Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Þórdís Kolbrún hefur lagt skýrslu um mótun klasastefnu fram á Alþingi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur lagt skýrslu um mótun klasastefnu fram á Alþingi. 

Klasar eru efnahagsleg vistkerfi sem notuð eru til að bæta samkeppnishæfni og auka verðmætasköpun. Klasa er hægt að nota í þrennum tilgangi, til að leysa núverandi áskoranir, breyta og þróa núverandi ástand til betri vegar og til að  koma auga á og vinna að framgangi framtíðarvaxtargreina í atvinnulífinu. Klasastefna er því mikilvægt verkfæri til að forgangsraða verkefnum og fjármunum með markvissum hætti, efla samvinnu vísinda og atvinnulífs í þágu nýsköpunar og aukinnar samkeppnishæfni í samræmi við stefnu stjórnvalda og efla þannig hagsæld og lífsgæði. Hlutverk hennar er að benda á aðferðir og leggja til aðgerðir til að styðja við efnahagsvöxt með hámarkslífsgæði í huga.

Stefnan er unnin í víðtæku samstarfi og samráði við grasrót atvinnulífsins sem og fjölda aðila innan stjórnkerfisins og hefur m.a. beina skírskotun til Nýsköpunarstefnu stjórnvalda til 2030  „Nýsköpunarlandið Ísland“, Vísinda- og tæknistefnu 2020–2022 og hefur margvíslegar tengingar við fleiri áherslur sem komið hafa fram á vegum stjórnvalda á síðustu árum.

Markmiðið með klasastefnunni er að nýta hugmyndafræði sem gengur út á að hraða árangri við þróun og innleiðingu nýrrar tækni og nýskapandi lausna á fjölmörgum sviðum. Loftslagsmál, sjálfbærni, stafrænt samfélag,  heilbrigðis- og velferðarlausnir og alþjóðasókn eru þar í forgangi.  

Klasastefna fyrir Ísland tekur á flóknu samspili fjölmargra þátta sem liggja að baki þeim umskiptum sem nú standa yfir. Meðal þeirra áskorana sem hvað mestu máli skiptir að takast á við eru stafræn umbreyting, sjálfbær vöxtur og hringrásarhugsun, líftækni og heilsa og alþjóðasókn sem er forsenda árangurs á öllum sviðum nýsköpunar.

Í stefnunni er sett fram sú framtíðarsýn að árið 2030 verði Ísland meðal fremstu þjóða heims hvað varðar sjálfbæra atvinnuuppbyggingu, samkeppnishæfni og almenna hagsæld, samkvæmt öllum helstu mælikvörðum. Skýrslu ráðherra má finna hér

 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

„Með klasastefnu erum við komin með verkfæri til að takast á við alla þætti nýsköpunar á forsendum þeirra sem vinna að verkefnunum hvar sem er á landinu. Hún er veigamikill þáttur í þeirri heildarendurskoðun og samþættingu á umhverfi nýsköpunar sem nú stendur yfir. Hún er einnig mikilvæg stoð fyrir samkeppnishæfni, verðmætasköpun og áframhaldandi sókn íslensks atvinnulífs.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum