Hoppa yfir valmynd
2. desember 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 2. desember 2022

Heil og sæl. 

Vikan var enn og aftur afar viðburðarík í utanríkisþjónustunni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimsótti Kænugarð í Úkraníu í vikunni ásamt utanríkisráðherrum frá öðrum Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum. Í heimsókninni áttu ráðherrarnir fundi með úkraínskum ráðamönnum, þar á meðal Volodomir Selenskí forseta, Denys Shmyhal forsætisráðherra, Olgu Stefanishynu aðstoðarforsætisráðherra og Dmytro Kuleba utanríkisráðherra. Á fundunum var ástandið í Úkraínu rætt og kölluðu stjórnvöld eftir áframhaldandi stuðningi.

„Það skiptir miklu máli að geta séð með eigin augum aðstæður í úkraínsku höfuðborginni, jafnvel þótt að um stutta heimsókn sé að ræða. Það sem blasir við eru fyrst og fremst hinar hrikalegu afleiðingar linnulausra árása Rússa á borgaralega innviði. Hér er stöðugt barist við að halda rafmagni gangandi svo fólk geti haldið á sér hita í hryllilegum vetrarkulda sem er orðinn áþreifanlegur, snjór yfir öllu og bítandi frost,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Utanríkisráðherrarnir héldu sameiginlegan blaðamannafund í lok dags og gáfu út yfirlýsingu.

Þá var ráðherra m.a. til viðtals hjá RÚV vegna heimsóknarinnar.

Þórdís Kolbrún tók einnig þátt í utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Búkarest í vikunni þar sem stuðningur við Úkraínu vegna innrásar Rússlands var í brennidepli. Á fundinum tilkynnti utanríkisráðherra um aukið framlag Íslands til kaupa á búnaði fyrir varnarsveitir Úkraínu.

Þórdís Kolbrún sótti einnig fund utanríkisráðherra ÖSE sem haldinn var í pólsku borginni Łódź. Utanríkisráðherra áréttaði skuldbindingar aðildarríkjanna við alþjóðalög og alþjóðakerfið og brýndi þau til að beita sér fyrir friði, frelsi og mannréttindum í ávarpi sínu á fundinum.

„Við stöndum á svo mikilvægum krossgötum að þegar við horfum til baka – eftir kannski þrjátíu ár – eigum við annað hvort eftir að fyllast djúpri hryggð yfir hörmulegum óförum eða tala um tímamót samstöðu og styrks þegar alþjóðakerfið stóðst sína mestu þolraun án þess að líða undir lok,“ sagði utanríkisráðherra í ávarpinu.

Þá sótti ráðherra einnig hátíðarmóttöku í húsakynnum sendiráðs Íslands í Varsjá í tilefni af opnun þess á fullveldisdaginn.

„Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa tengsl ríkjanna verið mikil og vaxandi á fjölmörgum sviðum. Þar ber einna hæst í mínum huga að mikill fjöldi fólks frá Póllandi og af pólskum uppruna hefur auðgað íslenskt samfélag með því að setjast hér að til lengri eða skemmri tíma. Nú búa ríflega 20 þúsund íbúar með pólskt ríkisfang á Íslandi og er langstærsti hópur erlendra ríkisborgara. Vitaskuld hefur einnig fjölgað hratt í hópi þeirra sem eru Íslendingar með pólskar rætur,“ sagði Þórdís Kolbrún m.a. í aðsendri grein í Morgunblaðinu í tilefni af opnun sendiráðsins. 

Á mánudag sögðum við svo frá því að utanríkisráðuneytið og sendiskrifstofur okkar hefðu verið lýstar upp með roðagylltum lit í tilefni af 16 daga átaki gegn kyndbundnu ofbeldi.

Þá sögðum við frá fundi Önnu Jóhannsdóttur, skrifstofustjóra og staðgengli ráðuneytisstjóra, með Jim Morris, hershöfðingja og yfirmanns höfuðstöðva sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (Joint Expeditionary Force, JEF), í ráðuneytinu á þriðjudag.

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Við kynntum til leiks starfslið okkar í nýja sendiráðinu í Varsjá.

Sannarlega söguleg stund!

Sendiráð Íslands í Helsinki hefur haft í nógu að snúast undanfarna viku. Sendiherrahjónin opnuðu sýningu listakonunnar Valgerðar Hauksdóttur, GLIMPSES FROM PAST AND PRESENT, í sendiráðsbústaðnum.

Þá buðu sendiherrahjónin aðilum úr ferðaþjónustunni til viðburðar í samstarfi við Visit Iceland og Icelandair til að ræða áfangastaðinn Ísland.

Loks heiðraði forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sendiráðið með nærveru sinni í móttöku fyrir Íslendinga í tilefni af fullveldisdeginum 1. desember. 

Í Kaupmannahöfn komu norrænir sendiherrar saman til hádegisverðar til að ræða samband Danmerkur við Kína og þátt Kína í utanríkispólitík dagsins í dag.

Sendiherra Íslands í Moskvu, Árni Þór Sigurðsson, var staddur í Chișinău, höfuðborg Moldóvu, á fullveldisdaginn 1. desember til að opna nýja ræðisskrifstofu Íslands þar í borg. Dinu Cristian er nýskipaður kjörræðismaður Íslands í Moldóvu en landið er eitt umdæmisríkja sendiráðs Íslands í Moskvu.

Í ferð sinni til Moldóvu átti Árni Þór einnig fjölmarga fundi með fulltrúum stjórnvalda, þjóðþingsins, viðskiptalífs og rannsókna- og vísindasamfélags.

Í Osló bauð Högni Kristjánsson sendiherra norrænum starfssystkinum sínum til hádegisverðar ásamt Anne Beathe Tvinnereim, ráðherra þróunarmála og samstarfsráðherra Norðurlanda í norsku ríkisstjórninni.

Í Osló var fullveldisdeginum 1. desember fagnað með pompi og prakt.

 

Í Svíþjóð sótti Bryndís Kjartansdóttir, nýr sendiherra Íslands í Stokkhólmi, aðventuhátíð íslensku kirkjunnar í Gautaborg.

Sólrún Svandal tók þátt í pallborðsumræðum á Arctic Futures Symposium sem fór fram á dögunum í Brussel. Um er að ræða ráðstefnu um málefni norðurslóða sem haldin hefur verið árlega í Brussel síðan 2010 að frumkvæði International Polar Foundation í samstarfi við fulltrúa norðurskautsríkjanna í Brussel (þ.m.t. sendiráð Íslands). 

Fulltrúi Sendiráðs Íslands í London fór til Liverpool til þess að kynna sér starfsemi miðstöðvarinnar sem fer með umsóknir ríkisborgara ESB og EES til þess að setjast að í Bretlandi. Væntanlega hefur sá hinn sami einnig farið á Anfield.

Í Brussel stýrði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, fundi EES-ráðsins fyrir hönd EES-EFTA ríkjanna á dögunum, en Ísland gegnir nú formennsku í EES-ráðinu.

Unnur Orradóttir Ramette sendiherra Íslands í París vakti athygli á nýjum tvísköttunarsamningi Íslands og Andorra.

Í Washington bauð sendiráð Íslands hópi starfsfólks bandaríkjaþings í íslenskt jólahlaðborð.

Í Kanada funduðu sendiherra Íslands, Hlynur Guðjónsson, og aðalræðismaður Íslands í Winnipeg, Vilhjálmur Wiium, með aðilum í Lanark-sýslu í Ontario sem hafa áhuga á að taka upp íslenska forvarnarmódelið á sínu svæði.

Þá heimsótti sendiherrann Norðvesturhéruð Kanada til að færa bókasafni Yellowknife íslenskar bækur og ræða við fulltrúa stjórnsýslu, fyrirtækja og frumbyggja á svæðinu.

Jarðhitamálin voru sem fyrr í brennidepli hjá sendiráði okkar í Nýju Delí.

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra Íslands í Tókýó sótti ljósmyndasýningu þar í borg.

Fulltrúi sendiráðs Íslands í Kampala fór núverið í vettvangsferð með UNICEF í Úganda til að skoða heilsugæslur og skóla sem hafa risið fyrir tilstuðlan samstarfs Íslands og UNICEF.

Við minnum að endingu á Heimsljós.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum