Hoppa yfir valmynd
8. júní 2023 Innviðaráðuneytið

Íslendingar á réttri leið í öryggi í samgöngum

Frú Vigdís Finnbogadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Ragnhildur Hjaltadóttir, fv. ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins. - mynd

Fjölmenni sótti ráðstefnu innviðaráðuneytisins um öryggi í samgöngum, sem haldin var þriðjudaginn 6. júní, undir yfirskriftinni Á réttri leið. Það var samdóma álit fyrirlesara að með samtakamætti, fræðslu og markvissri stefnumótun hefði tekist að stórbæta öryggi í samgöngum á síðustu áratugum. Öryggisáætlanir fyrir umferð, siglingar og flug miði stöðugt að því að fækka slysum með markvissum aðgerðum og mælikvörðum sem gera okkur kleift að læra af reynslunni og meta árangur. 

Góðan árangur má ekki hvað síst þakka öflugri forystu sem fært hefur Ísland í hóp þeirra bestu. Þar er fremst í flokki Ragnhildur Hjaltadóttir sem nýverið lét af störfum sem ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins eftir 40 ára farsælan feril í Stjórnarráðinu og var ráðstefnan haldin henni til heiðurs fyrir ómetanlegt framlag til öryggismála.

Núll-stefna í umferðinni líkt og í siglingum og flugi

„Árangur Íslands í að auka öryggi í flugi, umferð og siglingum er eftirtektarverður, jafnvel svo að vekur athygli langt út fyrir landsteina. Nú er Íslandi í flokki þeirra bestu í samgönguöryggi. Aðdáunarverður árangur hefur náðst í öryggi sjómanna þar sem banaslys heyra nánast fortíðinni til, það heyrir einnig til undantekninga að það verði banaslys í flugi og sem betur fer hefur ekki orðið slys í farþegaflugi í fjöldamörg ár,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni.

„Við hljótum alltaf að horfa til þess að fækka slysum, koma í veg fyrir sársauka og minnka samfélagslegan kostnað. Með aukinni fjárfestingu í bættum vegasamgöngum getum við sett okkur núll-stefnu eins og sumar nágrannaþjóðir okkar. Rétt eins og í öryggi á sjó þá getum við enn bætt árangur okkar í samgöngum á landi,“ sagði ráðherra.

Reynslusaga slysa- og bráðalæknis

Kristín Sigurðardóttir slysa- og bráðalæknir á LSH lagði út af fjölbreyttri reynslu sinni m.a. sem læknir á neyðarbíl, sem þyrlulæknir og sem sjólæknir. Kristín sýndi með tölum hversu gríðarlega mikið hefur áunnist í samgönguöryggi á undanförnum áratugum þar sem banaslysum hefur fækkað þannig að Ísland er nú meðal þeirra bestu hvort sem er á landi, sjó eða lofti. Kristín beindi sjónum að samspil lýðheilsu, skipulags og samgangna þ.á m. á stöðugt áreiti snjalltækja, þá hættu sem stafar af dægurvillu þ.e. að tíminn á líkamsklukkunni er ekki sá sami og úrinu, að mikilvægi aðgengi að náttúru og að áhrifum loftslagsbreytinga á andlega og líkamlega líðan.

Samstillt átak skilar árangri

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, fjallaði um góðan árangur sem náðst hefur í umferðaröryggismálum með öflugu samstarfi allra hagaðila og skýrri forystu sem endurspeglast í Umferðaröryggisáætlun þ.e. í stefnumótun, aðgerðum og eftirfylgni. Árið 2016 höfðu 1.500 manns látið lífið í umferðinni á Íslandi. Með stöðugu samstilltu átaki er Ísland nú í fjórða sæti fyrir samanburðarlönd þar sem fæstir láta lífið í umferðinni samkvæmt meðaltali áranna 2018-2022. Sýnileiki löggæslu og sjálfvirkt hraðaeftirlit, sérstaklega meðalhraðaeftirlit hafi reynst vel við að breyta hegðan ökumanna til hins betra.

Ísland fyrirmynd annarra þjóða í siglingaöryggi

Michael Kingston er írskur lögfræðingur sem starfar sem ráðgjafi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) um öryggi fiskiskipa og í vaxandi mæli öryggi skipa á Norðurslóðum m.a. við Pólarkóðann. Michael talaði um sameiginlegan menningararf Íslands og Írlands og hlutverk kvenna í sjósókn fyrr á tímum. Síðan beindi Michael orðum sínum að Íslandi og því mikilvæga hlutverki sem það hefur sinnt í því að bæta öryggi sjófarenda. Ekki aðeins á heimaslóðum heldur einnig sem fyrirmynd annarra þjóða með þeim árangri sem náðst hafi við að nánast útrýma banaslysum á sjó og við að hvetja aðrar þjóðir til þess að sameinast um og fullgilda samninga á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) t.d. Torremolinos og Capetown um öryggi fiskiskipa. Hann þakkaði Ragnhildi Hjaltadóttur sérstaklega fyrir sitt framlag en einnig Sverri Konráðssyni sem staðið hafi vaktina hjá IMO síðustu áratugi. Loks ræddi Michael um mikilvægi forystu Íslands í málefnum Norðurslóða m.a. í gegnum PAME starfshóp Norðurskautsráðsins um verndun hafsins.

Skólaskylda sjómanna bjargað mannslífum

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, fjallaði í erindi sínu um öryggi sjófarenda, reynslu sína af sjómennsku og tilurð Slysavarnaskóla sjómanna árið 1985 en fram að þeim tíma hefði mátt líkja mannfalli á sjó við stríðsátök í öðrum löndum. Hann minntist frumkvæði stjórnvalda í lagasetningu s.s. um lögleiðingu gúmmíbjörgunarbáta um borð í fiskiskipum sem hafa bjargað 1.200 mannslífum við Íslandsstrendur en nú væru banaslys á sjó afar fátíð. Hilmar ræddi forsendur þess að nú er litið til Íslands víða um heim sem fyrirmyndar um öryggi sjófarenda hvað varðar skyldunámskeið sjómanna. fræðslu og forvarnir og þær nýjungar sem nú eru að líta dagsins ljós t.d. með innleiðingu á öryggisstjórnunarkerfum, atvikaskráningu og nú síðast rafrænni lögskráningu. 

Að meðaltali 39 manns vinna að öruggri flugferð

Björn Guðmundsson öryggistjóri Icelandair fjallaði um öryggismálin í háloftunum þar sem áhætta væri ekki ásættanleg enda flugið öruggasti samgöngumátinn. Hann lýsti nálgun flugfélagsins við öryggi og öryggisstjórnun þess þar sem litið er á slys sem frávik í áhættustjórnun oftast vegna mannlegra mistaka. Nefndi hann að fæst okkar viti að það væru að meðaltali 39 starfsmenn að baki hverri brottför sem allir vinna saman að því að gera ferðina sem öruggasta.

Forvarnir vörn gegn hinu óvænta

Bergur Ebbi Benediktsson, lögfræðingur og framtíðarfræðingur, fjallaði um öryggi út frá annarri nálgun þar sem forvarnir eru leið til að koma í veg fyrir hið óvænta. Það eigi einnig við um framtíðina, við búum okkur sem best undir eitthvað sem við erum ekki viss um hvað er.

Öryggið að leiðarljósi

Ragnhildur Hjaltadóttir heiðursgestur ráðstefnunnar átti lokaorðin. Þar lýsti hún því þakklæti sem hún fyndi fyrir að leiðarlokum fyrir þau tækifæri sem hún hefði haft til að láta gott af sér leiða með störfum sínum. Þakkaði öllu því góða fólki sem hefði lagt hönd á plóginn svo við kæmumst á stall með þeim bestu í öryggismálum samgangna.  Hún minnti okkar á eigin ábyrgð þegar lífið er í húfi.  Öryggið byggir á að við séum öll með aðgát að leíðarljósi. 

Upptaka frá ráðstefnu

  • Fundargestir klappa fyrir Ragnhildi Hjaltadóttur í lok ráðstefnunnar. - mynd
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra - mynd
  • Kristín Sigurðardóttir slysa- og bráðalæknir á LSH - mynd
  • Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri - mynd
  • Michael Kingston, ráðgjafi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) - mynd
  • Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna - mynd
  • Björn Guðmundsson, öryggisstjóri Icelandair - mynd
  • Bergur Ebbi Benediktsson, rithöfundur og fyrirlesari - mynd
  • Ragnhildur Hjaltadóttir, fv. ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins - mynd
  • Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, var fundarstjóri á ráðstefnunni. - mynd
  • Michael Kingston færði Sigurði Inga Jóhannssyni, Ragnhildi Hjaltadóttur og Sverri Konráðssyni, sem vann hjá IMO um áratuga skeið, þakkir og ljósmynd að gjöf. - mynd
  • Starfsfólk Rannsóknanefndar samgönguslysa færði Ragnhildi blóm að gjöf að ráðstefnu lokinni. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum