Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Upplýsingasíða um lögverndun starfsgreina og starfsheita

Nýverið kom út skýrsla OECD um samkeppnismat á regluverki byggingariðnaðar og ferðaþjónustu. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafði forgöngu um gerð skýrslunnar í þeirri viðleitni að bæta skilyrði fyrir virkri samkeppni og draga úr óþarfa reglubyrði í þessum tveimur mikilvægum atvinnugreinum. Verkefnið var unnið af sérfræðingum OECD undir stjórn verkefnisstjóra frá samkeppnisdeild OECD og með þátttöku atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Samkeppniseftirlitsins auk annarra ráðuneyta og stofnana sem hafa tengsl við stjórnsýslu málaflokkanna.

Á meðan á verkefninu stóð starfaði stýrihópur um framkvæmd þess þar sem í sátu fulltrúar sex ráðuneyta og nokkurra stofnana. Ákvarðanir um framkvæmd og afmörkun verkefnisins voru teknar á vettvangi stýrihópsins, t.d. voru bakaraiðn og ljósmyndun valin vegna tengsla við þjónustu við ferðamenn. Í upphafi verkefnisins var valinn hópur samanburðarlanda sem voru Norðurlöndin, Holland, Bretland, Írland og Nýja Sjáland, en þetta eru lönd sem við berum okkur gjarnan saman við. OECD leitaði til haghafa til upplýsingaöflunar varðandi tiltekna þætti skýrslunnar. Endanleg skýrsla felur í sér 438 tillögur OECD til breytinga á regluverki sem eru til þess fallnar að efla samkeppni og draga úr reglubyrði og eru þær tillögur nú til skoðunar, meðal annars þær sem snúa að lögverndun starfsheita.

 

Í skýrslu OECD er m.a. fjallað um að erfitt geti verið fyrir iðnnema að komast á samning hjá meistara til að ljúka skyldubundnu vinnustaðanámi – og að það geti dregið úr áhuga á iðnnámi. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur nýlega kynnt í ríkisstjórn drög að nýrri reglugerð um vinnustaðarnám og starfsþjálfun iðnnema í framhaldsskólum, þar sem brugðist er við þessu, en reglugerðinni er annars vegar ætlað að færa ábyrgðina á því að iðnnámsnemandi komist í vinnustaðanám frá nemendunum sjálfum til skólanna, og hins vegar að auðvelda núverandi nemendum í iðnnámi að ljúka starfsþjálfun þrátt fyrir sveiflur í atvinnulífinu

 

Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið hefur sett upp upplýsingasíðu um lögverndun starfsgreina og starfsheita sem nálgast má hér. Breytingar á lögverndun starfsheita viðskipta- og hagfræðinga, sem og viðurkenningar bókara, eiga sér lengri aðdraganda sem tengist vinnu við einföldun regluverks í atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu og er að finna í einföldunarfrumvarpi sem kynnt var til samráðs fyrir skemmstu. Upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á þeim starfsheitum má einnig finna á upplýsingasíðunni.

 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum