Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2022 Innviðaráðuneytið

Breytingar á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga kynntar í samráðsgátt

Drög að frumvarpi um breytingar á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 14. nóvember 2022. Með frumvarpinu eru gerðar lágmarksbreytingar á lögunum sem miða að því að færa innheimtu meðlaga frá sveitarfélögum til ríkisins.

Markmiðið með tilfærslu á innheimtu meðlaga til ríkisins er að skapa trausta umgjörð um innheimtu meðlaga og annarra framfærsluframlaga, einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, stuðla að jákvæðri þróun starfseminnar og bæta þjónustu við meðlagsgreiðendur. Samkvæmt verkefnisáætlun er gert ráð fyrir heildarendurskoðun á lagaumhverfi innheimtu meðlaga, ábyrgð og eftirlit með innheimtu meðlaga o.fl. færist sem fyrst til ríkisins og að við taki síðan 8-12 mánaða undirbúnings- og yfirfærslutímabil.

Í kynningu á frumvarpinu í samráðsgátt segir að innviðaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu um að í ljósi langrar reynslu sýslumannsembættanna af innheimtu ýmissa opinberra gjalda og góðs árangurs innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi, sé verkefnið best staðsett hjá sýslumanninum á Norðurlandi vestra, þótt aðsetur starfsmanna verði áfram á höfuðborgarsvæðinu og á Ísafirði. Það væri í samræmi við tillögur Ríkisendurskoðunar í nýrri skýrslu hennar um Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Einnig er fyrirvari um það í samráðsgátt að frumvarpið kunni að taka einhverjum breytingum þegar fjárhagslegt ríkis og sveitarfélaga liggur fyrir vegna tilfærslunnar. Því væri áhrifamatskafli frumvarpsins enn til skoðunar. Mikilvægt væri þó að hefja yfirfærslu án tafar eins og lagt er til í skýrslu Ríkisendurskoðunar og er því gert ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi við fyrsta tækifæri.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum