Í Kalkútta fór fram ein stærsta kaupstefna fyrir sjávaraafurðir og viðskipti með fisk sem haldin er á Indlandi. Hátíðin var opnuð þann 15. febrúar og að þessu sinni var íslenska fyrirtækið Marel India hópi um 350 fyrirtækja sem kynntu framleiðslu sína og viðskipti. Guðni Bragason sendiherra sótti kaupstefnuna ásamt Rahul Chongtham viðskiptafulltrúa í fylgd Sharad Varma, aðalsræðismanns Íslands í Kalkútta. Meira má lesa um málið í frétt á Stjórnarráðsvefnum

 

Guðni Bragason sendiherra Íslands í Nýju Delí og Sharad Verma kjörræðismaður Íslands í Kalkutta heimsækja sýningarbás Marel´s á IISS sýningunni (India International Seafood Show) sem haldin var í Kalkutta á dögunum - mynd

 

Þá er þetta komið í bili. Við vonum að þið liggið ekki á liði ykkar í bollubakstri og -áti um helgina. Hlökkum til að sjá ykkur á sjálfan stórhátíðardaginn næsta mánudag. Njótið helgarinnar!

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum