Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Skýrsla verkefnastjórnar: Öryggi ferðamanna sameiginlegt viðfangsefni allra

Verkefnastjórn sem skoðaði hvaða fjölsóttu ferðamannastaðir eru til þess fallnir að ógna öryggi fólks umfram aðra, við vissar kringumstæður, hefur skilað menningar- og viðskiptaráðherra niðurstöðum sínum.

Verkefnastjórnin leggur til nokkrar aðgerðir þar á meðal að hafin verði vinna við að skilgreina tilgreind áhættusvæði og gert að skyldu að áhættumeta umrædd svæði með reglubundnum hætti.

Þá bendir hópurinn á að lögregla hefur nú þegar heimild samkvæmt 15. gr. lögreglulaga til að loka aðgengi að fjölsóttum ferðamannastöðum eða takmarka aðgengi að þeim vegna öryggissjónarmiða. Að mati verkefnastjórnar veitir sú heimild viðbragðsaðila tækifæri til að bregðast við með skjótum og einföldum hætti, meðal annars vegna þeirra ólíku aðstæðna sem skapað geta hættu á fjölsóttum ferðamannastöðum, s.s. í kjölfar skjótra breytinga á veðri.

„Við viljum að öll þau sem heimsækja Ísland og okkar fallegu ferðamannastaði séu örugg og meðvituð um helstu öryggisatriði. Þessi skýrsla varpar góðu ljósi á til hvaða aðgerða stjórnvöld geta gripið og nú munum við halda áfram að stuðla að bættu öryggi ferðamanna, innlendra og erlendra, um allt land,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra sem skipaði verkefnahópinn í janúar sl.

Ásamt fulltrúum menningar- og viðskiptaráðuneytis, sem og dómsmálaráðuneytis, sátu í verkefnastjórn fulltrúar frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu, Landsbjörgu, Umhverfisstofnun og lögreglunni á Suðurlandi. Í tengslum við vinnunna fundaði verkefnastjórn með yfirlögfræðingi Ríkislögreglustjóra, náttúruvárstjóra Veðurstofu Íslands og sérfræðingum Vegagerðarinnar.

 

Hér má lesa skýrsluna: Skýrsla verkefnastjórnar um öryggismál stjórnvalda og ferðaþjónustuaðila

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum