Hoppa yfir valmynd
27. október 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 27. október 2023

Heil og sæl!

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum á fallegum haustdegi í Reykjavík og færum ykkur yfirlit yfir það helsta í utanríkisþjónustunni í vikunni. Af nógu er að taka eins og svo oft áður. 

Vikan hófst á sögulegu kvennaverkfalli sem boðað var til 24. október þegar 48 ár voru liðin frá fyrsta kvennaverkfallinu árið 1975. Konur og kvár lögðu niður störf í einn sólarhring til að varpa ljósi á kerfisbundið launamisrétti og kynbundið ofbeldi og hafði verkfallið áhrif á störf utanríkisþjónustunnar sem og aðra vinnustaði á Íslandi.

Dag Sameinuðu þjóðanna bar upp á sama degi en sjaldan hefur hrikt jafn verulega í stoðum alþjóðakerfisins, með Sameinuðu þjóðirnar í broddi fylkingar, og um þessar mundir eins og fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum þekkir. En meira um það síðar.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra fundaði um síðustu helgi með Rob Bauer, formanni hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins. Þróun öryggismála, innrásarstríð Rússlands í Úkraínu, aukinn fælingar- og varnarviðbúnaður Atlantshafsbandalagsins og viðbúnaður á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum voru helstu umræðuefni fundarins. 

Allt hefur leikið á reiðiskjálfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í vikunni. Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefur endurtekið mistekist að samþykkja ályktanir um aðgerðir vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Rússland og Kína beittu neitarvaldi gegn ályktun Bandaríkjanna á miðvikudag. Annarri ályktun að frumkvæði Rússlands var einnig hafnað

Í gær hófst neyðarumræða í allsherjarþingi SÞ vegna stríðsátakanna fyrir botni Miðjarðarhafs sem enn er í gangi þegar þetta er skrifað og er Ísland á meðal varaforseta umræðunnar. 

Ísland var svo með eigin ræðu í öryggisráði SÞ á þriðjudag þar sem Þórður Ægir Óskarsson, varafastafulltrúi gagnvart SÞ, lýsti yfir djúpstæðum áhyggjum Íslands af átökunum milli Ísrael og Palestínu.

Þá flutti Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum erindi á áheitaviðburðinum Invest-In-Women Global Summit á vegum frjálsu félagasamtakanna Women's Peace & Humanitarian Fund.

Í Finnlandi tók Harald Aspelund sendiherra þátt í vinnuheimsókn Ásmundar Einar Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, til Ríga.

Á kvennafrídaginn bauð Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, félagskonum í Félagi kvenna í atvinnulífinu í Danmörku (FKA-DK) til hátíðarviðburðar í sendiherrabústaðnum þar sem Hvatningarverðlaun FKA-DK voru veitt.

Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa heimsótti svo sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og kynntu þau Árni Þór og Stefanía Kristín Bjarnadóttir, viðskipta-og menningarfulltrúi, fyrir þeim starfsemi sendiráðsins.

 

Forseti Íslands var heiðursgestur á 100 ára afmælishátíð Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni.

Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London, fór á dögunum í heimsóknir til hafnarborganna Hull og Grimsby.

 

Þá hýsti sendiráðið fund hugveitunnar OMFIF þar sem Ásgeir Jónsson var aðalræðumaður. Sturla Sigurjónsson, sendiherra, sat jafnframt fundinn.

Þá klæddist starfsfólk að sjálfsögðu bleiku á bleika daginn.

 

Helga Hauksdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart skrifstofum Sameinuðu þjóðanna í Vín heimsótti í síðustu viku fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu SÞ (UN Office on Drugs And Crime, UNODC). 

Sendiráðið í Washington fékk heimsókn frá 60 nemendum úr Verzlunarskóla Íslands, en nemendurnir heimsóttu borgina í tengslum við stjórnmálafræðiáfanga sem þau eru í þessa önnina. Starfsfólk sendiráðsins gáfu kynningu um helstu verkefni, áherslur og nýlega hápunkta í starfi. Boðið var upp á hrekkjavökunammi við góðar undirtektir.

Davíð Logi sendifulltrúi sótti í Hringborð Norðurslóða á Íslandi í síðustu viku ásamt mörgum Bandaríkjamönnum. Andrew Light, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna ábyrgur fyrir alþjóðamálum var meðal þáttakenda og átti hann einnig tvíhliða fund með Guðlaugi Þór, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Lisa Murkowski, öldungardeildarþingmaður og góðvinur sendiráðsins sótti einnig ráðstefnuna.

Davíð Logi nýtti ferðina til Íslands vel og hitti sendinefnd þingmanna og embættismanna frá Alaska sem voru í stefnumótunarferð á Íslandi á vegum Háskólans í Alaska og Alska Center for Energy.

María Erla Marelsdóttir sendiherra Íslands í Berlín sótti tónleika Víkings Ólafssonar þar sem hann lék lék Goldberg Variationen eftir Bach fyrir fullu húsi í Fílharmóníunni í Berlín stuttu eftir að hafa hlotið OPUS KLASSIK verðlaunin 2023 sem hljóðfæraleikari ársins fyrir flutning sinn á verkinu. 
 

Í Brussel fundaði vinnunefnd EFTA um samgöngugerðir og fékk til sín gesti frá framkvæmdastjórn ESB.

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Peking, flutti ávarp við opnun sjávarútvegssýningarinnar í Qingdao. Hann fjallaði um sjálfbæran sjávarútveg og fiskvinnslu og reynslu Íslands.

Hann skoðaði sýningarbása Marels, Brims og Triton

Á meðan hann var í Qingdao, heimsótti hann skrifstofur Eimskips og Íslensku útflutningmiðstöðvarinnar.

 

Þá skoðaði hann einnig hitaveitu Arctic Green Energy sem nýtir varma frá skólpleiðslum.

Í Malaví fór fram miðannarrýni í kynjajafnréttis og mannréttindamálum.

Í dag tóku fulltrúar Buikwe-héraðs og sendiráðs Íslands í Kampala fyrstu skóflustunguna að athvarfi fyrir þolendur kynbundins ofbeldis í héraðinu.

Hildigunnur Engilbertsdóttir forstöðumaður sendiráðsins í Kampala hitti svo Susan Namondo, fulltrúa stofnana Sameinuðu þjóðanna í Úganda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum