Eftirfylgni úttektar á Vinakoti
Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar framkvæmdi úttekt á búsetuúrræðum Vinakots á árinu 2019. Í úttektarskýrslu frá nóvember 2019 beindi stofnunin því til eigenda og stjórnenda Vinakots ehf. að huga að eftirfarandi þáttum er lúta að þjónustu við börn/ungmenni í búsetuúrræðum Vinakots:
- Mönnun/Stjórnun: Aðgerðir til að auka stöðugleika í mannahaldi
- Sjálfsmat: Vinakot hugi að innleiðingu sjálfsmats til að leggja mat á eigin frammistöðu
- Fræðsla og fagleg þjálfun: Aukin áhersla verði lögð á þjálfun/fræðslu starfsmanna Vinakots
Eftirfylgni úttektar á búsetuúrræði Vinakots fór fram í nóvember 2021 með eftirfylgniviðtali við stjórnendur Vinakots, vettvangsathugun í öll búsetuúrræði Vinakots sem og greiningu umbeðinna gagna um starfsemi Vinakots. Var sérstaklega horft til fyrrgreindra þátta við framkvæmd eftirfylgninnar. Nánar er gert grein fyrir því sem fram kom við eftirfylgni úttektar í skjali neðst í fréttinni.
Niðurstaða eftirfylgni úttektar
Gæða- og eftirlitsstofnun hvetur áfram til þess að stuðlað sé að stöðugleika í starfsmannahaldi til hagsbóta fyrir börn og ungmenni í þjónustu Vinakots. Þá er áfram hvatt til þess að fjölga hlutfalli starfsfólks yfir 25 ára aldri þar sem mikilvægt er að það starfsfólk sem kemur að vinnu með þessum viðkvæma hópi hafi bæði þroska og reynslu. Þá leggur stofnunin til að við innri úttektir á gæðum þjónustu Vinakots verði í framtíðinni notast við Gæðaviðmið fyrir félagslega þjónustu við fatlað fólk. Hefur Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar með framangreindum athugasemdum og ábendingum lokið eftirfylgni úttektar á búsetuúrræðum Vinakots. Stofnunin gerir ráð fyrir að farið verði vel yfir þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við eftirfylgni úttektar og tekið verði fullt tillit til þeirra við starfsemi Vinakots í framtíðinni.