Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2025

Viðbrögð við gagnkvæmistollum Bandaríkjanna og viðbúnaðar- og öryggisstefna ESB

Að þessu sinni er fjallað um:

  • viðbrögð ESB við gagnkvæmistollum af hálfu Bandaríkjanna
  • viðbúnaðarstefnu ESB
  • öryggisstefnu ESB
  • afgreiðslu Evrópuþingsins á samningum um framlag í Uppbyggingarsjóð EES og um tollkvóta fyrir sjávarafurðir
  • sáttmála um aukið samráð við aðila vinnumarkaðarins
  • óformlegan fund heilbrigðisráðherra
  • vinnuferð ráðuneytisstjóra til Brussel
  • könnun Eurobarometer: Ánægja með ESB aldrei mælst meiri

Vaktin kemur næst út eftir páska – þann 2. maí.

 

Viðbrögð ESB við gagnkvæmistollum af hálfu Bandaríkjanna

Viðbrögð ESB við „gagnkvæmnistollum“ sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um í vikunni að lagðir yrðu á innflutning á vörum til Bandaríkjanna hvaðanæva að úr heiminum hafa verið hörð en lýsa kannski framar öðru miklum vonbrigðum. Mismunandi er hversu háir tollar eru lagðir á einstök ríki og ríkjasambönd en við útreikning tolla í hverju tilviki virðist fyrst og fremst hafa verið litið til talna um viðskiptajöfnuð eða réttara sagt viðskiptahalla Bandaríkjanna gagnvart viðkomandi ríki eða ríkjasambandi, en tollurinn er þó aldrei lægri en 10%. Viðskiptahalli Bandaríkjanna gagnvart ESB er sagður vera 39%, sem skilar sér í ákvörðun um 20% toll samkvæmt reikniformúlu sem notuð er.

VdL: Engin regla á óreiðunni

Í ávarpi sem forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen (VdL), flutti á fimmtudaginn harmar hún ákvörðun Bandaríkjaforseta sem hún telur að muni hafa afar slæm áhrif á bæði fyrirtæki og neytendur beggja vegna Atlantshafsins sem hefðu notið ávinnings af því viðskiptafrelsi sem ríkt hafi um áratuga skeið.

VdL gagnrýndi harðlega nálgun bandarískra stjórnvalda við ákvörðun „gagnkvæmnistollana“. Sagði hún í yfirlýsingu sinni að það væri engin sjáanleg regla á óreiðunni og engin skýr leið til þess að feta sig í gegnum þær flækjur og óreiðu sem tollastefna Bandaríkjanna skapaði.

Gagnaðgerðir í undirbúningi – frekari verndaraðgerðir ekki útilokaðar

VdL áréttaði jafnframt að ESB myndi grípa til gagnaðgerða til að bregðast við þessum tollahækkunum. Undirbúningur þeirra gagnaðgerða sem þegar voru boðaðar til að bregðast við álagningu tolla á ál og stál væru á lokastigi, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 14. febrúar sl., og ESB hefði frekari aðgerðir í undirbúningi til að bregðast við þessum nýjustu tollahækkunum.

Þá lagði VdL jafnframt áherslu á að ESB myndi fylgjast grannt með þeim afleiddu og óbeinu áhrifum sem tollahækkanir Bandaríkjanna kynnu að hafa í för með sér. Undirstrikaði hún að ESB gæti ekki tekið við þeirri umframframleiðslugetu sem tollastefnan gæti leitt til né myndi sambandið líða að önnur ríki undirbyðu vörur sínar á mörkuðum ESB. Þessi orð hennar eru ótvíræð vísbending um að framkvæmdastjórnin muni fylgjast vandlega með áhrifum tollahækkana í Bandaríkjunum á heimsviðskipti og grípa hugsanlega til frekari aðgerða leiði tollahækkanir ESB til þess að aukning verði á innflutningi til ESB á vörum sem áður hefðu farið á Bandaríkjamarkað.

ESB áréttar ríkan samningsvilja

Í ávarpi sínu lagði VdL áherslu á að ekki væri of seint að finna sameiginlega lausn á hagsmunamálum ESB og Bandaríkjanna með samningaviðræðum. Sagði hún framkvæmdastjóra viðskiptamála, Maroš Šefčovič, ávallt reiðubúinn til samtals og hvatti hún bandarísk stjórnvöld til að setjast frekar að samningaborðinu en að sækjast eftir átökum. Er þetta í samræmi við fyrri yfirlýsingar VdL og annarra forystumanna ESB, sem hafa ítrekað freistað þess að fá ríkisstjórn Trumps til þess að ganga til samningaviðræðna til þess að forðast tollastríð.

Leiðtogar aðildarríkja ESB taka undir undir orð VdL

Margir leiðtogar aðildarríkja ESB hafa tjáð sig um málið og hafa viðbrögð þeirra verið á svipuðum nótum og fram kom í ávarpi forseta framkvæmdastjórnarinnar.

Aðildarríkin hafa fram til þess ekki stigið fyllilega í takt við framkvæmdastjórnina þegar kemur að viðbrögðum við tollastefnu Bandaríkjanna. Hafa viðbrögð margra þeirra einkennst af varfærni og ótta við að aðgerðir af hálfu ESB geti leitt til stigmögnunar og hækkunar á tollum á vörum framleiddum í viðkomandi ríkjum. Þessi fyrstu viðbrögð aðildarríkjanna eru því vísbending um að „gagnkvæmnistollar“ Trumps geti orðið til þess að fylkja aðildarríkjunum betur saman í stuðningi við gagnaðgerðir af hálfu ESB.

Maroš Šefčovič fundandi í dag með nefnd fastafulltrúa aðildarríkjanna (Coreper II) þar sem hann kynnti fyrir þeim lista af bandarískum vörum sem framkvæmdastjórnin leggur til að gagnráðstafanir ESB muni beinast að og herma fregnir að tillaga framkvæmdastjórnarinnar verði mögulega tekin til afgreiðslu af hálfu aðildarríkjanna svo fljótt sem 9. apríl nk. 

Viðbúnaðarstefna ESB

Hinn 26. mars sl. birti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu um viðbúnaðarstefnu (e. EU Preparedness Union Strategy) sem hefur verið í vinnslu undanfarin misseri, sbr. umfjöllun í Vaktinni 14. febrúar, 31. janúar og 26. júlí sl., sbr. einnig sérstaklega umfjöllun Vaktarinnar 6. desember sl. um skýrslu Sauli Niinstö um eflingu viðbúnaðar á sviði almannavarna og hermála en fyrir liggur að með þeirri skýrslu, sem ber yfirskriftina Safer together, var lagður tiltekinn grunnur að framangreindri stefnumótun.

Stefnan tekur til eflingar viðbúnaðar sambandsins vegna mögulegs krísuástands sem upp getur komið á mismunandi sviðum og af mismunandi orsökum. Í viðauka með stefnunni er sett fram aðgerðaáætlun til að stuðla að markmiðum stefnunnar en helstu markmið og aðgerðir stefnunnar eru að:

Vernda nauðsynlega samfélagslega starfsemi, m.a. með því að:

  • Þróa lágmarkskröfur um viðbúnað fyrir mikilvæga þjónustu eins og sjúkrahús, skóla, samgöngur og fjarskipti.
  • Auka birgðasöfnun á mikilvægum búnaði og efnum.
  • Auka aðlögunarhæfni vegna loftslagsbreytinga og tryggja framboð og aðgengi að mikilvægum náttúruauðlindum eins og vatni.

Efla viðbúnað almennings, m.a. með því að:

  • Hvetja almenning til að grípa til og temja sér hagnýtar ráðstafanir, svo sem með því að eiga alltaf birgðir af nauðsynlegum vörum, svo sem matvælum og lyfjum, sem duga að minnsta kosti í 72 klukkustundir í neyðartilvikum.
  • Innleiða viðbúnaðarfræðslu sem hluta af námskrám menntastofnana og efna til sameiginlegs viðbúnaðardags á vettvangi ESB.

Bæta samhæfingu neyðarviðbragða, m.a. með því að:

  • Stofna neyðarviðbragðsmiðstöð ESB (e. EU Crisis Hub) til að samhæfa betur samstarf milli viðeigandi stjórnvalda í aðildarríkjunum.

Efla borgaralega og hernaðarlega samvinnu, m.a. með því að:

  • Halda reglulegar viðbúnaðaræfingar innan ESB með aðkomu hersveita, almannavarna, lögreglu, öryggissveita, heilbrigðisstarfsfólks og slökkviliðs.
  • Stuðla að svonefndum tvínota fjárfestingum (e. dual-use investments), þ.e. í tækjum og innviðum sem nýtast bæði borgaralegum og hernaðarlegum aðilum.

Styrkja greiningargetu vegna áhættuþátta og ógna sem steðja geta að í framtíðinni, m.a. með því að:

  • Þróa heildstætt áhættumat á vettvangi ESB til að styðja við viðbúnað og aðgerðir til að draga úr afleiðingum viðburða sem kunna að eiga sér stað, svo sem náttúruhamfara, fjölþáttaógna o.s.frv.

Auka samvinnu hins opinbera og einkageirans, m.a. með því að:

  • Stofna sameiginlegan starfshóp um viðbúnað (e. Public-private Preparedness Task force).
  • Móta neyðarferla, í samstarfi við fyrirtæki, til að tryggja skjótan aðgang að nauðsynlegum efnum, vörum og þjónustu m.a. til að tryggja að mikilvægar framleiðslulínur raskist ekki.

Efla samstarf við ríki og aðila utan ESB, m.a. með því að:

  • Vinna með strategískum samstarfsaðilum eins og Atlantshafsbandalaginu að málefnum er varða hreyfanleika herja, loftslags- og öryggismálum, tæknimálum, netöryggismálum, geimvísindum og hergagnaiðnaði.

Stefnuáætlun um innri öryggismál ESB

Hinn 1. apríl sl. birti framkvæmdastjórn ESB nýja stefnuáætlun um innri öryggismál sambandsins (e. ProtectEU: a European Internal Security Strategy). Stefnan er hugsuð sem eins konar viðbót við viðbúnaðaráætlun ESB sem fjallað er um hér að framan sem og við stefnumörkun ESB á sviði varnarmála, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 21. mars sl. um hvítbók um varnarmál og endurvopnunaráætlun ESB. Fjórði hlekkurinn í nýrri stefnumörkun ESB á þessum sviðum er síðan væntanleg áætlun ESB um lýðræðisvarnir (e. European Democracy Shield).

Í stefnuáætluninni er sett fram ný sýn og vinnuáætlun um það hvernig efla megi innra öryggi ESB í ljósi vaxandi ógna af ýmsu tagi svo sem vegna háttsemi óvinveittra ríkja, skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverkaógnar og netglæpa. Stefnan leggur áherslu á heildstæða nálgun sem felur í sér þátttöku allra þ.e. almennings, fyrirtækja, félagasamtaka, menntakerfis, stjórnvalda o.s.frv.

Helstu efnisþættir í stefnuáætluninni eru eftirfarandi:

  • Áform um bætta stjórnun og stjórnsýsla í málaflokkum.
  • Bætta upplýsingamiðlun milli aðildarríkja, m.a. um niðurstöður áhættugreininga og stöðumats.
  • Efling löggæslustofnana og sameiginlegra stofnana á sviði dóms- og innanríkismála, m.a. Europol.
  • Aukið viðnám gegn fjölþáttaógnum og -árásum, m.a. með aukinni vernd mikilvægra innviða og auknu netöryggi.
  • Barátta gegn skipulagðri glæpastarfsemi m.a. með endurskoðun á lagaramma og sameiginlegum áætlunum til að berjast gegn glæpahópum.
  • Barátta gegn hryðjuverkastarfsemi og öfgahyggju.
  • Aukið alþjóðlegt öryggissamstarf.

Evrópuþingið samþykkir samning ESB og EES/EFTA-ríkjanna um framlag í Uppbyggingarsjóð EES og tollkvóta fyrir sjávarafurðir

Evrópuþingið samþykkti í vikunni samning ESB og EES/EFTA-ríkjanna um framlag í Uppbyggingarsjóð EES fyrir tímabilið maí 2021 til apríl 2028 og tollkvóta fyrir tilteknar sjávarafurðir frá Íslandi inn á markað ESB fyrir sama tímabil. Aðilar náðu samkomulagi í lok nóvember 2023, sbr. umfjöllun um samningana í Vaktinni 8. desember 2023 og 28. júní 2024. Formleg undirritun samninganna fór fram í Brussel í september 2024 og samningarnir tóku gildi til bráðabirgða 1. janúar 2025.

Tvær þingnefndir hjá Evrópuþinginu fjölluðu um samningana og greiddu um þá atkvæði en niðurstaðan í þeirri atkvæðagreiðslu var þó aðeins ráðgefandi. Þannig greiddi sjávarútvegsnefnd þingsins atkvæði um samningana 19. febrúar sl. þar sem niðurstaðan féll á jöfnu. Loks greiddi alþjóðviðskiptanefnd þingsins atkvæði um samningana 20. mars sl. og voru þeir samþykktir þar.

Í vikunni fór svo fram atkvæðagreiðsla um samningana á þingfundi í Evrópuþinginu þar sem samningarnir voru samþykktir. Samþykkt Evrópuþingsins er aðeins ráðgefandi fyrir samninginn um Uppbyggingarsjóðinn þar sem sá samningur telst ekki viðskiptasamningur samkvæmt reglum ESB. Annað gildir um samninginn um tollkvótana. Nauðsynlegt var að Evrópuþingið samþykkti samninginn um tollkvótana þar sem sá samningur felur í sér nýja bókun við viðskiptasamning Íslands og ESB frá 1972, því þurfti samþykki þingsins til að fullgilda þann samning. Þar sem þingið hefur samþykkt samningana þá er ekkert því til fyrirstöðu að ráðherraráð ESB að samþykki samningana endanlega, sem eru nú þegar í gildi, en eins og áður segir til bráðabirgða. 

Framkvæmdastjórnin og aðilar vinnumarkaðarins undirrita sáttmála um aukið samráð og samtal

Hinn 5. mars sl. undirrituðu fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB, fulltrúar samtaka evrópskra verkalýðsfélaga og fulltrúar samtaka atvinnurekenda í Evrópu nýjan sáttmála um aukið samráð og samtal um stefnumótun í vinnumarkaðs- og félagsmálum.

Samtal og samráð á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er talið vera hryggjarstykkið í evrópska velferðarmódelinu og vera til þess fallið að stuðla að félagslegri velmegun, bættum lífskjörum og vinnuskilyrðum auk þess að efla samkeppnishæfni fyrirtækja og auka framleiðni þeirra m.a. með því að tryggja að starfsmenn hafi til að bera viðeigandi færni og þekkingu til að mæta þeim kröfum sem græn og stafræn umskipti hafa í för með sér.

Sáttmálinn byggist á þríhliða yfirlýsingu aðilanna sem kennd er við fund sem fram fór í Val Duchesse í janúar 2024, þar sem aðilarnir, þ.e. leiðtogar ESB og fulltrúar samtaka verkalýðsfélaga og vinnuveitenda skuldbundu sig til að leggjast sameiginlega á árar til þess að takast á við þær áskoranir sem vinnumarkaðurinn og hagkerfi ríkjanna standa nú frammi fyrir.

Í sáttmálanum er meðal annars gert ráð fyrir að framkvæmdastjórnin skipi sérstakan sendifulltrúa (e. European Social Dialogue Envoy) sem er ætlað tryggja tímanlegt samráð við aðila vinnumarkaðarins um alla stefnumörkun og aðgerðir á sviði vinnumarkaðs- og félagsmála. Framkvæmdastjórnin skuldbindur sig einnig til að upplýsa aðilana um áherslur sem til stendur að kynna í árlegum starfsáætlunum framkvæmdastjórnarinnar áður en þær eru birtar. Þá hyggst framkvæmdastjórnin vinna með aðilum vinnumarkaðarins að vegvísi fyrir gæðastörf (e. Quality Jobs Roadmap).

Aðilar vinnumarkaðarins skuldbinda sig aftur á móti til þess að útbúa vinnuáætlun til nokkurra ára í senn þar sem settar eru fram aðgerðir til þess að bregðast við þeim efnahagslegu og félagslegu áskorunum sem vinnumarkaðir standa frammi fyrir auk þess að koma á sameiginlegum verklagsreglum til að efla innbyrðis samráð þeirra á meðal.

Þess má geta að Alþýðusamband Íslands er aðili að samtökum evrópskra verkalýðsfélaga (European Trade Union Confederation - ETUC) og Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru aðilar að Evrópusamtökum atvinnulífsins (Business Europe).

Óformlegur fundur heilbrigðisráðherra

Óformlegur fundur heilbrigðisráðherra ESB fór fram í Varsjá í Póllandi dagana 24.–25. mars sl. Heilbrigðisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna var einnig boðið til fundarins og sótti Alma D. Möller heilbrigðisráðherra fundinn fyrir hönd Íslands.

Í ávarpi heilbrigðisráðherra Póllands, Izabelu Leszczyna, í upphafi fundarins lagði hún ríka áherslu á mikilvægi heilbrigðismála sem hluta af öryggisstefnu ESB, sbr. umfjöllun hér að framan um nýjar stefnur á sviði viðbúnaðar- og öryggismála, en heilbrigðisviðbúnaður var einmitt einnig til umræðu á tvíhliða fundi sem Alma átti með Leszczyna í janúar sl., sbr. nánari umfjöllun um þann fund í fréttatilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.

Auk framangreinds var geðheilbrigði barna og ungmenna á stafrænum tímum á meðal megin umræðuefna á fundinum. Fjallað var um áhrif samfélagsmiðla og stafrænna tæknilausna á líðan barna og ungmenna. Fram kom að aukin skjánotkun tengdist m.a. kvíða, þunglyndi og svefnvandamálum og þá væri neteinelti og veik sjálfsmynd í kjölfar samanburðar á samfélagsmiðlum vandamál. Fundarmenn voru sammála um að efla þyrfti samvinnu milli ríkja til að takast á við þessar áskoranir og kom fram að stefnt væri að því að samþykkja ráðherrayfirlýsingu um forvarnir og geðheilbrigði á næsta formlega fundi heilbrigðisráðherra á vettvangi ráðherraráðs ESB sem haldinn verður í júní nk.

Lyfjaöryggi var einnig m.a. til umræðu á fundinum og var rætt um nauðsyn þess að auka aðföng og framleiðslugetu innan Evrópu svo sem á virkum lyfjaefnum. Heilbrigðisráðherra tók undir mikilvægi samstarfs á þessu sviði, ekki hvað síst fyrir minni ríki eins og Ísland, til að tryggja aðgang að nauðsynlegum lyfjum fyrir alla íbúa Evrópu, ekki síst í neyðartilvikum, með tilliti til stærðar og stöðu ríkja.

Vinnuferð ráðuneytisstjóra til Brussel

Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti, Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneyti, Sigrún Brynja Einarsdóttir, ráðuneytisstjóri í menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti, Stefán Guðmundsson ráðuneytisstjóri í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Bergdís Ellertsdóttir staðgengill ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneyti heimsóttu Brussel dagana 26. – 28. mars sl.

Í ferðinni áttu ráðuneytisstjórar ýmsa tvíhliða fundi með háttsettum stjórnendum innan framkvæmdastjórnar ESB þar sem ýmis viðfangsefni er varða samskipti Íslands og ESB og rekstur EES-samningsins voru til umræðu en auk þess fengu ráðuneytisstjórarnir almenna kynningu á nýrri starfsáætlun framkvæmdastjórnarinnar.

Ráðuneytisstjórarnir áttu jafnframt fund með Carsten Grønbech-Jensen sendiherra og fastafulltrúa Dana gagnvart ESB þar sem hann gerði þeim m.a. grein fyrir helstu áherslum í væntanlegri formennskuáætlun Dana, en Danir munu fara með formennsku í ráðherraráði ESB á seinni hluta þessa árs.

Þá heimsóttu ráðuneytisstjórarnir höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins þar sem þeir áttu fundi og fengu kynningu á stöðu helstu mála hjá bandalaginu. Loks áttu ráðuneytisstjórarnir fundi með stjórnendum og starfsmönnum í sendiráði Íslands í Brussel.

Ánægja með ESB aldrei mælst meiri í aðildarríkjunum

Samkvæmt nýútgefinni könnun á vegum Evrópuþingsins (Eurobarometer) hefur ánægja og stuðningur íbúa aðildarríkja ESB við aðild heimalands þeirra að ESB aldrei mælst meiri en nú frá upphafi mælinga árið 1983 eða 74%. Það sem fólki þykir vera helsti kostur aðildar hefur breyst og í fyrsta sinn telja flestir að helsti kostur aðildar sé hvernig ESB standi vörð um frið og öryggi. Þá er þetta einnig í fyrsta sinn sem öryggis- og varnarmál eru efst á blaði yfir þau svið sem svarendur telja að ESB eigi að leggja áherslu á, aukin samkeppnishæfni, efnahagsmál og atvinnumál eru nú í öðru sæti. Þá vilja tveir þriðju hlutar svarenda að ESB gegni veigameira hlutverki er kemur að því að standa vörð um öryggi gegn utanaðkomandi ógnum og yfirgnæfandi meirihluti svarenda, eða 89%, telja meiri samheldni (e. unity) aðildarríkja ESB nauðsynlega við að tækla alþjóðlegar áskoranir og jafnframt að ESB þurfi fleiri úrræði til þess. Könnunin er gerð tvisvar á ári og er úrtakið hátt í 30 þúsund íbúar aðildarríkja ESB.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta