Hoppa yfir valmynd
13. desember 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á mánudegi, 13. desember 2021

Heil og sæl!

Upplýsingadeild heilsar héðan af Rauðarárstígnum á mánudegi og færir ykkur það helsta úr síðustu viku sem var nokkuð annasöm.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hóf vikuna á því að kynna til leiks nýjan aðstoðarmann, Þórlind Kjartansson, sem þegar hefur hafið störf. 

Sama dag ávarpaði Þórdís Kolbrún ráðherrafund Development Centre, þróunarmiðstöð Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD), þar sem sjónum var beint að nauðsyn þess að öll ríki heims hafi aðgang að bjargráðum til að takast á við afleiðingar heimsfaraldursins. Þórdís Kolbrún tók þátt í umræðu í gegnum fjarfundarbúnað um mikilvægi þess að bilið verði brúað milli þróunarríkja og auðugra ríkja hvað varðar aðgang að bóluefnum gegn COVID-19.

Á miðvikudag greindi svo ráðherra frá því að framlag Íslands til Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF) verði 95 milljónir króna á næsta ári. Þórdís Kolbrún greindi frá þessari ákvörðun á framlagaráðstefnu sjóðsins en Ísland mun veita 45 milljón króna viðbótarframlag auk venjubundins 50 milljón króna framlags sem Ísland greiðir samkvæmt rammasamningi við sjóðinn. 

Í ávarpi sínu á ráðstefnunni benti ráðherra á þá staðreynd að mannúðarþörf hafi aukist umtalsvert undanfarin ár. Áætlað er að 247 milljónir manna muni þurfa á mannúðaraðstoð að halda á næsta ári, sem er um 17 prósent aukning frá yfirstandandi ári. Þá undirstrikaði ráðherra mikilvægi þess að beina sérstakri athygli að konum og stúlkum í allri neyðaraðstoð. 

Á miðvikudag flutti Þórdís Kolbrún jafnframt ávarp á hátíðarmóttöku í sendiráði Íslands í Peking í tilefni af 50 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína. Vegna heimsfaraldursins voru ávörpin í myndbandsformi. Í ávarpi sínu undirstrikaði Þórdís Kolbrún m.a. sterkt viðskiptasamband ríkjanna og sagði vaxandi samstarf þeirra á sviði jarðhita og kolefnisendurvinnslu vera mikið ánægjuefni.

Á fimmtudag ávarpaði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fund Viðskiptaráðs þar sem utanríkisviðskipti voru efst á baugi en fundurinn bar yfirskriftina „Hvert fer álið og hvaðan koma ávextirnir?“. Þórdís Kolbrún hóf mál sitt á því að leggja áherslu á hlutverk utanríkisráðuneytisins sem ráðuneyti utanríkisviðskipta.

„Í fyrsta lagi stendur metnaður minn vitaskuld til þess að beina kröftum mínum mjög að viðskiptatengdum málum. Eitt af aðalverkefnum utanríkisþjónustunnar er að greiða fyrir viðskiptum og skapa tækifæri. Tækifæri svo atvinnulífið geti – fyrst og fremst á viðskiptalegum forsendum – ákveðið hvert álið fer og hvaðan ávextirnir koma – svo vísað sé í heiti fundarins. En þetta getur svo hæglega átt við um þjónustuviðskipti líka,“ sagði Þórdís Kolbrún í ræðu sinni.

Ráðherra ritaði jafnframt grein í Sunnudagsblað Morgunblaðsins um sama efni sem áskrifendur geta lesið hér.

Þá tísti ráðherra einnig í tilefni af því að Annalena Baerbock, hefur nú verið skipuð utanríkisráðherra Þýskalands.

Á föstudag var greint frá því að Ísland myndi tvöfalda framlög sín til Hnattræna jafnréttissjóðsins (Global Equality Fund) en sjóðurinn beinir stuðningi sínum sérstaklega að mannréttindum hinsegin fólks. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tilkynnti um þetta á fundi Alþjóðamálastofnunar og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands sem haldinn var í tilefni alþjóðlega mannréttindadagsins 10. desember.

Föstudagurinn var annasamur en þá fór einnig fram útskrift úr Jafnréttisskóla GRÓ. Tuttugu nemendur útskrifuðust frá fimmtán löndum og þar á meðal eru í fyrsta sinn nemendur frá Egyptalandi, Kína, Mexíkó, Mongólíu, Namibíu og Nepal. Alls hafa 172 nemendur frá 31 landi nú útskrifast með diplóma á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum frá Jafnréttisskóla GRÓ (GRÓ-GEST) við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, en skólinn hefur verið starfræktur frá árinu 2009. Hann er einn fjögurra sem tilheyra Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu en hún starfar undir merkjum UNESCO sem sjálfstæð stofnun.

„Við erum mjög stolt af GRÓ skólunum fjórum og nemendum þeirra sem vinna framúrskarandi starf á sínu sérsviði um allan heim,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra þegar hún óskaði útskriftarnemendunum velfarnaðar og hvatti þau til að nýta þekkingu sína til góðra verka í heimalöndum sínum. Lesa má alla ræðuna hér.

Fleira var á döfinni í vikunni. Á miðvikudag fór efnahagssamráð Bandaríkjanna og Íslands fram en þar var nýsköpun og samstarf á sviði grænnar orku í brennidepli. Fundurinn fór fram í Washington. Matt Murray, yfirmaður deildar á sviði efnahags- og viðskiptamála í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, leiddi fundinn af hálfu Bandaríkjamanna en Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fór fyrir íslensku sendinefndinni.

Á fimmtudag gerðist Ísland aðili að Marakess-sáttmálanum sem miðar að því að tryggja aðgengi blindra, sjónskertra og prentleturshamlaðra að höfundarréttarvörðu efni. Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands gagnvart alþjóðastofnunum í Genf, afhenti aðildaskjöl Íslands að sáttmálanum fyrir hönd íslenska ríkisins.

Á föstudag gerðist Ísland svo aðili að Evrópska öndvegissetrinu um fjölþáttaógnir í Helsinki. Öndvegissetrið var sett á fót árið 2017 með það að markmiði að efla getu ríkja til að mæta áskorunum á sviði fjölþáttaógna. Alls á 31 ríki aðild að setrinu, en Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið taka einnig þátt í starfsemi þess.

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Á vef sendiskrifstofu okkar í Nýju Delí birtust tvær fréttir í síðustu viku. Annars vegar af heimsókn Guðna Bragasonar sendiherra á skrifstofur Marel India í Bangaluru, sem er helstu nýsköpunarborg Indlands.

Þá stóð sendiráðið fyrir hádegisverðarfundi í Nýju-Delí með fólki úr viðskiptalífinu þar sem kynntar voru áherslur utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu í útflutningi og viðskiptum. 

Í Japan fór Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra til borgarinnar Kesennuma og ræddi þar við borgarstjórann Shigeru Sugawara. Þótti honum tilkomið að sjá hversu vel uppbygging borgarinnar hefur tekist eftir jarðskjálfta og flóðbylgju sem lagði stóran hluta borgarinnar í rúst árið 2011.


Þar fór einnig fram hliðarviðburður af heimsþingi kvenleiðtoga sem Women Political Leaders (WPL) standa fyrir, eða svokallað Reykjavíkursamtal (e. Reykjavík Conversation).

Slíkur viðburður fór einnig fram í Kanada.

Í Brussel var nóg um að vera í síðustu viku. Jólaball Íslendingafélagsins í Belgíu var haldið þar sem dansað var í kringum jólatré.

Þá fór Arctic Futures Symposium fram en það er tveggja daga ráðstefnu sem snýr að Norðurslóðum og helstu málefnum þeirra. Sendiherra norðurslóða, Pétur Ásgeirsson, tók þátt í umræðum um stjórnarhætti á norðurslóðum en í máli sínu lagði hann áherslu á að svæðið allt heyrði ýmist undir átta ríkin sem liggja að því eða alþjóðlega samninga, til að mynda Hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna, og það væri mikilvægt að umræða um svæðið, sem og vinna sem snýst um það, taki mið af því.




Íslenska kvikmyndin Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson var svo sýnd í Cinema Galeries á sérstakri sýningu í boði Creative Europe MEDIA áætlunarinnar, í samstarfi við Polarise Nordic Film Night. Sendiherra Íslands í Brussel Kristján Andri Stefánsson, hélt stutt ávarp. 

Í Kaupmannahöfn lagði áhugasamur hópur leið sína í sendiráðið í seinustu viku til að hlýða á kynningu á starfsemi utanríkisráðuneytisins og sendiráðsins frá Helgu Hauksdóttur sendiherra og Kristínu Kristjánsdóttur fulltrúa ræðismála.  


Í Rússlandi sóttu Pétur Ásgeirsson og Sólrún Svandal fund embættismannanefndar Norðurskautsráðsins.

Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Moskvu heimsótti svo Sochi þar sem hann talaði m.a. fyrir ágæti lýsis og veitti hin svokölluðu Lýsisverðlaun:

Í Winnipeg kvaddi Guðmundur Árni Stefánsson Íslendingasamfélagið í Manitoba með bréfi á Facebook-síðu aðalræðisskrifstofunnar:


Fastanefnd Íslands í Evrópuráðinu fagnaði svo kjöri Maríu Rúnar Bjarnadóttur, lögfræðings hjá Ríkislögreglustjóra og aðjúnkts við Háskólann á Akureyri, til setu í GREVIO, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með Istanbúl-samningnum um aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Hún mun sitja í nefndinni fyrst Íslendinga.

Í Peking fór auðvitað fram fyrrnefnd mótttaka vegna 50 ára afmælis stjórnmálasambands Alþýðulýðveldisins Kína og Íslands. Í sendiráðinu var einnig viðburður í síðustu viku þar sem íslenska fyrirtækið Carbon Recycling kynnti starfsemi sína og hyggst færa út kvíarnar.


Að lokum var Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York ánægður með samtal sitt við Achim Steiner, framkvæmdastjóra Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP).

 Á dagskrá í þessari viku er svo m.a. fundur norræna þróunarsamvinnuráðherra.

Við segjum þetta gott í bili.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum